Ólíku var saman að jafna um aprílmælingu höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar. Verð á fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,8% á milli mánaða og verð á sérbýlum hækkaði um 0,9%. Hins vegar lækkaði verð á landsbyggðinni um 2,5% eftir óvenju mikla hækkun í marsmánuði.
Undanfarna 12 mánuði hefur íbúðaverð á landinu öllu hækkað um 4,6% samkvæmt tölum Hagstofunnar og raunhækkun íbúðaverðs nemur því 1,3% ef mið er tekið af VNV. Mest hefur verðið hækkað á landsbyggðinni, eða um tæp 9%, en á höfuðborgarsvæðinu hefur verð fjölbýla hækkað um 3,4% og verð sérbýla um 4,3%.
Í heild vó húsnæðisliður VNV til 0,01% hækkunar í apríl og skýrist sú hækkun af 0,3% hækkun greiddrar húsaleigu.
Áhrif veikingar krónu að sjatna
Að ferðum og flutningum slepptum vó 0,9% verðhækkun á fötum og skóm einna mest til hækkunar VNV í apríl (0,04% í VNV). Það sem af er ári hafa föt og skór hins vegar lækkað lítillega í verði og er því ekki að sjá að nýjar vörur sem settar voru í sölu að útsölum loknum hafi almennt verið verðlagðar hærra en eldri vörur þrátt fyrir að gengi krónu hafi lækkað um 9,5% á síðasta þriðjungi ársins 2018.
Alls hækkuðu innfluttar vörur um 0,44% í aprílmánuði og hefur hækkun þeirra ekki mælst minni milli mánaða frá miðju síðasta ári ef frá eru talin útsöluáhrif. Frá miðju síðasta ári hafa innfluttar vörur hækkað í verði um tæp 3%. Þessi hóflega hækkun hefur komið okkur ánægjulega á óvart í ljósi framangreindrar gengislækkunar krónu og skýrist hún væntanlega að stórum hluta af harðnandi samkeppni í smásöluverslun og vaxandi blikum á lofti um eftirspurn neytanda á komandi mánuðum.