Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Þriðja góða árið í röð hjá lífeyrissjóðunum

Eignir íslenskra lífeyrissjóða námu ríflega tvöfaldri landsframleiðslu í septemberlok og hafa þær aukist um ríflega 12% frá áramótum. Hagfelld þróun á innlendum og erlendum hlutabréfamörkuðum ásamt hreinu innflæði iðgjalda skýrir þá þróun að stórum hluta. Útlit er fyrir að 2021 verði þriðja árið í röð þar sem raunávöxtun eigna sjóðanna verður talsvert umfram 3,5% uppgjörsviðmið þeirra.


Nýverið bárust þær gleðilegu fréttir að Ísland, ásamt Hollandi og Danmörku, hefði fengið hæstu einkunn í alþjóðlegu mati Mercer og CFA Institute á lífeyriskerfum á heimsvísu. Í morgun tilkynnti svo næststærsti lífeyrissjóður landsins, LIVE, að áunnin réttindi í sameignardeild sjóðsins yrðu hækkuð um 10% vegna styrkrar tryggingafræðilegrar stöðu sjóðsins. Íslenska lífeyriskerfið hefur náð góðum árangri í ávöxtun eigna sjóðfélaga undanfarin ár og því er athyglisvert að rýna í þróunina undanfarna fjórðunga.

Eignir sjóðanna rúmlega tvöföld landsframleiðsla

Eignir íslenskra lífeyrissjóða námu alls 6.445 mö.kr. í lok september síðastliðins samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans. Það jafngildir ríflega tvöfaldri landsframleiðslu ársins 2021 miðað við spá okkar frá september síðastliðnum. Frá áramótum hafa eignirnar aukist um 713 milljarða króna og munar þar langmestu um innlenda og erlenda hlutabréfaeign.

Erlendu eignir sjóðanna voru alls 2.258 ma.kr. sem samsvarar 35% af heildareignum þeirra. Hlutfall erlendra eigna af heildareignum hefur hækkað jafnt og þétt undanfarin ár. Til samanburðar var það tæplega 22% í árslok 2016. Segja má að talsverðum hluta viðskiptaafgangs undanfarinna ára hafi verið varið til þess að auka við erlendar eignir lífeyrissjóðanna enda endurspeglast jákvæð hrein erlend staða þjóðarbúsins upp á rúman þriðjung af VLF (miðað við júnílok 2021) að talsverðum hluta í þessum eignum.

Erlendar eignir lífeyrissjóða eru að langmestu leyti í erlendum hlutabréfasjóðum. Virði þeirra í krónum, og þar með hlutfall þeirra af heildareignum að frátöldum hreinum eignakaupum á hverjum tíma, þróast því í takti við annars vegar gengi á erlendum hlutabréfamörkuðum og hins vegar gengisbreytingar krónu. Frá áramótum hafa þessar eignir hækkað um 327 ma.kr. eða sem nemur 17%. Samkvæmt tölum Seðlabankans keyptu lífeyrissjóðirnir gjaldeyri fyrir samtals 46 ma.kr. á fyrstu átta mánuðum ársins. Þá má nefna að á fyrstu þremur fjórðungum ársins hækkaði MSCI heimsvísitala hlutabréfa um tæp 20% og S&P500 vísitalan bandaríska um 16% en á móti styrktist gengi krónu gagnvart helstu myntum um 2% frá áramótum. Aukning erlendu eignanna endurspeglar því að stærstum hluta hækkun á erlendum mörkuðum auk nokkurra eignakaupa en krónuhreyfingin vegur lítillega á móti.

Íbúðalán minnka en hlutur óverðtryggðra lána eykst

Íbúðalán til sjóðfélaga hafa aukist mikið í eignasafni lífeyrissjóða frá því sem var um miðjan síðasta áratug. Hámarki náði sú þróun um mitt ár 2020 þegar útistandandi íbúðalán voru 545 ma.kr. sem jafngildir ríflega 10% af heildareignum sjóðanna á þeim tíma. Undanfarið ár hefur hins vegar dregið talsvert úr útistandandi lánum. Tengist það vaxandi ásókn í óverðtryggð íbúðalán samhliða lækkun óverðtryggðra vaxta en lífeyrissjóðir hafa á heildina litið verið atkvæðameiri í verðtryggðum útlánum en þeim óverðtryggðu. Síðarnefndi lánaflokkurinn hefur þó farið stækkandi á eignahlið lífeyrissjóðanna og voru óverðtryggð íbúðalán ríflega fjórðungur af útlánasafni þeirra til heimila í septemberlok.

Útlit fyrir myndarlega raunávöxtun í ár

Undanfarin ár hafa verið lífeyrissjóðunum gjöful hvað ávöxtun varðar. Á seinasta ári nam raunávöxtun samtrygginga- og séreignakerfisins að jafnaði 9,5% og 11,8% árið 2019 samkvæmt tölum frá Seðlabankanum. Er það mun betri árangur en það 3,5% raunávöxtunarviðmið sem óbeint liggja til grundvallar í mati á stöðu sjóðanna gagnvart núverandi og tilvonandi lífeyrisþegum. Reyndar hefur raunávöxtunin undanfarinn áratug verið að meðaltali 5,8% samkvæmt tölum frá Landssambandi lífeyrissjóða og geta þeirra til að standa undir skuldbindingum til frambúðar hefur því aukist jafnt og þétt.

Frá áramótum til septemberloka jukust eignir íslenskra lífeyrissjóða um 12,4%. Að gefnum tilteknum forsendum um iðgjaldainnflæði, lífeyrisgreiðslur og úttekt lífeyrissparnaðar ásamt þróun neysluverðs á tímabilinu áætlum við að raunávöxtun eigna sjóðanna hafi verið á bilinu 5-6%, eða sem svarar til 7-8% raunávöxtunar á ársgrundvelli. Það er því útlit fyrir eitt enn góðærið í afkomu lífeyrissjóðakerfisins íslenska og ágætar líkur á að geta þess í heild til þess að standa undir ásættanlegum lífskjörum sjóðfélaga á efri árum aukist enn frekar.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband