Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Verðbólga ekki lægri í eitt ár

Verðbólga heldur áfram að hjaðna og er loksins komin undir 9%, í fyrsta sinn frá júní í fyrra. Útlit er fyrir áframhaldandi hjöðnun verðbólgunnar, sér í lagi vegna minni innfluttrar verðbólgu. Ansi seigt er í verðhækkunum á íbúðamarkaði þrátt fyrir vaxtahækkanir og mun þróunin á markaðinum skipta mikli máli varðandi verðbólguhorfur á næstunni.


Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,85% í júní skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólga hjaðnar í 8,9% en hún var 9,5% í maí síðastliðnum. Það er ár síðan verðbólga mældist undir 9%. Árshækkun vísitölu neysluverðs án húsnæðis hjaðnar einnig úr 8,5% í 7,9%.

Mæling júnímánaðar er yfir okkar spá, við spáðum 0,7% hækkun VNV milli mánaða en spár voru á bilinu 0,7 – 0,9%. Það helsta sem kemur okkur á óvart í mælingunni er hversu seigur íbúðamarkaður er og mun þróunin á honum skipta miklu máli varðandi verðbólguhorfur næsta kastið.

Íbúðamarkaður ansi seigur

Reiknaða húsaleigan hækkar um 1,6% (0,31% áhrif á VNV) á milli mánaða í júní þar sem bæði markaðsverð íbúðarhúsnæðis og vaxtaþáttur hafa áhrif til hækkunar. Markaðsverð íbúðarhúsnæðis hækkar um 1,0% á milli mánaða og vaxtaþátturinn um 0,6%.

Það er ansi seigt í íbúðamarkaðinum þrátt fyrir töluverðar vaxtahækkanir og hert lánaskilyrði á undanförnum misserum. Það sem skýrir hækkun á markaðsverði íbúðarhúsnæðis að stærstum hluta eru verðhækkanir á sérbýlum á höfuðborgarsvæðinu og húsnæði á landsbyggðinni. Sérbýlin hækka um 1,8% á milli mánaða og húsnæði á landsbyggðinni um 1,7%. Verð á landsbyggðinni hefur hækkað um 6,4% á síðustu þremur mánuðum. Minnst er verðhækkun á fjölbýlum á höfuðborgarsvæðinu en þau hækka um 0,4% á milli mánaða. Þrátt fyrir líf á íbúðamarkaði heldur áfram að draga talsvert úr árstakti hækkunar markaðsverðs íbúðarhúsnæðis sem mælist nú 7,9% á landinu öllu en náði hámarki í tæpum 25% fyrir ári síðan.

Flestir liðir vega til hækkunar

Að húsnæðisliðnum undanskildum er það liðurinn tómstundir og menning sem vegur þyngst til hækkunar í mánuðinum. Liðurinn hækkaði um 1,5% (0,15% áhrif á VNV) þar sem pakkaferðir og tómstundavörur vega þyngst. Þá hækkar verð á þjónustu hótela og veitingastaða um 2,7% á milli mánaða í júní (0,14% áhrif á VNV) þar sem langmestu munar um verð á gistingu sem hækkar um 17%. Um árstíðarbundna hækkun er að ræða þar sem háönn ferðaþjónustunnar er að ganga í garð. Samt sem áður er þetta meiri hækkun í liðnum en alla jafna í júnímánuði.

Matar- og drykkjarvörur hækka í verði um 0,5% (0,08% áhrif á VNV) á milli mánaða sem er minnsta hækkun í liðnum frá því í september í fyrra. Þetta er vonandi merki um hægari verðhækkun á matvörum á næstunni sem er einmitt þróunin víðast hvar erlendis. Sérstaka athygli vekur liðurinn ferðir og flutningar sem hækkar einungis um 0,65% (0,10% áhrif á VNV) þar sem flugfargjöld vega þyngst og hækka um 2,4% (0,05% áhrif á VNV). Alla jafna hækka flugfargjöld töluvert meira í júnímánuði þegar háönn ferðaþjónustunnar er að ganga í garð. Það má því ætla að flugfargjöld muni hækka talsvert í júlímánuði.

Þeir liðir sem vógu til lækkunar í mánuðinum eru húsgögn og heimilisbúnaður sem lækkaði um 1,3% (-0,08% áhrif á VNV) og póstur og sími sem lækkaði um 1,6% (-0,03% áhrif á VNV).

Horfur á áframhaldandi hjöðnun verðbólgunnar

Jákvætt er að þegar verðbólga eftir eðli og uppruna er skoðuð kemur í ljós að það dregur út framlagi flestra liða til ársverðbólgunnar. Mest dregur úr framlagi innfluttrar verðbólgu sem skýrir nú 1,9% af heildarverðbólgunni.  Húsnæðisliðurinn heldur áfram að vega þyngst til verðbólgu og skýrir um  2,9% af heildarverðbólgunni. Framlag innlendra vara minnkar lítillega og mælist 1,5% en framlag þjónustu eykst á milli mánaða og skýrir 2,6% af heildarverðbólgunni.

Loksins er verðbólga að hjaðna nokkuð hratt og ársverðbólga mælist í fyrsta sinn undir 9% í eitt ár.  Við erum nokkuð bjartsýn varðandi næstu mánuði og teljum að verðbólga muni halda áfram að hjaðna, fyrst nokkuð hratt en hægar á haustmánuðum. Við spáum 0,4% hækkun VNV í júlí, 0,3% í ágúst og 0,4% í september. Gangi spáin eftir mun ársverðbólga mælast 8,4% í september. Þetta er aðeins hægari hjöðnun en við gerðum áður ráð fyrir þar sem mánaðarbreyting júnímánaðar var yfir okkar spá. Að jafnaði spáum við að verðbólga verði 8,9% á árinu.

Auðvitað er óvissan talverð og margt sem þarf að ganga upp til að verðbólga hjaðni hratt. Fyrst og fremst þarf íbúðamarkaður að vera rólegur auk þess sem innflutt verðbólga þarf að halda áfram að hjaðna. Það er langt í markmið Seðlabankans og gerum við ekki ráð fyrir að þeim markmiðum verði náð á spátímanum. Í langtímaspá okkar gerum við ráð fyrir að verðbólga verði að jafnaði 5,3% árið 2024 og 3,6% árið 2025.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband