Heildareignir íslenskra lífeyrissjóða námu 7.722 ma.kr. í lok júní sl. samkvæmt nýlegum tölum frá Seðlabankanum. Það samsvarar 173% af áætlaðri vergri landsframleiðslu þessa árs miðað við nýjustu Peningamál Seðlabankans. Á fyrri helmingi ársins jukust eignirnar um 425 ma.kr., eða sem nemur 5,8%. Þess má geta að í nýjustu yfirlitsskýrslu OECD um lífeyriskerfi aðildarríkjanna, sem nær fram til ársloka 2022, var Ísland í öðru sæti (186% af VLF) á eftir Danmörku (192% af VLF) þegar kemur að heildarumfangi þeirra eigna sem eyrnamerktar eru eftirlaunaþegum.
Þokkalegur fyrri árshelmingur hjá lífeyrissjóðum
Fyrri árshelmingur var hagfelldari fyrir íslenska lífeyrissjóði en síðustu tvö ár hafa að jafnaði verið. Þar munar mestu um verðhækkun á erlendum eignum þeirra samhliða meðvindi á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum. Þróunin frá júlíbyrjun hefur verið lakari en þó eru allgóðar líkur á að raunávöxtun ársins verði í þokkalegu samræmi við 3,5% viðmiðunarávöxtun skuldbindinga sjóðanna.
Erlendu eignir sjóðanna gáfu vel
Þótt innflæði inn í lífeyrissjóði vegna lífeyrisiðgjalda sé umtalsvert hærra en en lífeyrisgreiðslur að viðbættum rekstrarkostnaði er bróðurpartur eignaaukningar sjóðanna til kominn vegna ávöxtunar af, og verðhækkunar á, eldri eignum þeirra. Má þar benda á að samkvæmt gögnum Seðlabankans voru lífeyrisiðgjöld að frádregnum lífeyrisgreiðslum og rekstrarkostnaði ríflega 89 ma.kr. á síðasta ári. Má gróflega áætla að ríflega helmingur þeirrar fjárhæðar (45-50 ma.kr.) hafi bæst við eignir sjóðanna á fyrri hluta þessa árs vegna slíks hreins innflæðis.
Þrír fjórðu hlutar eignavaxtar lífeyrissjóðanna var í erlendu eignasafni þeirra. Slíkar eignir námu 3.062 ma.kr. í júnílok en það svarar til tæplega 40% af heildareignum sjóðanna. Frá ársbyrjun til júníloka jókst virði slíkra eigna lífeyrissjóðanna um 319 ma.kr. og hlutfallið af heildareignum hækkaði um tvær prósentur. Þar sem fremur litlar breytingar hafa orðið á gengi krónu frá áramótum skrifast þessi eignaaukning að mestu á eignakaup og hækkun á virði þessa hluta eignasafnsins.
Samkvæmt Seðlabankanum námu hrein gjaldeyriskaup lífeyrissjóða ríflega 36 ma.kr. á fyrstu fimm mánuðum ársins sem samsvarar 7,3 ma.kr. í mánuði hverjum á tímabilinu. Er það svipaður taktur og var að jafnaði í fyrra (6,9 ma.kr.) en nokkru minna en árið 2022 (8,4 ma.kr.).
Eftir stendur þá að langstærstur hluti aukningarinnar í slíkum eignum skrifast á verðhækkun á alþjóðamörkuðum. Ólíkt Íslandi hefur árið 2023 í stórum dráttum verið gjöfult á erlendum hlutabréfamörkuðum, en langstærstur hluti erlendu eigna lífeyrissjóðanna er ýmist í formi hlutdeildarskírteina í verðbréfasjóðum eða beinnar eignar á erlendum hlutabréfum.
Til að mynda hækkaði MSCI World index, sem endurspeglar alþjóðlegt hlutabréfaverð, um tæp 11% á fyrri helmingi þessa árs. Á sama tíma lækkaði OMXI15 vísitala íslenskra hlutabréfa um rúm 8%. Endurspeglast það í 37 ma.kr. lækkun á virði innlendrar hlutabréfaeignar lífeyrissjóðanna, eða sem nemur 3,5% frá ársbyrjun til júníloka. Um mitt ár voru slíkar eignir 13% af heildareign sjóðanna. Þrátt fyrir að lífeyrissjóðirnir séu býsna umsvifamiklir á innlendum hlutabréfamarkaði vegur því slík eign einungis þriðjung af því sem erlendar eignir vega í safni sjóðanna. Það endurspeglar vitaskuld bæði smæð íslenska hlutabréfamarkaðarins og eins hitt hversu stórir lífeyrissjóðirnir eru í innlendu fjármálakerfi.
