Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Tímabundinn viðskiptahalli í ársbyrjun en erlenda staðan sterk

Umtalsverður viðskiptahalli á fyrsta fjórðungi ársins skýrist af tímabundnum þáttum tengdum COVID-19 faraldrinum. Horfur eru á vaxandi viðskiptaafgangi á komandi misserum. Erlend staða þjóðarbúsins er býsna sterk og útlit er fyrir að hún styrkist enn frekar á komandi árum ef fram heldur sem horfir.


Viðskiptahalli var 27,1 ma.kr. á fyrsta fjórðungi ársins samkvæmt nýbirtum tölum Seðlabankans. Er það mesti viðskiptahalli sem mælst hefur á einum ársfjórðungi í nærri 11 ár, sé horft fram hjá reiknuðum áhrifum slitabúa á tímabilinu 2009-2015. Ýmsum kann að bregða í brún við svo mikinn halla en sem betur fer eru allar líkur á að hann reynist tímabundinn.

Þegar lá fyrir að vöruskiptahalli nam tæpum 22 mö.kr. og halli á þjónustuviðskiptum var tæpir 11 ma.kr. á tímabilinu. Í tölum Seðlabankans kemur fram að frumþáttatekjur skiluðu 12,8 ma.kr. afgangi en halli var á rekstrarframlögum milli landa sem nam 7,1 ma.kr.

Afgangur af frumþáttatekjum á fyrsta ársfjórðungi var nokkru minni en hann hefur að jafnaði verið síðustu tvö ár. Skýrist það af minni afgangi vegna fjármagnstekna af beinni fjárfestingu milli landa. Sé rýnt undir húddið virðist skýring þessa bæði liggja í minni tekjum af fjárfestingu innlendra aðila erlendis en einnig í minna bókfærðu tapi af fjárfestingu erlendra aðila hér á landi. Þar er hagfelldari þróun á álmarkaði nærtæk skýring, a.m.k. að hluta. Álverð hefur hækkað verulega undanfarið, sem ætti að endurspeglast í batnandi afkomu þeirra álvera sem starfrækt eru hér á landi.

Sem fyrr segir teljum við að viðskiptahalli fyrsta ársfjórðungs sé undantekning frá þeirri heillavænlegu reglu sem verið hefur á utanríkisviðskiptum síðustu ár að þau séu rekin með afgangi. Með auknum ferðamannastraumi hingað til lands bendir flest til þess að þjónustujöfnuður muni aftur verða verulega jákvæður fyrr en seinna. Auk þess skilar stórbætt erlend staða og mismunandi samsetning erlendra eigna og skulda áfram afgangi af frumþáttatekjum að okkar mati. Á móti mun svo vega áframhaldandi vöruskiptahalli og hóflegur halli af rekstrarframlögum. Síðastnefndi liðurinn endurspeglar að stórum hluta annars vegar framlög Íslands til alþjóðlegs samstarfs, þróunarverkefna o.þ.h. og hins vegar peningasendingar milli t.d. fjölskyldumeðlima.

Í nýlega birtri þjóðhagsspá gerum við ráð fyrir að viðskiptaafgangur muni nema u.þ.b. 30 mö.kr., eða sem samsvarar 0,9% af VLF, á yfirstandandi ári en að afgangurinn muni næstu tvö ár nema a.m.k. 4% af VLF. Hinar nýbirtu tölur breyta þeirri mynd ekki að okkar mati.

Erlend staða sterk sem fyrr

Erlend staða þjóðarbúsins tók litlum breytingum á fyrsta fjórðungi ársins samkvæmt Seðlabankanum. Í lok mars voru erlendar eignir 1.069 ma.kr. umfram skuldir og hafði sú staða batnað um 9 ma.kr. frá áramótum. Erlendar eignir þjóðarbúsins námu 4.485 ma.kr. en skuldir  3.415 ma.kr. í lok mars sl.

Sem fyrr er forvitnilegt að rýna í samsetningu erlendu stöðunnar og setja í samhengi við hagfelldan þáttatekjujöfnuð síðustu misserin. Eins og sjá má af myndinni eru erlendar skuldbindingar í formi skuldabréfa og beinna lána talsvert þyngri á metunum en eignir innlendra aðila af þeim toga. Ætti það ekki að koma á óvart í ljósi þess að ríkissjóður, bankakerfið og stærstu fyrirtæki landsins fjármagna sig að hluta á alþjóðamörkuðum en erlend umsvif bankakerfisins eru á sama tíma lítil og fjárfestingar lífeyrissjóða í erlendum eignum eru að mjög takmörkuðum hluta í skuldabréfum eða tengdum eignum. Þótt hreinar erlendar skuldir af framangreindu tagi séu jafnvirði nærri 1.300 ma.kr. ber að hafa í huga að þær eru að stærstum hluta í erlendum gjaldmiðlum. Vextir af þeim eru því lágir um þessar mundir enda vaxtastig í helstu gjaldmiðlum býsna lágt.

Þá er bein fjárfesting erlendra aðila hér á landi heldur meiri en fjárfesting innlendra aðila erlendis. Þar munar væntanlega mestu um orkufrekan iðnað í erlendri eigu, sem og gagnaver og einhvern hluta hátæknigeirans.

Á hinn bóginn er eign innlendra aðila í erlendum hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum nærri 1.700 ma.kr. umfram erlendar skuldir af þessu tagi. Þarna munar mestu um lífeyrissjóðina sem áttu í lok mars jafnvirði 1.036 ma.kr. í erlendum hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum samkvæmt tölum Seðlabankans.

Þá heldur Seðlabankinn sjálfur á drjúgum hluta af erlendum eignum þjóðarbúsins. Gjaldeyrisforði bankans var í lok mars jafnvirði 857 ma.kr. og að frádregnum erlendum skuldum var hreinn gjaldeyrisforði bankans 508 ma.kr. Gjaldeyrisforðinn aflar hins vegar sáralítilla fjármagnstekna þar sem Seðlabankanum ber að ávaxta hann á áhættulitlum skammtímavöxtum sem um þessar mundir eru nær engir í flestum helstu gjaldmiðlum.

Engum blöðum er um það að fletta í okkar huga að sterk ytri staða þjóðarbúsins hefur mildað mjög efnahagslegar afleiðingar COVID-19 faraldursins hér á landi. Með endurkomu viðskiptaafgangs líkt og við væntum eru horfur á að sú staða styrkist jafnvel enn frekar á komandi árum.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband