Þokkaleg háönn ferðaþjónustu eftir laka byrjun

Háönn ferðaþjónustunnar var myndarlegri en útlit var fyrir í sumarbyrjun. Allmyndarlegar tekjur af erlendum ferðamönnum hafa trúlega riðið baggamuninn um afgang af viðskiptajöfnuði á þriðja ársfjórðungi þrátt fyrir talsverðan vöruskiptahalla. Útlit er fyrir viðskiptahalla í ár en jafnvægi á utanríkisviðskiptum næstu tvö ár.


Ferðamönnum fjölgaði lítið eitt á þriðja ársfjórðungi

Alls fóru 223 þúsund erlendir ferðamenn frá Íslandi um Keflavíkurflugvöll í septembermánuði síðastliðnum. Jafngildir það ríflega 2% fjölgun á milli ára. Eins og fyrri daginn var ferðafólk frá Bandaríkjunum fjölmennast í þessum hópi (32% af heildarfjölda) og var fjöldi þeirra óbreyttur milli ára. Næstir komu Þjóðverjar (6,9%) en þeim fækkaði þó heldur milli ára. Þar á eftir komu Pólverjar (5,2%), Kanadamenn (4,9%) og Bretar (4,8%). Fólk frá hinum Norðurlöndunum var 4,5% af heildarfjöldanum í ágúst.

Septembertölurnar segja svipaða sögu og júlí- og ágústtölur um fjölda ferðamanna: Það rættist úr háönn ferðaþjónustunnar þetta árið eftir laka byrjun. Á heildina litið fjölgaði erlendu ferðafólki um Keflavíkurflugvöll um 1% á þriðja ársfjórðungi frá sama tíma í fyrra. Fjórðungurinn kom því talsvert betur út á þennan kvarða en annar fjórðungur, en þá fækkaði erlendum farþegum sem fóru um Keflavíkurflugvöll eftir dvöl á landinu um 5% milli ára. Athygli vekur að septembermánuður þetta árið var stærri á framangreindan kvarða en júní. Að undanskildum faraldursárunum 2020-2021 hefur það ekki gerst áður.

Það sem af er ári hefur ferðamönnum á þennan mælikvarða fjölgað um 1% milli ára en þeir voru alls 1,7 milljónir á fyrstu þremur fjórðungum ársins. Þróunin rímar allvel við spá okkar um ferðamannafjölda í nýlegri þjóðhagsspá þar sem við gerðum ráð fyrir óbreyttum ferðamannafjölda í ár frá síðasta ári.

Áfram talsverður vöruskiptahalli

Vöruskiptahalli í september nam 27,5 ma.kr. samkvæmt nýlega birtum bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Var það tvöfalt meiri halli en í sama mánuði fyrir ári en þar ber að hafa í huga að septembermánuður 2023 var útlagi í þeim skilningi að vöruskiptahalli var mun minni en mánuðina á undan og eftir. Í samanburði við allra síðustu mánuði var hallinn hins vegar með minna móti.

Alls voru fluttar út vörur fyrir 87 ma.kr. í septembermánuði. Það svarar til 3% samdráttar í krónum talið milli ára á gengi hvors árs fyrir sig. Talsverður samdráttur var í útflutningi sjávarafurða (-12%) en á móti vó 8% aukning í útflutningstekjum vegna iðnaðarvara og nærri þriðjungs aukning í tekjum af útfluttum eldisfiski milli ára svo nokkuð sé nefnt.

Á sama tíma nam vöruinnflutningur 115 ma.kr. og jókst hann í krónum talið um 10% milli ára en raunar var innflutningurinn með minnsta móti í þessum mánuði fyrir ári. Þar vó meðal annars þungt ríflega fjórðungs aukning í innflutningi á hrá- og rekstrarvörum sem og rúmlega fimmtungs vöxtur í innflutningi á almennum neysluvörum milli ára.

