Eftir kraftmikinn hagvaxtarkipp árin 2021-2022 tók að hægja á vaxtartaktinum á síðasta ári og áætlar Greining Íslandsbanka að hagvöxtur hafi verið 3,0% á árinu 2023. Í ár er spáð 1,9% hagvexti sem markar í raun hagsveifluskil og er tiltölulega hægur vöxtur í sögulegu tilliti. Þróun innan ársins verður væntanlega spegilmynd af þróun síðasta árs í þeim skilningi að útflutningur dregur líklega vaxtarvagninn framan af árinu en svo færist aukinn þróttur í neyslu og fjárfestingu síðar á árinu. Á næsta ári hljóðar spáin uppá 2,6% hagvöxt og 2,9% árið 2026.
Vatnaskilin í hagkerfinu frá örum vexti innlendrar eftirspurnar til samdráttar endurspeglast í bata á utanríkisviðskiptum. Hagfelldari utanríkisviðskipti ásamt öðrum þáttum renna stoðum undan gengi krónu. Í spánni er gert ráð fyrir að krónan verði um það bil 7-8% hærra í lok spátímans en hún var í árslok 2023.
Verðbólga er tekin að hjaðna eftir verðbólguskot síðustu missera. Helsta ástæðan er sú að íbúðamarkaður er í betra jafnvægi og verðlag erlendis stöðugra. Það dregur hægt og sígandi úr spennu á vinnumarkaði og kaupmáttur launa mun aukast samhliða hjöðnun verðbólgunnar. Þrálát verðbólga kallar á talsvert aðhald Seðlabankans og er útlit fyrir að stýrivextir verði áfram háir næstu misserin. Vaxtahækkunarferlinu er þó líklega lokið og hægfara vaxtalækkunarferli gæti hafist um mitt ár 2024 að því gefnu að verðbólga þróist í takti við spá Greiningar.