Þjónustujöfnuður við útlönd var jákvæður um 28,5 ma.kr. á lokafjórðungi síðasta árs samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Var afgangur af þjónustuviðskipum nær því nákvæmlega sá sami og á sama tíma ári fyrr. Alls skilaði þjónustuútflutningur tekjum upp á 188 ma.kr. á fjórða ársfjórðungi 2023 en útgjöld vegna þjónustuinnflutnings voru 160 ma.kr. á sama tíma.
Útflutningstekjur af þjónustu í örum vexti
Útflutningstekjur af ferðaþjónustu áttu stærstan þátt í tæplega 29 ma.kr. þjónustuafgangi á lokafjórðungi síðasta árs. Ferðaþjónustan hefur á ný endurheimt fyrri sess sem langstærsti útflutningsatvinnuvegur landsins og á sama tíma hefur annar þjónustuútflutningur sótt í sig veðrið. Lítilsháttar halli var á vöru- og þjónustuviðskiptum í fyrra og líklega var viðskiptajöfnuður í heild í grennd við núllið.
Eins og fyrri daginn var afgangurinn að mestu leyti til kominn vegna útflutningstekna í ferðaþjónustu og tengdum greinum. Ferðalög, samgöngur og flutningar skiluðu samtals 53 ma.kr. hreinum útflutningstekjum. Hins vegar var halli á viðskiptum tengdum ýmiskonar sérhæfðri þjónustu á borð við tækniþjónustu (11,4 ma.kr. halli), menningar- og afþreyingarþjónustu (6,5 ma.kr. halli) og sérfræði- og ráðgjafarþjónustu (3,6 ma.kr.).
Myndarlegur afgangur af jöfnuði tengdum ferðalögum
Glöggt má sjá í tölunum að þótt ferðagleði landsmanna hafi aukist verulega á ný eftir faraldur munar þó töluvert meira um aukinn ferðamannastraum til landsins. Þannig voru útflutningstekjur tengdar farþegaflutningum og ferðalögum 110 ma.kr. á lokafjórðungi síðasta árs en útgjöld vegna ferðalaga landsmanna erlendis voru 56 ma.kr. á sama tíma. Hreinar útflutningstekjur í þessum liðum voru því samtals 54 ma.kr. á fjórða fjórðungi samanborið við 40 ma.kr. árið áður. Trúlega hefði þessi afgangur þó orðið nokkru meiri ef ekki hefði komið til bakslag í Íslandsferðum erlends ferðafólks í kjölfar jarðhræringa á Reykjanesi á lokamánuðum ársins.
17 milljarða halli á vöru- og þjónustuviðskiptum 2023
Nú liggja fyrir heildartölur fyrir viðskipti með vörur og þjónustu á síðasta ári. Alls var afgangur af þjónustuviðskiptum sem nam 288 ma.kr. á árinu 2023. Var það aukning um 91 ma.kr. frá árinu áður. Á móti þessum myndarlega þjónustuafgangi vó að vöruskiptahalli í fyrra var 305 ma.kr. og hefur aldrei verið meiri í krónum talið. Samanlagður halli á vöru- og þjónustuviðskiptum á árinu 2023 var því 17 ma.kr. en var til samanburðar tæpir 11 ma.kr. á árinu 2022.
Vaxandi vöruskiptahalli skýrist af því að þótt dregið hafi úr vöruinnflutningi um 8% á síðasta ári frá árinu áður dróst vöruútflutningur þó enn meira saman, eða um 10% í krónum talið. Það skýrist ekki síst af óhagstæðri verðþróun áls og álafurða auk þess sem útflutningsverðmæti sjávarafurða minnkaði nokkuð milli ára.
Þar sem ferðaþjónustan sótti á sama tíma talsvert í sig veðrið urðu verulegar hlutfallsbreytingar á vægi helstu útflutningsgreina í útflutningstekjum þjóðarbúsins eins og sjá má af meðfylgjandi mynd.
Þjónustuútflutningur sækir í sig veðrið
Á síðasta ári aflaði ferðaþjónustan 598 ma.kr. í útflutningstekjum. Samsvarar það rétt tæplega 1/3 af öllum útflutningstekjum þjóðarbúsins í fyrra. Til samanburðar voru útflutningstekjur af sjávarafurðum 337 ma.kr. (18,3% af heild) og tekjur af útflutningi áls 324 ma.kr. (17,6% af heild). Ferðaþjónustan aflaði því u.þ.b. 90% af samanlögðum tekjum af fisk- og álútflutningi.
Síðast en ekki síst ber að nefna að þjónustuútflutningur annar en tekjur af ferðamönnum hefur verið að sækja í sig veðrið jafnt og þétt. Alls skilaði slík þjónusta 314 ma.kr. útflutningstekjum í fyrra og er því komin upp að hlið áls og sjávarútvegs hvað tekjuöflun varðar. Í grófum dráttum má þannig segja að útflutningstekjur Íslands séu um þessar mundir bornar uppi af fjórum meginstoðum: Ferðaþjónustu (32,5% af heild), sjávarútvegi (18,3%), álframleiðslu (17,6%) og þjónustu við aðra en ferðamenn (17%). Útflutningur annarra iðnaðarvara á svo 10,4% hlutdeild í heildartekjunum og annar vöruútflutningur af ýmsu tagi, s.s. landbúnaðarvöru, skila þeim rúmu 4% sem upp á vantar.
Viðskiptajöfnuður líklega nærri núllinu í fyrra
Nú liggja fyrir tölur um tvo af fjórum helstu undirliðum viðskiptajafnaðar á síðasta ári og sem fyrr segir var halli á vöru- og þjónustuviðskiptum 17 ma.kr. Seðlabankinn birtir tölur fyrir hina undirliðina, þáttatekjur og framlög milli landa, að tæpum tveimur vikum liðnum. Síðarnefndu liðirnir skiluðu samanlagt ríflega 5 ma.kr. afgangi á fyrstu þremur fjórðungum síðasta árs. Verði tölur fyrir lokafjórðung ársins í takti við síðustu ár er því líklegt að viðskiptajöfnuður reynist nálægt jafnvægi á árinu í heild. Við áætluðum í nýlega birtri þjóðhagsspá okkar að viðskiptajöfnuður ársins 2023 myndi reynast í grennd við núllið. Tölurnar nú virðast ríma ágætlega við þá áætlun. Í kjölfarið gerum við ráð fyrir lítilsháttar viðskiptaafgangi bæði á þessu ári og næstu tveimur árum. Það virðist því hvorki vera í kortunum viðskiptaafgangur í líkingu við þann myndarlega afgang sem var á uppgangsárum ferðaþjónustu á síðasta áratug né umtalsverður halli líkt og var nánast reglan áratugina þar á undan.