Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Vaxtahækkunarferli líklega lokið með 0,25 prósentu hækkun

Hækkun stýrivaxta um 0,25 prósentur var líklega lokahnykkurinn á vaxtahækkunarferli sem staðið hefur frá maí í fyrra. Stjórnendur Seðlabankans telja góðar líkur á að núverandi aðhald peningastefnu dugi til að kalla fram hjaðnandi verðbólgu. Stýrivextir gætu farið að lækka á ný þegar líður á næsta ár en þar munu komandi kjarasamningar ásamt hagþróun erlendis í íbúðaverði hérlendis leika lykilhlutverk.


Seðlabankinn tilkynnti í morgun þá ákvörðun peningastefnunefndar að hækka stýrivexti bankans um 0,25%. Meginvextir bankans, vextir á 7 daga bundnum innlánum, verða því 5,75%. Svo háir hafa vextirnir ekki verið síðan í ágúst árið 2016. Hækkunin var minni en birtar spár höfðu reiknað með, en bæði Greining Íslandsbanka og Hagdeild Landsbankans höfðu spáð 0,50% hækkun.

Stýrivextir hafa nú samtals hækkað um 5,0 prósentur frá því vaxtahækkunarferli bankans hófst í maí 2021.

Það helsta úr yfirlýsingu peningastefnunefndar:

  • Vísbendingar eru um að vaxtahækkanir undanfarin misseri hafi hægt á vexti almennrar eftirspurnar og umsvifum á húsnæðismarkaði.
  • Þá eru vísbendingar um að verðbólguvæntingar séu farnar að lækka á ný þótt þær séu enn yfir verðbólgumarkmiði bankans.
  • Eftirspurn á þriðja fjórðungi ársins virðist hafa verið kröftug en útlit er fyrir að heldur hægi á umsvifum eftir því sem líður á veturinn.
  • Nýlegar vísbendingar af vinnumarkaði benda jafnframt til þess að spenna í þjóðarbúskapnum hafi náð hámarki.
  • Þá hafa alþjóðlegar efnahagshorfur versnað og óvissa aukist sem kann að leiða til þess að hraðar dragi úr innlendri eftirspurn en áður var gert ráð fyrir.

Dúfur í stað hauka?

Þótt hófleg vaxtahækkun að þessu sinni sé skýrt merki um viðsnúning í vaxtastefnu peningastefnunefndar skiptir ekki síður máli að framsýn leiðsögn peningastefnunefndar er talsvert breytt frá síðustu yfirlýsingu í ágúst og má kalla hana hlutlausa.

Hún hljóðar svo (breytingar frá ágúst feitletraðar):

Peningastefnunefnd mun áfram tryggja að taumhald peningastefnunnar sé nægjanlegt til að verðbólga hjaðni í markmið innan ásættanlegs tíma. Peningastefnan mun á næstunni ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga. Ákvarðanir í atvinnulífi, á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum munu skipta miklu um þróun vaxta á næstu misserum.

Til samanburðar var framvirka leiðsögnin svona í ágúst:

Peningastefnunefnd telur líklegt að herða þurfi taumhald peningastefnunnar enn frekar til að tryggja að verðbólga hjaðni í markmið innan ásættanlegs tíma. Peningastefnan mun á næstunni ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga. Ákvarðanir í atvinnulífi, á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum munu skipta miklu um hversu hátt vextir þurfa að fara.

Þarna er sleginn talsvert mýkri tónn en verið hefur undanfarna fjórðunga.

Mögulega nóg að gert í aðhaldi peningamála

Á kynningarfundi í kjölfar vaxtaákvörðunarinnar kom fram að verðbólguspá Seðlabankans frá ágúst hefði væntanlega verið of svartsýn til skemmri tíma litið. Það væru komnar fram ýmsar vísbendingar að Seðlabankinn væri að ná árangri með vaxtastefnu sinni og hertum lánþega skilyrðum; 12 mánaða verðbólga væri byrjuð að lækka og verðþróun á íbúðamarkaði, sem skiptir miklu máli fyrir verðbólguna, væri breytt. Þróun íbúðaverðs væri lykilþáttur í að draga úr verðbólgu og ýta verðbólguvæntingum niður.

