Gengi krónu hefur lækkað um 11% það sem af er árinu 2020. Eins og sjá má af myndinni átti langstærsti hluti þeirra veikingar sér stað í marsmánuði. Gengi krónu hafði raunar verið glettilega stöðugt allt frá ársbyrjun 2019 fram í febrúar á þessu ári þrátt fyrir margvíslegar blikur á lofti bæði hér heima og á alþjóðavísu.
Þurfum við veikari krónu?
Gengi krónu er komið á svipaðar slóðir og það var á fyrstu árum ferðamannasprengingarinnar rétt fyrir miðjan síðasta áratug. Þróuninni það sem af er ári svipar til annarra gengislækkunarskeiða á undanförnum árum. Gild rök eru fyrir að núverandi gengi sé nærri gildum sem duga til að stuðla að jafnvægi á utanríkisviðskiptum þegar ferðaþjónustan nær vopnum sínum á nýjan leik.
Eftir miðjan febrúar fór hins vegar krónan að gefa allhratt eftir og þurfti til inngrip Seðlabankans að fjárhæð 60 m. evra í marsmánuði til þess að dempa stærstu dagsbreytingarnar í samræmi við yfirlýsta inngripastefnu bankans. Vert er þó að hafa í huga að enn hefur bankinn úr að spila u.þ.b. 6 mö. Evra í gjaldeyrisforða sínum. Til að setja þá tölu í samhengi samsvarar hún öllum innflutningsútgjöldum íslenska hagkerfisins í 8-9 mánuði miðað við tölur síðasta árs. Einnig má nefna að velta á millibankamarkaði með gjaldeyri fyrstu þrjá mánuði ársins nam í heildina innan við 400 m. evra.
Keimlík veikingarhrina
Það hefur stundum verið sagt um íslensku krónuna að hún fari upp stigann en niður í lyftunni þegar kemur að gengishreyfingum. M.ö.o. verður gengisstyrking yfirleitt fremur hæg og bítandi en gengislækkun oft og tíðum ansi hröð, sér í lagi ef áföll dynja yfir. Í því ljósi er forvitnilegt að bera þróun síðustu mánaða saman við aðrar veikingarhrinur krónu á undanförnum áratugum. Fyrir valinu urðu árið 2001 þar sem gengi krónu var fleytt í marsmánuði eftir fastgengistímabil, gengisveikingin 2006 í kjölfar gagnrýnna greininga á íslensku útrásina, aðdragandi gjaldeyriskreppunnar 2008 og Wow-air tengda gengisveikingin á seinni árshelmingi 2018.
Eins og sjá má af myndinni er veikingartakturinn undanfarnar vikur fremur kunnuglegur. Að undanskildum seinni hluta ársins 2008, sem segja má að standi algerlega sér á báti vegna þess að þá varð í raun gjaldeyrisþurrð og setja þurfti ströng fjármagnshöft, virðist takturinn gjarnan vera sá að gengið finnur sér nýtt tímabundið jafnvægi í grennd við 10% veikari gildi en giltu fyrir veikingarhrinuna. Rétt er vitaskuld að hafa í huga að aðstæður voru um margt ólíkar á þessum tímaskeiðum og sama má segja um ástæður gengisveikingarinnar.
Sælt er sameiginlegt skipbrot?
Einn meginþáttur sem sker núverandi gengisveikingarskeið frá hinum fyrri er að íslenska krónan sker sig síður úr í þetta skiptið en jafnan áður. Almennt hefur verið umtalsverður órói á gjaldeyrismörkuðum á heimsvísu frá því COVID-19 faraldurinn fór að lita efnahagshorfur verulega um og eftir miðjan febrúar. Raunar var það svo að á fyrstu vikum faraldursins var gengi krónu óvenju stöðugt á heimsvísu, sem líklega má a.m.k. að hluta skýra með því að erfitt er um vik að stunda spákaupmennsku með krónuna vegna þeirra hafta sem enn eru við lýði.
Eins og oft vill verða í mótlæti á mörkuðum hafa aðilar á fjármálamarkaði flúið í náðarfaðm öryggis og seljanleika. Þetta á líka við gjaldeyrismarkað þar sem verulegt flæði hefur verið úr minni gjaldmiðlum í þá stærstu. Það kemur því ekki á óvart að gengi krónu hefur veikst gagnvart megingjaldmiðlum. Við erum þó ekki ein um þá hitu meðal þróaðra ríkja. Til að mynda veiktist norska krónan talsvert meira á móti evru (-18%) en sú íslenska (-14%) það sem af er ári, enda er sú norska gjarnan talsvert undir hælnum á olíuverði sem hefur lækkað um ríflega helming frá áramótum.
Sé litið til gjaldmiðla sem íslenska krónan var gjarnan flokkuð með hér á árum áður, svokallaðra hávaxtamynta, sker krónan sig síður úr. Til að mynda hafa s-afríska randið (-26%) og brasíliski realinn (-27%) gefið mun meira eftir gagnvart evru og þróun nýsjálenska dollarans (-10%) hefur verið keimlík krónuþróuninni. Fyrrnefndu gjaldmiðlarnir eru oft býsna næmir fyrir hreyfingum á hrávörumörkuðum og hefur það væntanlega ýtt undir veikingu þeirra undanfarið til viðbótar við þau almennu áhrif sem lýst var hér að ofan.
Hversu veika krónu þarf hagkerfið?
Raungengi krónu hefur lækkað umtalsvert frá því það fór hæst á toppi ferðamannasveiflunnar fyrir 3 árum. Á mælikvarða hlutfallslegs verðlags nemur lækkunin u.þ.b. 15% á þessu tímabili. Ísland er því orðið talsvert samkeppnishæfara um ferðamenn en það var þegar hæst hóaði í komum ferðamanna hingað til lands. Sama má raunar segja um aðrar útflutnings- og samkeppnisgreinar í íslensku hagkerfi. Á þennan kvarða er landið álíka dýrt heim að sækja og það var á fyrri hluta ársins 2016.
Vitaskuld á mikið eftir að ganga á áður en rykið sest varðandi efnahagshorfur til meðallangs tíma. Þar skiptir höfuðmáli hvernig ferðaþjónustunni reiðir af þegar hún losnar að nýju úr viðjum ferðatakmarkana og annarra áhrifa COVID-19 faraldursins. Að okkar mati hefur veiking krónu þó þegar orðið til þess að auðvelda útflutningsgreinunum viðspyrnuna talsvert, að því gefnu að gengið verði á svipuðum slóðum þegar þar að kemur. Líkt og sjá má af myndinni hafa orðið vatnaskil í utanríkisviðskiptum á þessum áratug samanborið við þann síðasta og raunar áratugina þar á undan einnig.
Þótt óhjákvæmilega eigi eftir að gefa á bátinn í gjaldeyristekjuöflun þjóðarbúsins þetta árið vegur á móti að útgjöldin munu væntanlega einnig dragast talsvert saman auk þess sem helstu kaupendur gjaldeyris undanfarin ár, lífeyrissjóðirnir, munu líklega halda að sér höndum með slík kaup þar til ástandið fer að skána. Það er því ekki augljóst í okkar huga að lægra raungengi þurfi til þess að viðhalda utanríkisviðskiptum í jafnvægi þegar fram í sækir og jafnvel mætti færa fyrir því rök að raungengið ætti inni einhverja styrkingu á nýjan leik með tíð og tíma án þess að viðskiptajöfnuðinum og í kjölfarið gjaldeyrisflæði sé stefnt í voða af þeim sökum.