Ef horft er fram hjá mánaðarsveiflum í vöruskiptunum má greina tiltekinn stöðugleika í vöruskiptahallanum eins og endurspeglast í dökku punktalínunni á myndinni hér að ofan, en hún sýnir hlaupandi 12 mánaða meðaltal mánaðarlegs vöruskiptahalla. Eftir allhraðan stíganda samhliða uppsveiflunni í hagkerfinu á árunum 2021-2022 hefur mánaðarlegi vöruskiptahallinn að jafnaði verið tiltölulega stöðugur í ríflega 30 ma.kr. á þennan mælikvarða frá miðju ári 2023.

Einnig er gagnlegt að skoða ársbreytingu á innflutningi og útflutningi, þegar horft er fram hjá áhrifum gengisbreytinga. Undanfarið hefur vöruútflutningur heldur sótt i sig veðrið ef miðað er við þriggja mánaða hlaupandi meðaltal á sama tíma og nokkur stöðugleiki virðist vera í innflutningi á sama kvarða. Á innflutningshliðinni hefur talsverður samdráttur orðið í innflutningi á flutningatækjum af ýmsum toga sem og á eldsneyti. Á móti vegur vöxtur í ýmsum öðrum tegundum innflutningsvara milli ára.

Viðskiptahalli í ár þrátt fyrir afgang á þriðja fjórðungi

Útlit er fyrir að þriðji ársfjórðungur hafi skilað afgangi af viðskiptajöfnuði þetta árið eins og oftast áður undanfarin 15 ár eða svo. Vöruskiptahalli á tímabilinu nam 96 ma.kr. miðað við FOB/CIF skilgreiningu Hagstofunnar en á greiðslujafnaðargrunni var hallinn trúlega heldur minni eins og jafnan er í bókhaldi Hagstofunnar. Þá má gera ráð fyrir að halli hafi verið á rekstrarframlögum til og frá landinu líkt og jafnan áður en slíkur halli hefur að jafnaði numið tæpum 12 ma.kr. í hverjum fjórðungi upp á síðkastið.

Á móti vegur afgangur af þjónustuviðskiptum, ekki síst vegna háannar ferðaþjónustunnar. Slíkur afgangur náði nýjum hæðum á þriðja fjórðungi í fyrra og nam þá 155 ma.kr. Trúlega verður afgangurinn nokkru minni þetta árið en það kæmi okkur þó ekki á óvart að hann myndi slá nokkuð yfir 100 ma.kr. markið. Meiri óvissa er um jöfnuð frumþáttatekna, sem hefur sveiflast umtalsvert undanfarin ár. Tengist það ekki síst afkomu íslensku álveranna þriggja sem öll eru í erlendri eigu. Við eigum þó síður von á að halli á þeim lið, að viðbættum vöruskiptahalla og útflæði tengdu framlögum, vegi þyngra en afgangurinn af þjónustujöfnuði.

Í þjóðhagsspá okkar sem kom út í september síðastliðnum er fjallað um þróun og horfur í utanríkisviðskiptum á komandi misserum. Þar kemur fram að á fyrri hluta ársins snerist viðskiptajöfnuður nokkuð til verri vegar á ný. Nam viðskiptahalli á tímabilinu 78 ma.kr. samanborið við 9 ma.kr. á sama tíma 2023. Minni afgangur af þjónustujöfnuði vó þar þungt ásamt auknum vöruskiptahalla og lakari þáttatekjujöfnuði.

Þótt háönn ferðaþjónustunnar eigi vafalítið eftir að vega þungt í mun hagfelldari viðskiptajöfnuði á seinni helmingi ársins er samt útlit fyrir að viðskiptahalli verði ríflega 1% af VLF á árinu 2024 í heild. Útflutningsvöxtur mun þó að öllum líkindum skila utanríkisviðskiptum í jafnvægi næstu tvö ár. Þróun viðskiptakjara gæti hér haft talsverð áhrif en við gerum ráð fyrir lítillega hagfelldari þróun útflutningsverðs en verðs á innfluttri vöru og þjónustu næstu misserin.

Styrkist krónan meira en við spáum eða viðskiptakjör versna að ráði gæti viðskiptaafgangur þó snúist í halla á ný eftir miðjan áratuginn.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband