Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Vefur Íslandsbanka er fyrirtækjavefur ársins

Íslandsbanki hlaut verðlaun sem besti fyrirtækjavefurinn á verðlaunahátíð Samtaka vefiðnaðarins (SVEF) sem fram fór 31. mars síðastliðinn. Vefur Íslandsbanka var tilnefndur sem Fyrirtækjavefur ársins í flokki stórra fyrirtækja.


Íslandsbanki innleiddi nýjan vef árið 2019 og var hann unninn í samvinnu við Kolibri. Síðan þá hefur vefurinn svo tekið nokkrum breytingum, en í samstarfi við Hugsmiðjuna hefur síðustu ár átt sér stað mikil vinna við þróun vefs Íslandsbanka en Hugsmiðjan hefur unnið með bankanum að stafrænum lausnum undanfarin ár. 

„Vefurinn er þægilegur í notkun og útskýrir flókið viðfangsefni á einfaldan hátt. Framúrstefnuleg hönnun sem hefur tekið góðum og markvissum ítrunum undanfarin ár gera vefinn að klassískum en traustum vef. Hönnuðir sækja oft innblástur í þennan vef og framsetninguna á honum, enda á vefurinn verðlaunin fyllilega skilið,“ segir í umsögn dómnefndar.

Í ár voru tilnefndir alls 65 vefir og verkefni í þrettán flokkum, en þeim er ætlað að endurspegla breidd þeirra verkefna sem íslenskur vefiðnaður kemur að.

SVEF eru fagsamtök þeirra er starfa að vefmálum á Íslandi, en markmið samtakanna er að miðla þekkingu og efla fagleg vinnubrögð í greininni. Frekari upplýsingar um Íslensku vefverðlaunin er að finna á vef samtakanna.