Einnig er gagnlegt að skoða ársbreytingu á innflutningi og útflutningi, þegar horft er fram hjá áhrifum gengisbreytinga. Undanfarið hefur vöruútflutningur heldur sótt i sig veðrið ef miðað er við þriggja mánaða hlaupandi meðaltal á sama tíma og nokkur stöðugleiki virðist vera í innflutningi á sama kvarða. Á innflutningshliðinni hefur talsverður samdráttur orðið í innflutningi á flutningatækjum af ýmsum toga sem og á eldsneyti. Á móti vegur vöxtur í ýmsum öðrum tegundum innflutningsvara milli ára.
Viðskiptahalli í ár þrátt fyrir afgang á þriðja fjórðungi
Útlit er fyrir að þriðji ársfjórðungur hafi skilað afgangi af viðskiptajöfnuði þetta árið eins og oftast áður undanfarin 15 ár eða svo. Vöruskiptahalli á tímabilinu nam 96 ma.kr. miðað við FOB/CIF skilgreiningu Hagstofunnar en á greiðslujafnaðargrunni var hallinn trúlega heldur minni eins og jafnan er í bókhaldi Hagstofunnar. Þá má gera ráð fyrir að halli hafi verið á rekstrarframlögum til og frá landinu líkt og jafnan áður en slíkur halli hefur að jafnaði numið tæpum 12 ma.kr. í hverjum fjórðungi upp á síðkastið.
Á móti vegur afgangur af þjónustuviðskiptum, ekki síst vegna háannar ferðaþjónustunnar. Slíkur afgangur náði nýjum hæðum á þriðja fjórðungi í fyrra og nam þá 155 ma.kr. Trúlega verður afgangurinn nokkru minni þetta árið en það kæmi okkur þó ekki á óvart að hann myndi slá nokkuð yfir 100 ma.kr. markið. Meiri óvissa er um jöfnuð frumþáttatekna, sem hefur sveiflast umtalsvert undanfarin ár. Tengist það ekki síst afkomu íslensku álveranna þriggja sem öll eru í erlendri eigu. Við eigum þó síður von á að halli á þeim lið, að viðbættum vöruskiptahalla og útflæði tengdu framlögum, vegi þyngra en afgangurinn af þjónustujöfnuði.