Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Þjóðhagsspá Íslandsbanka: Lygnari sjór eftir öldurót

Greining Íslandsbanka spáir fyrir um þróun efnahagsmála árin 2023-2025


Íslenskur efnahagur hefur verið á hröðum batavegi eftir stutt en snarpt samdráttarskeið í kjölfar faraldursins. Á síðasta ári var hagvöxtur 7,2% og hefur vöxturinn ekki verið hraðari frá árinu 2007. Greining Íslandsbanka spáir því að hagvöxtur verði 2,2% á þessu ári, sem er talsvert hægari vöxtur en í síðustu spá. Munar þar mestu um minni vöxt einkaneyslu og fjárfestingar. Útflutningsvöxtur vegur hvað þyngst í hagvextinum í ár en hlutur innlendrar eftirspurnar í vextinum verður umtalsvert minni en síðustu tvö ár. Á næsta ári hljóðar er spáð 2,6% hagvexti og 3,0% vexti árið 2025.

Útlit er fyrir talsverðan bata í utanríkisviðskiptum eftir umtalsverðan viðskiptahalla síðustu ár. Hraður útflutningsvöxtur og hægari vöxtur eftirspurnar spila þar stórt hlutverk. Hagfelldari utanríkisviðskipti ásamt öðrum þáttum renna stoðum undir gengi krónu. Í spánni er gert ráð fyrir að krónan verði um það bil 5% sterkari í lok spátímans en hún var í ágúst 2023.

Verðbólga hefur reynst þrálát en lætur undan síga á spátímanum, sér í lagi vegna rólegri íbúðamarkaðar og stöðugra verðlags erlendis. Það dregur hægt og sígandi úr spennu á vinnumarkaði og horfur eru að kaupmáttur launa vaxi á ný strax á þessu ári. Þrálát verðbólga kallar á talsvert aðhald Seðlabankans og útlit er fyrir að stýrivextir muni ná hámarki í 9,5% fyrir lok ársins. Hægfara vaxtalækkunarferli gæti hafist á vordögum 2024 að því gefnu að verðbólga þróist í takti við spá okkar.

Stikl­að á stóru

  • Hagvöxtur - Spáð er 2,2% hagvexti árið 2023, 2,6% 2024 og 3,0% 2025.

  • Utanríkisviðskipti - 0,6% viðskiptaafgangur í ár og lítilsháttar afgangur árin 2024 og 2025.

  • Verðbólga - Verðbólga mjakist hægt niður í fyrstu en hraðar á nýju ári. Verður að meðaltali 8,7% árið 2023, 5,4% árið 2024 og 3,7% 2025.

  • Vinnumarkaður - 3,2% meðaltalsatvinnuleysi í ár. 3,8% 2024 og 4,0% 2025.

  • Vextir - Stýrivextir ná líklega hámarki í 9,5% fyrir lok þessa árs. Hægfara vaxtalækkun hefst á vordögum 2024.

  • Krónan - Horfur á að gengi krónu verði 5% hærra í lok spátímans en það var í ágúst 2023.

Póstlisti Greiningar

Ekki missa af greiningum okkar á því helsta sem snertir efnahagslífið og skráðu þig á póstlistann okkar!

Höfundar þjóðhagsspár


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Senda tölvupóst

Berg­þóra Bald­urs­dótt­ir

Hagfræðingur


Senda tölvupóst