Nýverið bárust þær gleðilegu fréttir að Ísland, ásamt Hollandi og Danmörku, hefði fengið hæstu einkunn í alþjóðlegu mati Mercer og CFA Institute á lífeyriskerfum á heimsvísu. Í morgun tilkynnti svo næststærsti lífeyrissjóður landsins, LIVE, að áunnin réttindi í sameignardeild sjóðsins yrðu hækkuð um 10% vegna styrkrar tryggingafræðilegrar stöðu sjóðsins. Íslenska lífeyriskerfið hefur náð góðum árangri í ávöxtun eigna sjóðfélaga undanfarin ár og því er athyglisvert að rýna í þróunina undanfarna fjórðunga.
Eignir sjóðanna rúmlega tvöföld landsframleiðsla
Eignir íslenskra lífeyrissjóða námu alls 6.445 mö.kr. í lok september síðastliðins samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans. Það jafngildir ríflega tvöfaldri landsframleiðslu ársins 2021 miðað við spá okkar frá september síðastliðnum. Frá áramótum hafa eignirnar aukist um 713 milljarða króna og munar þar langmestu um innlenda og erlenda hlutabréfaeign.