Samdráttur í umsvifum WOW-air setur mark sitt á þróun utanríkisviðskipta það sem af er ári. Afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum var myndarlegur á fyrsta fjórðungi ársins þrátt fyrir talsverða fækkun ferðamanna hingað til lands á milli ára þar sem hver ferðamaður eyddi fleiri krónum að jafnaði, auk þess sem flugvélasala og minni leigukostnaður hjálpaði til. Horfur eru á að viðskiptaafgangur verði einhver í ár, en að minnkandi tekjur af ferðaþjónustu muni þó hafa umtalsverð áhrif til hins verra miðað við síðasta ári.
Vandræði WOW-air lita viðskiptajöfnuð í ársbyrjun
Samdráttur í umsvifum WOW-air setur mark sitt á þróun utanríkisviðskipta það sem af er ári. Afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum var myndarlegur á fyrsta fjórðungi ársins þrátt fyrir talsverða fækkun ferðamanna hingað til lands á milli ára þar sem hver ferðamaður eyddi fleiri krónum að jafnaði, auk þess sem flugvélasala og minni leigukostnaður hjálpaði til.
Myndarlegur afgangur af þjónustuviðskiptum á 1F
Afgangur af þjónustujöfnuði á fyrsta ársfjórðungi mældist tæplega 30 ma.kr. samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu Íslands. Það er 7 ma.kr. minni afgangur en var á sama fjórðungi í fyrra. Þar munar mestu að afgangur vegna samgangna á milli landa dróst saman um 8 ma.kr. á milli ára, útflutningstekjur af fjármálaþjónustu minnkuðu um tæpa 3 ma.kr. og útgjöld vegna innfluttrar fjarskipta- og tölvuþjónustu jukust um 3 ma.kr. á milli ára. Á móti vó að hreinar tekjur af ferðaþjónustu jukust um 2 ma.kr. og hrein útgjöld vegna liðarins „önnur viðskiptaþjónusta“ minnkuðu um nærri 7 ma.kr., en undir þennan lið fellur m.a. rekstrarleiga á flugvélum og öðrum farartækjum. WOW-air dró flugflota sinn verulega saman í kring um áramótin og er það væntanlega stór hluti skýringarinnar á hagstæðari útkomu þessa liðar það sem af er ári.
Þrátt fyrir að komum ferðamanna hingað til lands hafi fækkað um nærri 5% á 1F 2019 miðað við fyrra ár jukust útgjöld þeirra hér á landi um nærri 5 ma.kr. á milli ára og námu þau alls ríflega 66 mö.kr. Á móti jukust útgjöld íslenskra ferðalanga á erlendri grund um tæpa 3 ma.kr. og námu alls rúmlega 41 ma.kr. Samantekið var því þjónustujöfnuður tengdur farþegaflutningum með flugi og útgjöldum ferðamanna á áfangastað hagstæður um 49 ma.kr. á 1F 2019 samanborðið við 53 ma.kr. afgang á sama fjórðungi fyrir ári. Hér eru að mati okkar áhrif af gengislækkun krónu á seinni hluta síðasta árs að koma fram, en veikari króna hefur leitt til þess að útgjöld hvers ferðamanns í krónum talið hafa aukist talsvert upp á síðkastið.
Flugvélasala hressir upp á vöruskiptin
Nú liggja fyrir mælingar Hagstofu á tveimur helstu undirliðum viðskiptajafnaðar á 1F 2019. Sem fyrr segir var afgangur af þjónustujöfnuði tæpir 30 ma.kr. á tímabilinu. Aldrei slíku vant var hins vegar einnig afgangur af vöruskiptum á sama tíma, en það gerðist síðast fyrir 4 árum síðan. Afgangurinn nam 3,5 mö.kr. og skrifast hann að stórum hluta á 19 ma.kr. útflutningstekjur vegna sölu á flugvélum WOW air um áramótin. Að skipum og flugvélum slepptum var tæplega 22 ma.kr. halli á vöruskiptum á 1F 2019.
Útlit fyrir talsverðan viðskiptaafgang á 1F
Seðlabankinn birtir tölur um greiðslujöfnuð og erlenda stöðu þjóðarbúsins á 1F 2019 að viku liðinni. Með hliðsjón af framangreindum tölum teljum við líklegt að talsverður viðskiptaafgangur mælist á fjórðungnum. Í fyrra skilaði 1F ríflega 6 ma.kr. afgangi en fljótt á litið verður afgangurinn frekar á bilinu 20-30 ma.kr. á fyrsta fjórðungi þessa árs. Hins vegar er viðbúið að í harðbakkann slái með viðskiptajöfnuðinn á öðrum fjórðungi ársins þegar fall WOW-air kemur að fullu fram í þjónustuútflutningstölunum.
Á heildina litið teljum við að einhver afgangur reynist af utanríkisviðskiptum í ár, en hann verði þó líklega mun minni en þeir 81 ma.kr. sem utanríkisviðskipti skiluðu þjóðarbúinu í fyrra. Þar munar mestu um verulegan samdrátt í tekjum af ferðaþjónustu milli ára, en einnig á loðnubrestur hluta að máli. Á móti mun þó vega að útgjöld vegna ferðaþjónustu minnka töluvert á milli ára ásamt því að útflutningur botnfisks og áls mun væntanlega skila heldur fleiri krónum í kassann en í fyrra.