Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Tilnefningarnefnd

Tilnefningarnefndin hefur það hlutverk að tilnefna einstaklinga til setu í stjórn bankans


Stjórn Íslandsbanka hf. hefur skipað í tilnefningarnefnd bankans Helgu Valfells, sem formann og Tómas Má Sigurðsson. Einnig situr Hallgrímur Snorrason, stjórnarformaður bankans, í nefndinni samkvæmt samþykktum bankans um tilnefningarnefndir. Tilnefningarnefndin hefur það hlutverk að tilnefna einstaklinga til setu í stjórn bankans og starfar á grundvelli heimildar í samþykktum bankans. Nefndarmenn eru kjörnir af stjórn til eins árs í senn.

Ásamt tilnefningarnefnd bankans starfrækir Bankasýsla ríkisins sérstaka þriggja manna valnefnd sem starfar samhliða tilnefningarnefnd bankans. Valnefndin tilnefnir aðila sem rétt hafa til setu fyrir hönd ríkisins í bankaráðum eða stjórnum fyrirtækja á forræði stofnunarinnar.

Samkvæmt samningi milli Íslandsbanka og Bankasýslu ríkisins skulu tilnefningarnefnd bankans og valnefnd Bankasýslunnar tryggja að þegar kjósa skal í stjórn, séu í framboði til stjórnar hópur sem uppfylli á hverjum tíma ákvæði laga um samsetningu, bæði hvað breidd þekkingar og kynjahlutfall.

Starfsreglur tilnefningarnefndarinnar er að finna á vef bankans.

Helga Valfells

Helga Valfells sat í stjórn Íslandsbanka  frá 2013 til 2019. Hún er stofnandi og framkvæmdastjóri hjá fjárfestingarfélaginu Crowberry Capital. Helga var varaformaður stjórnar Símans frá 2018 til 2021. Helga hefur m.a. sinnt störfum fyrir Estée Lauder UK, Merrill Lynch International Europe og Útflutningsráð Íslands þar sem hún starfaði með fjölmörgum ólíkum útflutningsfyrirtækjum. Helga sat í 14 stjórnum nýsköpunarfélaga á meðan hún starfaði sem framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins frá 2010 til 2016. Hún er frumkvöðull og hefur tekið þátt í stofnun nýsköpunarfyrirtækja og einnig starfað sem aðstoðarmaður viðskiptaráðherra. Hún hefur jafnframt starfað sem ráðgjafi fyrir fjölmörg útflutningsfyrirtæki frá Íslandi, Bretlandi og Kanada.

Tómas Már Sigurðsson

Tómas Már Sigurðsson var varaformaður stjórnar Íslandsbanka árið 2019 til 2020. Tómas hefur frá því í ársbyrjun 2020 starfað sem forstjóri HS Orku en starfaði frá 2014-2019 sem aðstoðarforstjóri og framkvæmdastjóri Alcoa Corporation á heimsvísu. Tómas var áður forstjóri Alcoa Fjarðaáls og Alcoa á Íslandi, en fluttist í árslok 2011 til Genfar til að stýra Alcoa í Evrópu og Mið-Austurlöndum. Tómas var formaður Viðskiptaráðs Íslands frá 2009-2012 og sat í stjórn Samtaka iðnaðarins frá 2005-2011. Hann sat í framkvæmdastjórn Evrópska Álfélagsins/sambandsins, Eurometaux, og Bandaríska viðskiptaráðs Evrópusambandsins frá 2012-2014. Tómas sat í fjölda stjórna á vegum Alcoa ásamt því að sitja í stjórn evrópskra álframleiðenda.  

Tómas er með M.Sc. gráðu í skipulagsverkfræði frá Cornell Háskóla í Bandaríkjunum og B.Ss. gráðu í bygginga- og umhverfisverkfræði frá Háskóla Íslands. 

Hallgrímur Snorrason

Hallgrímur Snorrason er stjórnarformaður Íslandsbanka, frá mars 2019,  en hefur setið í stjórn bankans frá 2016. Hallgrímur starfar sjálfstætt sem ráðgjafi í opinberri hagskýrslugerð á alþjóðavettvangi. Hann gegndi starfi Hagstofustjóra 1985-2007 og var aðstoðarforstjóri Þjóðhagsstofnunar 1980-1984. Hann hefur setið í fjölda stjórna, m.a. bankaráði Útvegsbanka Íslands hf., Skýrr og Auði Capital. Hann hefur jafnframt verið formaður ýmissa stjórnskipaðra nefnda, bæði innlendra sem og nefnda tengdum norrænu samstarfi, EFTA, ESB og OECD.

Hallgrímur er með M.Sc. gráðu í hagfræði frá Háskólanum í Lundi og B.Sc. gráðu í hagfræði frá Háskólanum í Edinborg.