Horfur á skárra ári en 2022-2023
En hvernig hefur eignum íslenskra lífeyrissjóða vegnað það sem af er ári og hvernig er útlitið fyrir seinni árshelming?
Eins og við fjölluðum um fyrr á árinu bjargaði lokafjórðungur síðasta árs raunávöxtun lífeyrissjóðanna árið 2023 í horn eftir töluverðan mótbyr mestan hluta ársins. Samkvæmt Ársreikningabók fjármálaeftirlits Seðlabankans nam raunávöxtun íslenskra lífeyrissjóða að jafnaði 0,4% í fyrra eftir verulega rýrnun eigna sjóðanna að raunvirði árið 2022.
Lífeyrissjóðirnir eru vitaskuld langtíma fjárfestar og þar að auki er innflæði vegna inngjalda talsvert meira en útflæði að viðbættum rekstrarkostnaði eins og rakið var að ofan. Sveiflur milli ára skipta því ekki öllu máli um möguleika sjóðanna á að tryggja sjóðfélögum ásættanlega ávöxtun af langtímasparnaði þeirra þegar kemur að töku lífeyris. Þannig var meðalávöxtun eigna sjóðanna í samræmi við 3,5% viðmiðunarávöxtun skuldbindinga þeirra hvort sem litið er til áranna 2019-2023 eða horft aftur um heilan áratug. Var raunávöxtunin að jafnaði 3,7% á fyrrnefnda tímabilinu en 4,1% á því síðarnefnda.
Sem fyrr segir nemur eignaaukning sjóðanna 5,8% á fyrri árshelmingi. Að teknu tilliti til líklegs hreins innflæðis vegna iðgjalda umfram lífeyrisgreiðslur og kostnað reiknast okkur til að raunávöxtun eigna sjóðanna hafi verið í kring um 1,8%, eða sem nemur 3,6% ávöxtun á ársgrundvelli. Þar hafa erlendu eignir sjóðanna dregið vagninn en verðlækkun á innlendum hlutabréfum vegið á móti. Þróun á skuldabréfamarkaði var svo í stórum dráttum fremur hlutlaus á fyrri helmingi ársins og krafa helstu markflokka ýmist hækkað eða lækkað lítillega. Verð skuldabréfa hreyfist í öfugu hlutfalli við breytingar á ávöxtunarkröfu þeirra. Stærstur hluti skuldabréfaeigna í lífeyrissjóðakerfinu er bókfærður á ávöxtunarkröfunni sem bréfin voru upphaflega keypt á og sveiflast því virði þeirra bréfa í bókum sjóðanna ekki með skemmri tíma sveiflum á markaðsverði skuldabréfa.
Það sem af er seinni árshelmingi hefur alþjóðlegt hlutabréfaverð lækkað að jafnaði um rúm 4% sé miðað við MSCI World index. Á sama tíma hefur OMXI15 hlutabréfavísitalan íslenska hækkað um 0,6%. Tímabilið byrjar því ekki ýkja vel hvað þessa eignaflokka sjóðanna varðar þótt lítilsháttar veiking krónu frá júlíbyrjun vegi að hluta upp verðlækkun erlendra eigna í heimamynt þeirra.
Það á hins vegar mikið vatn eftir að renna til sjávar áður en árið er úti. Lækkun vaxta erlendis sem vænst er víða með haustinu gæti hleypt einhverju lífi á ný í alþjóðlega hlutabréfamarkaði og sömuleiðis eru efnahagshorfur enn þokkalegar á heimsvísu. Þannig gerir Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn í nýlega uppfærðri spá ráð fyrir því að hagvöxtur verði að jafnaði 1,7% í iðnríkjum þetta árið og 3,2% á heimsvísu.
Að sama skapi gæti vaxtalækkun hér á landi blásið byr í segl íslenska hlutabréfamarkaðarins auk þess sem kennitölur benda almennt til þess að hann sé fremur hóflega verðlagður. Loks eru raunvextir á skuldabréfamarkaði þessa dagana í þokkalegu samræmi við 3,5% uppgjörskröfu á skuldbindingum sjóðanna og raunar yfir því marki þegar horft er til flestra annarra útgefenda en ríkissjóðs.
Þessa dagana bendir því flest til þess að íslensku lífeyrissjóðirnir nái í besta falli raunávöxtun í þokkalegu samræmi við 3,5% viðmiðið þetta árið en allgóðar líkur eru þó á að árið verði þeim, og þar með væntanlegum lífeyrisþegum, gjöfulla en síðustu tvö ár.