Matar- og drykkjarvörur hækka í verði um 0,5% (0,08% áhrif á VNV) á milli mánaða sem er minnsta hækkun í liðnum frá því í september í fyrra. Þetta er vonandi merki um hægari verðhækkun á matvörum á næstunni sem er einmitt þróunin víðast hvar erlendis. Sérstaka athygli vekur liðurinn ferðir og flutningar sem hækkar einungis um 0,65% (0,10% áhrif á VNV) þar sem flugfargjöld vega þyngst og hækka um 2,4% (0,05% áhrif á VNV). Alla jafna hækka flugfargjöld töluvert meira í júnímánuði þegar háönn ferðaþjónustunnar er að ganga í garð. Það má því ætla að flugfargjöld muni hækka talsvert í júlímánuði.
Þeir liðir sem vógu til lækkunar í mánuðinum eru húsgögn og heimilisbúnaður sem lækkaði um 1,3% (-0,08% áhrif á VNV) og póstur og sími sem lækkaði um 1,6% (-0,03% áhrif á VNV).
Horfur á áframhaldandi hjöðnun verðbólgunnar
Jákvætt er að þegar verðbólga eftir eðli og uppruna er skoðuð kemur í ljós að það dregur út framlagi flestra liða til ársverðbólgunnar. Mest dregur úr framlagi innfluttrar verðbólgu sem skýrir nú 1,9% af heildarverðbólgunni. Húsnæðisliðurinn heldur áfram að vega þyngst til verðbólgu og skýrir um 2,9% af heildarverðbólgunni. Framlag innlendra vara minnkar lítillega og mælist 1,5% en framlag þjónustu eykst á milli mánaða og skýrir 2,6% af heildarverðbólgunni.