Seðlabankinn tilkynnti í morgun þá ákvörðun peningastefnunefndar að hækka stýrivexti bankans um 0,25 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á 7 daga bundnum innlánum, verða því 1,50%. Vaxtaákvörðunin var í samræmi við opinberar spár, þar á meðal okkar. Stýrivextir Seðlabankans hafa nú hækkað í þrígang frá maíbyrjun og nemur hækkunin samtals 0,75 prósentum. Hafa vextirnir ekki verið hærri frá maí í fyrra.
Þriðja vaxtahækkun Seðlabankans í ár í samræmi við væntingar
0,25 prósentu hækkun stýrivaxta í 1,50% var í samræmi við væntingar. Peningastefnunefnd bankans hefur áhyggjur af hugsanlegri hækkun á verðbólguvæntingum þótt frávik verðbólgu frá markmiði skýrist í vaxandi mæli af hækkun íbúðaverðs, sem stjórnendur bankans telja tímabundið ástand. Vaxandi líkur eru á hækkun vaxta í nóvember.
Yfirlýsing peningastefnunefndar var fremur stuttorð í þetta skiptið. Samkvæmt henni reyndist hagvöxtur á fyrri árshelmingi heldur minni en gert hafði verið ráð fyrir í ágústspá Seðlabankans. Innlend eftirspurn óx þó í samræmi við væntingar. Vísbendingar eru hins vegar um kröftugan efnahagsbata á þriðja ársfjórðungi og telur nefndin að efnahagshorfur fyrir árið í heild séu enn í samræmi við ágústspána, en þar var hagvöxtur yfirstandandi árs áætlaður 4%.
Peningastefnunefndin virðist nokkuð tvístígandi í því hvernig eigi að túlka vísbendingar um verðbólguhorfur og -væntingar þessa dagana. Í yfirlýsingunni er vísað í nýlegar verðbólgutölur septembermánaðar, en framlag húsnæðisliðar hefur aukist jafnt og þétt og skýrði það stóran hluta af 4,4% ársverðbólgu í síðasta mánuði. Hins vegar hélt undirliggjandi verðbólga áfram að hjaðna.
Þá er það nefnt að framboðstruflanir á heimsvísu gætu reynst þrálátari og áhrif þeirra á framleiðslu- og dreifingarkostnað vara á heimsvísu langvinnari en vonast var til.
Hins vegar veldur það nefndinni meiri áhyggjum að þótt undirliggjandi verðbólga fari minnkandi virðast verðbólguvæntingar hafa tekið að hækka á ný. Of snemmt sé þó að segja til um hvort kjölfesta væntinganna við verðbólgumarkmið sé að veikjast. Ekki kom fram í yfirlýsingunni til hvaða væntinga er vísað en líklega horfir hún þar til verðbólguálags á skuldabréfamarkaði sem hefur hækkað undanfarnar vikur. Nýleg mæling á væntingum stjórnenda fyrirtækja var hins vegar eilítið jákvæðari hvað verðbólgu komandi missera varðar en mælingin þar á undan, eins og við fjölluðum um í nýlegu Korni.
Framsýn leiðsögn yfirlýsingarinnar er stutt og laggóð, enda óbreytt frá síðustu vaxtaákvörðun:
„Peningastefnunefnd mun beita þeim tækjum sem hún hefur yfir að ráða til að tryggja að verðbólga hjaðni aftur í markmið innan ásættanlegs tíma.“
Þessi orð túlkum við þannig að Seðlabankinn sé að öðru óbreyttu í jöfnu og þéttu vaxtahækkunarferli enda mátti ráða það af bæði orðum forsvarsmanna bankans á kynningarfundi í ágúst sem og fundargerð vaxtaákvörðunarfundanna þá.
