Seðlabankinn birti nýlega tölur um greiðslujöfnuð á 1. ársfjórðungi og erlenda stöðu þjóðarbúsins í marslok. Viðskiptaafgangur reyndist 11,4 ma.kr. á fjórðungnum og hefur afgangurinn ekki verið minni síðan á lokafjórðungi ársins 2018. Þegar lá fyrir að vöruskiptahalli nam tæplega 19 mö.kr. á tímabilinu og afgangur af þjónustuviðskiptum nam 24 mö.kr.
Tímabundið bakslag í viðskiptajöfnuði en erlend staða traust
Útlit er fyrir að endir verði bundinn á lengsta skeið af samfelldum viðskiptaafgangi í Íslandssögunni þetta árið. Viðskiptahallinn verður þó líklega ekki verulegur í ár og horfur fyrir utanríkisviðskipti eru allgóðar þegar frá líður. Erlend eignastaða þjóðarbúsins verður því væntanlega áfram hagfelldari en við höfum áður kynnst.
Fjármagnstekjur drjúg búbót
Í tölum Seðlabankans kemur fram að frumþáttatekjur skiluðu ríflega 14 ma.kr. afgangi en rúmlega 8 ma.kr. halli var á rekstrarframlögum. Fyrrnefndi liðurinn hefur skilað afgangi nánast óslitið frá miðju ári 2015 en hafði fram að því nær ávallt skilað halla. Jákvæð þróun frumþáttateknanna helst í hendur við batnandi erlenda stöðu þjóðarbúsins. Er það eðlilegt í ljósi þess að frumþáttatekjur samanstanda af greiðslum fyrir nýtingu vinnuafls og fjármagns landa á milli. Þrátt fyrir að dregið hafi úr afgangi á launagreiðslum milli landa undanfarinn áratug hafa hreinar fjármagnstekjur vaxið hraðar. Halli á rekstraframlögum skýrist síðan af peningasendingum innflytjenda til síns upprunalands, þróunaraðstoð, þátttöku í alþjóðastarfi og fleiri slíkum þáttum.
Síðustu fjórðunga hefur raunar hluti skýringarinnar á jákvæðri niðurstöðu hvað hreinar fjármagnstekjur varðar verið bókfært tap af beinni fjárfestingu erlendra aðila hér á landi. Megin skýringin á hreinu innflæði fjármagnstekna er hins vegar að bæði eru erlendar eignir þjóðarbúsins talsvert meiri en erlendar skuldbindingar auk þess sem stærri hluti eignanna er í hlutafé samanborið við hærra hlutfall vaxtaberandi skuldbindinga á skuldahliðinni. Ávöxtun af hlutafé er sögulega hærri en af vaxtaberandi eignum til lengri tíma litið og þar á ofan eru alþjóðlegir vextir í sögulegu lágmarki, en langstærstur hluti skuldbindinganna er í öðrum gjaldmiðlum en krónu.
Enn batnar erlenda staðan
Tölur Seðlabankans um hreina erlenda stöðu þjóðarbúsins leiða einmitt í ljós að hin jákvæða þróun þessarar mikilvægu stærðar hefur haldið áfram á fyrsta fjórðungi ársins. Í lok mars sl. var hrein staða við útlönd þannig jákvæð um 692 ma.k., sem samsvarar 23,3% af vergri landsframleiðslu (VLF). Batnaði erlenda staðan um 64 ma.kr. á fyrstu þremur mánuðum ársins, bæði vegna jákvæðra hreyfinga í fjármagnsjöfnuði (56 ma.kr.) og gengis- og verðbreytinga (22 ma.kr.). Aðrar breytingar leiddu hins vegar til 14 ma.kr. rýrnunar á erlendu stöðunni á fjórðungnum.
Erlendar eignir þjóðarbúsins námu alls 3.871 ma.kr. í marslok en erlendar skuldir voru samtals 3.243 ma.kr. Af erlendu eignunum voru 909 ma.kr. bein fjárfesting, 1.555 ma.kr. hlutabréf og hlutdeildarskírteini en einungis 322 ma.kr. í formi skuldaskjala og lána. Á erlendu skuldahliðinni var hins vegar 1.246 ma.kr. bein fjárfesting, 287 ma.kr. hlutabréf og hlutdeildarskírteini en 1.549 ma.kr. í formi skuldaskjala og lána. Glöggt má sjá af myndinni hvernig batnandi erlend staða þjóðarbúsins helst í hendur við vaxandi hreina eign í hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum. Endurspeglar það að miklu leyti hvernig viðskiptaafgangi hefur verið ráðstafað til eignakaupa lífeyrissjóðanna í framangreindum eignaflokkum undanfarin ár, en erlendar eignir sjóðanna námu í lok mars 1.485 mö.kr.
Ágætar horfur um utanríkisviðskipti og erlenda stöðu
Í nýlegri þjóðhagsspá okkar er því spáð að viðskiptahalli á yfirstandandi ári muni nema ríflega 1% af VLF. Er hallinn bæði kominn til af því mikla áfalli sem útflutningstekjur þjóðarbúsins verða fyrir vegna COVID-19 en einnig áætlum við að þáttatekjur þróist með fremur neikvæðum hætti í ár. Horfur eru hins vegar á nokkuð skjótum bata á viðskiptajöfnuðinum þar sem við spáum afgangi bæði á næsta ári og árinu 2022. Það eru því góðar líkur á að erlend staða þjóðarbúsins haldi enn áfram að batna þegar fram í sækir og reynast áfram styrk stoð undir hið litla opna íslenska hagkerfi og hinn örsmáa fljótandi gjaldmiðil okkar líkt og komið hefur á daginn síðustu mánuði.