Það helsta úr yfirlýsingu peningastefnunefndar:
- Vísbendingar eru um að vaxtahækkanir undanfarin misseri hafi hægt á vexti almennrar eftirspurnar og umsvifum á húsnæðismarkaði.
- Þá eru vísbendingar um að verðbólguvæntingar séu farnar að lækka á ný þótt þær séu enn yfir verðbólgumarkmiði bankans.
- Eftirspurn á þriðja fjórðungi ársins virðist hafa verið kröftug en útlit er fyrir að heldur hægi á umsvifum eftir því sem líður á veturinn.
- Nýlegar vísbendingar af vinnumarkaði benda jafnframt til þess að spenna í þjóðarbúskapnum hafi náð hámarki.
- Þá hafa alþjóðlegar efnahagshorfur versnað og óvissa aukist sem kann að leiða til þess að hraðar dragi úr innlendri eftirspurn en áður var gert ráð fyrir.
Dúfur í stað hauka?
Þótt hófleg vaxtahækkun að þessu sinni sé skýrt merki um viðsnúning í vaxtastefnu peningastefnunefndar skiptir ekki síður máli að framsýn leiðsögn peningastefnunefndar er talsvert breytt frá síðustu yfirlýsingu í ágúst og má kalla hana hlutlausa.
Hún hljóðar svo (breytingar frá ágúst feitletraðar):
Peningastefnunefnd mun áfram tryggja að taumhald peningastefnunnar sé nægjanlegt til að verðbólga hjaðni í markmið innan ásættanlegs tíma. Peningastefnan mun á næstunni ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga. Ákvarðanir í atvinnulífi, á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum munu skipta miklu um þróun vaxta á næstu misserum.
Til samanburðar var framvirka leiðsögnin svona í ágúst:
Peningastefnunefnd telur líklegt að herða þurfi taumhald peningastefnunnar enn frekar til að tryggja að verðbólga hjaðni í markmið innan ásættanlegs tíma. Peningastefnan mun á næstunni ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga. Ákvarðanir í atvinnulífi, á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum munu skipta miklu um hversu hátt vextir þurfa að fara.
Þarna er sleginn talsvert mýkri tónn en verið hefur undanfarna fjórðunga.
Mögulega nóg að gert í aðhaldi peningamála
Á kynningarfundi í kjölfar vaxtaákvörðunarinnar kom fram að verðbólguspá Seðlabankans frá ágúst hefði væntanlega verið of svartsýn til skemmri tíma litið. Það væru komnar fram ýmsar vísbendingar að Seðlabankinn væri að ná árangri með vaxtastefnu sinni og hertum lánþega skilyrðum; 12 mánaða verðbólga væri byrjuð að lækka og verðþróun á íbúðamarkaði, sem skiptir miklu máli fyrir verðbólguna, væri breytt. Þróun íbúðaverðs væri lykilþáttur í að draga úr verðbólgu og ýta verðbólguvæntingum niður.