Innlendur og erlendur verðbólguþrýstingur ræddur
Á kynningarfundi eftir vaxtaákvörðunina kom fram að peningastefnunefndin horfir a.m.k. að hluta fram hjá tímabundnum erlendum kostnaðarþrýstingi vegna alþjóðlegra framboðshnökra. Þó skipti þar máli hver kjölfesta verðbólguvæntinga sé. Ef hún sé farin að veikjast þurfi frekar að bregðast við verðbólguþrýstingi af hvaða rótum sem hann er runninn. Hér hafa stjórnendur bankans trúlega í huga að þótt peningastefnan geti lítið tjónkað við verðhreyfingar erlendis geta hærri vextir haft áhrif á gengisþróun krónu og vitaskuld einnig dregið úr innlendum kostnaðarþrýstingi á móti með tíð og tíma. Stjórnendur bankans telja þó að áhrif hinnar erlendu þróunar á verðbólgu innanlands séu hófleg enn sem komið er.
Í svari Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra við spurningum á fundinum kom m.a. fram að Seðlabankinn hefði að hans mati náð árangri í að halda aftur af verðbólgu undanfarið. Verðbólga án húsnæðis væri komin nálægt markmiði bankans en húsnæðisliðurinn héldi uppi verðbólgu þessa dagana. Bankinn þyrfti lögum samkvæmt að miða við vísitölu neysluverðs, þar sem íbúðaverð hefur talsverð áhrif í gegn um reiknaða húsaleigu og fasteignaverðþróunin kæmi fremur hratt fram í verðbólgunni.
Ýmsar vísbendingar væru um spennu á íbúðamarkaði, til að mynda stuttur sölutími og hátt hlutfall eigna sem væri að seljast yfir ásettu verði. Þetta ástand, sem endurspeglaði misvægi milli framboðs og eftirspurnar, væri hins vegar líkast til tímabundið að hluta. Mesti verðþrýstingurinn gæti því hjaðnað fremur fljótt. Einnig tryggðu tæki fjármálastöðugleikanefndar tiltekið jarðsamband og ættu að hjálpa til við að róa markaðinn þegar fram í sækir. Má þar nefna hámark á lánsfjárhlutfall, sem í sumar var lækkað úr 85% í 80% fyrir flesta kaupendur, og nýsettar reglur um hámark greiðslubyrði fasteignalána af ráðstöfunartekjum við 35% hjá öðrum en fyrstu kaupendum.
Þá væri líklegt að framboðið tæki við sér með tímanum. Verktakar legðu þessa dagana áherslu á að klára nýbyggingar íbúðarhúsnæðis og koma íbúðunum sem fyrst á markað. Einnig væri enn til staðar landrými til nýrra íbúðabygginga víðast hvar og myndarleg spurn myndi því á endanum kalla fram aukið framboð.
Aðspurður um nýlegar vísbendingar um bjartari efnahagshorfur á komandi vetri, s.s. myndarlega loðnukvótaráðgjöf og væntanlega opnun Bandaríkjanna gagnvart evrópskum ferðamönnum, svaraði Ásgeir því til að rétt væri að taka slíkum fréttum með tilteknum fyrirvara. Okkur þykir þó líklegt að þær muni að einhverju leyti endurspeglast í nýrri hagspá Seðlabankans sem birt verður samhliða síðustu vaxtaákvörðun ársins um miðjan nóvembermánuð.
Verða vextir hækkaðir aftur í nóvember?
Sá tónn sem sleginn var við vaxtaákvörðunina nú er að mestu í samræmi við væntingar okkar. Í nýlegri stýrivaxtaspá gerðum við ráð fyrir óbreyttum vöxtum við síðustu vaxtaákvörðun ársins í næsta mánuði og að vaxtahækkunarferlið myndi í kjölfarið halda áfram á nýju ári. Líkur hafa þó aukist á hækkun vaxta í nóvember og gæti sú niðurstaða orðið ofan á ef verðbólguhorfur skána ekki og horfur um efnahagsbatann daprast ekki í millitíðinni.