Reitun hefur uppfært UFS mat Íslandsbanka þar sem mældur er árangur á sviði sjálfbærni. Íslandsbanki leggur ríka áherslu á góða frammistöðu á sviði sjálfbærni og hefur verið í hópi þeirra fyrirtækja sem fremst hafa staðið í þeim efnum. Í UFS mati Reitunar er horft til þriggja meginþátta, sem eru umhverfis - og félagsþættir, auk stjórnarhátta.
Fyrra mat sem kynnt var í júní var gefið út með fyrirvara um niðurstöðu í skoðun Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands á sölunni á eignarhluta ríkisins í bankanum í mars í fyrra.
„UFS einkunn bankans lækkar um 1 þrep og fer úr flokki A3 í flokk B1, þar sem stigafjöldi lækkar úr 90 stigum í 84 stig. Það er niðurstaða Reitunar að viðbrögð bankans við málinu hafi verið góð og jákvætt er að unnið sé að viðeigandi úrbótum sem mun geta leitt bankann til hækkunar á næstu árum,“ segir í uppfærðu mati.