Einnig fjallaði forsvarsfólk bankans um efnahagshorfur erlendis, sem hefðu versnað jafnt og þétt undanfarið. Ísland væri lítið, opið hagkerfi sem ávallt yrði fyrir talsverðum áhrifum af því hvernig efnahagsvindar blésu í okkar viðskiptalöndum.

Stjórnendur bankans bentu á að mikil áhersla hefði verið á að hækka vexti hratt undanfarna fjórðunga og bankinn hefði verið á undan seðlabönkum víðast hvar í heiminum hvað varðar viðbrögð við vaxandi verðbólgu. Ef þróunin yrði áfram í rétta átt hvað verðbólgu og verðbólguvæntingar varðaði væri mögulega nóg að gert í aðhaldi peningamála. Þó væri áhyggjuefni að undirliggjandi verðbólga væri enn ekki að hjaðna.

Einnig kom fram á fundinum að stjórnendur bankans teldu virkni peningastefnunnar mun meiri og áhrif hennar kæmu hraðar fram en áður, ekki síst vegna þess hversu stór hluti af íbúðalánum væri orðinn óverðtryggður og vaxtabyrði þeirra væri því nátengdari stýrivöxtum en áður. Því gæti verið heppilegt að staldra við og sjá hvernig hækkun vaxta kæmi fram á komandi tíð áður en mikið meira yrði að gert í þeim efnum.

Þá hnykkti Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á því að að framhaldið væri að stórum hluta undir öðrum komið, til að mynda aðhaldsstigi opinberra fjármála sem og atvinnurekendum og forsvarsfólki launþegahreyfinga. Þar gæti niðurstaða komandi kjarasamninga skipt talsverðu máli. Hann benti einnig á að ef forystumenn verkalýðshreyfinga koma síendurtekið í fjölmiðla með fullyrðingar um að þau vilji hækka laun miklu meira en samræmist hóflegri verðbólgu þá geti verðbólguvæntingar hækkað í kjölfarið. Biðlaði Ásgeir eins og fyrri daginn til allra framangreindra aðila að leggjast á árarnar með Seðlabankanum í því að ná tökum á verðbólgunni.

Endalok vaxtahækkunarferlis?

Við teljum líklegt að vaxtahækkunarferli Seðlabankans sé nú lokið, að minnsta kosti í bili. Okkur þóttu stjórnendur bankans gefa það nokkuð sterkt til kynna að beðið yrði átekta um sinn meðan línur væru að skýrast um hvort viðsnúningur myndi festa sig í sessi hvað varðar hjöðnun verðbólgu og hægari eftirspurnarvöxt. Þá er líklegt að nokkur töf verði á því að ganga frá kjarasamningum og líklegt er að peningastefnunefndin vilji einnig sjá línur skýrast í þeim efnum.

Haldi fram sem horfir, að verðbólga hjaðni í þeim takti sem við gerum ráð fyrir, hagkerfið leiti í betra jafnvægi, íbúðaverð hækki mun hægar en verið hefur og veturinn verði ýmsum viðskiptalöndum fremur erfiður, teljum við að vextir hækki ekki frekar á komandi fjórðungum. Þar mun útkoma kjarasamninga vissulega líka skipta máli en halda ber til haga að síðasta spá Seðlabankans gerir ráð fyrir talsverðri hækkun launa og hefur nefndin líklega haft þá spá til hliðsjónar við ákvörðunina nú.

Í kjölfarið áætlum við að stýrivextirnir taki að lækka á ný þegar lengra líður á næsta ár.

Höfundar


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband

Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur


Hafa samband