Umfang svika tengdum bankaþjónustu einstaklinga hefur farið vaxandi og hefur bankinn þegar gripið til margvíslegra aðgerða til að auka öryggi viðskiptavina sinna.
Breytingin sem nú hefur verið gerð tengd Google Pay felst í því að viðskiptavinir sem staddir eru í útlöndum geta hér eftir ekki handvirkt virkjað nýjan Google Pay aðgang í Android símum sínum. Viðskiptavinir í þeirri stöðu geta hins vegar notað Íslandsbankaappið og virkjað greiðslukort sín í Google Pay með því að ýta á sérstakan Google Pay hnapp.
Landalokun þessari er beitt til þess að verja viðskiptavini bankans komi til þess að tölvuþrjótar komist yfir kort þeirra og reyni að setja upp Google Pay á öðru símtæki utan Íslands. Núna er ekki hægt að gera það nema að hafa samband við ráðgjafaver bankans.
Önnur breyting kemur í kjölfar greiningar á notkun viðskiptavina á erlendum símgreiðslum. Tekin var ákvörðun um að loka fyrir aðgengi að símgreiðslum í netbanka hjá einstaklingum sem ekki hefðu nýtt sér þær síðustu 6 mánuði. Um er að ræða 174.445 einstaklinga sem þurfa að hafa samband við ráðgjafaver og láta opna á aðgengið aftur hyggist þeir nýta sér erlendar millifærslur eða símgreiðslur.
Markmiðið er að sporna við því að tölvuþrjótar geti hlaðið upp Swift-greiðslum og tæmt reikninga fólks sem lendir í svikum, komist þeir yfir aðgengi að netbanka. Viðskiptavinir geta að sjálfsögðu alltaf látið opna á þessa virkni fyrir sig í ráðgjafaveri þurfi þeir á henni að halda. Þá mun þessi virkni framvegis ekki virkjast sjálfkrafa þegar reikningar eru stofnaðir.
Sem betur fer er fátítt að viðskiptavinir bankans lendi í klóm tölvuglæpamanna. Breytingarnar sem hér er greint frá eiga að draga úr líkum á fjárhagslegu tjóni viðskiptavina og auka öryggi þeirra fari svo að óvandaðir komist yfir kortaupplýsingar eða aðgang þeirra í netbanka.