Í fundargerðinni kemur fram að nefndarmenn töldu að bæði væru rök fyrir að halda meginvöxtum óbreyttum eða hækka þá um 0,25-0,5 prósentur. Vekur það fyrrnefnda athygli okkar þar sem hækkunartónninn var býsna eindreginn meðal nefndarmanna við ágústákvörðun stýrivaxta.
Helstu rök peningastefnunefndar fyrir óbreyttum vöxtum:
- Verðbólga hefði reynst minni undanfarið en búist var við
- Verðbólguhorfur til skamms tíma hefðu batnað
- Verðbólguvæntingar hefðu lækkað á nokkra mælikvarða
- Raunvextir bankans hefðu því hækkað á milli funda og útlit væri fyrir að þeir myndu hækka áfram héldi verðbólga áfram að hjaðna
- Komin væru greinileg merki um að aðgerðir bankans væru farnar að hafa áhrif á eftirspurn þar sem m.a. hefði dregið úr umsvifum og verðhækkunum á húsnæðismarkaði.
- Spenna á vinnumarkaði virtist einnig hafa minnkað undanfarið.
- Einnig mætti búast við hægari vexti einkaneyslu að öðru óbreyttu þar sem kaupmáttur heimila væri farinn að dragast saman.
- Alþjóðlegar efnahagshorfur væru verri en búist var við, einkum í ljósi hækkandi framfærslukostnaðar heimila í Evrópu og viðsjárverðra horfa varðandi framboð á orku, sem gæti haft neikvæð áhrif á útflutningshorfur hér á landi
Helstu rök nefndarinnar fyrir að hækka vexti:
- Þótt verðbólga hefði hjaðnað á milli funda væri hún enn vel yfir markmiði
- Undirliggjandi verðbólga hefði aukist
- Langtímaverðbólguvæntingar væru yfir markmiði
- Verðbólguhorfur í viðskiptalöndum hefðu versnað og hættan á annarrar umferðar áhrifum á innlenda verðbólgu myndi að sama skapi aukast ef fyrirtæki hleypa auknum aðfangakostnaði út í innlent verðlag.
- Árshækkun launa hefði verið töluverð um nokkra hríð og að mati nefndarmanna væri enn töluverð spenna á vinnumarkaði og innlend eftirspurn kröftug.
- Aðhald peningastefnunnar væri því ekki nægjanlegt miðað við stöðu hagsveiflunnar og spennuna í þjóðarbúskapnum þar sem raunvextir bankans væru enn neikvæðir og undir jafnvægisraunvöxtum.
- Mikilvægt væri að draga ekki of snemma úr aðhaldsstiginu þar sem annars gæti orðið enn kostnaðarsamara en ella að ná verðbólgu niður.
Til upprifjunar er hér framsýn leiðsögn peningastefnunefndarinnar frá ákvörðuninni í októberbyrjun:
Peningastefnunefnd mun áfram tryggja að taumhald peningastefnunnar sé nægjanlegt til að verðbólga hjaðni í markmið innan ásættanlegs tíma. Peningastefnan mun á næstunni ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga. Ákvarðanir í atvinnulífi, á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum munu skipta miklu um þróun vaxta á næstu misserum.
Þarna er sleginn talsvert mýkri tónn en verið hafði allt þetta ár og má segja að leiðsögnin sé hlutlaus eftir skýra hækkunarleiðsögn fyrr á árinu.
Sneggri til viðbragða en flestir
Síðasta vaxtaákvörðun ársins verður þann 23. nóvember næstkomandi. Við gerum ráð fyrir að stýrivöxtum verði haldið óbreyttum í 5,75% þá og raunar eru talsverðar líkur á því að Seðlabankinn hafi slegið botninn í vaxtahækkunarferli sitt í októberbyrjun.
Viðbrögð bankans við þróun verðbólgu og efnahagshorfa undanfarin misseri hafa vakið talsverða athygli erlendis. Fékk seðlabankastjóri til að mynda nýverið verðlaun Global Finance fjármálavefjarins fyrir að hafa einn seðlabankastjóra hlotið hæstu einkunn vefjarins í mati á peningastefnu seðlabanka á heimsvísu. Sem kunnugt er hafa helstu seðlabankar margir hverjir sætt vaxandi gagnrýni fyrir sein viðbrögð við vaxandi verðbólgu undanfarin misseri og eru þeir sumir hverjir í býsna þröngri stöðu þar sem þeir telja sig knúna til frekari hækkunar vaxta til að bregðast við þrálátri verðbólgu á sama tíma og efnahagshorfur hafa daprast verulega á heimsvísu.