Núverandi hagsveifla hefur reynst lífseigari en margir töldu. Árin 2013-2017 var hagvöxtur að jafnaði 4,4% ár hvert. Uppgangur ferðaþjónustunnar á hér drjúgan hluta að máli ásamt fleiri hagfelldum þáttum sem ýtt hafa undir myndarlegan vöxt einkaneyslu og fjárfestingar.
Eftir myndarlegan hagvöxt á fyrstu 9 mánuðum síðasta árs eru hins vegar um að hægt hafi talsvert á vextinum á lokafjórðungi ársins og gerum við því ráð fyrir að vöxtur hafi verið 3,7% á árinu 2018 í heild.
Útlit er fyrir mun hægari vöxt á árinu 2019. Drifkraftar vaxtar undanfarinna missera munu allir verða í einhvers konar hvíldarstöðu á árinu. Einkaneysluvöxtur verður hægur, vöxtur þjónustuútflutnings lítill og samdráttur verður í fjárfestingu atvinnuvega frá fyrra ári samkvæmt spá okkar, sem hljóðar upp á 1,1% hagvöxt á yfirstandandi ári.
Horfur eru á að vöxtur glæðist að nýju á árinu 2020 og reynist þá 3,1%. Þar kemur við sögu líflegri vöxtur einkaneyslu, endurkoma vaxtar í atvinnuvegafjárfestingu og áframhaldandi vöxtur annarrar fjárfestingar sem og vöru- og þjónustuútflutnings.