Þjóðhagsspá Íslandsbanka: Jafnvægi á stjórnborða: Hlýir vindar, svalur sjór?

Greining Íslandsbanka spáir fyrir um þróun efnahagsmála árin 2024-2026


Eftir kraftmikinn hagvaxtarkipp árin 2021-2022 varð viðsnúningur í vaxtartaktinum á síðasta ári og fór hagvöxtur frá því að vera 8,9% á 1. fjórðungi ársins niður í 0,6% á 4. fjórðungi. Greining Íslandsbanka spáir því að hagvöxtur verði lítill á þessu ári en glæðist svo á ný á næstu árum. Við spáum því að hagvöxtur mælist 0,9% á þessu ári. Það er býsna hægur vöxtur í sögulegu tilliti og árið markar í raun hagsveifluskil þótt líklega verði ekki samdráttur á ársgrundvelli.

Á næsta ári teljum við að hagvöxtur verði 2,3%. Hraðari vöxtur neyslu og fjárfestingar ræður mestu um aukinn hagvöxt milli ára auk þess sem vöruútflutningur sækir í sig veðrið á ný. Á árinu 2026 er útlit fyrir 2,6% hagvöxt og vegur vaxandi innlend eftirspurn þyngra en hægari útflutningsvöxtur það ár.

Eftir talsverðan bata á utanríkisviðskiptum í fyrra er útlit fyrir að hóflegur viðskiptaafgangur verði allt spátímabilið. Þó er útlit fyrir talsvert minni útflutningsvöxt í ár en áður var spáð, bæði vegna hægari fjölgunar ferðamanna en vænst var og loðnubrests. Hagfelld utanríkisviðskipti ásamt öðrum þáttum styðja við hóflega styrkingu krónu og er gert ráð fyrir að krónan verði 5% sterkari þegar kemur fram á árið 2026 en hún var í byrjun þessa árs.

Verðbólga hefur hjaðnað talsvert eftir verðbólguskot síðustu ára. Allnokkur þróttur er þó enn bæði í vinnumarkaði og íbúðamarkaði þótt fremur hófsamir kjarasamningar á stórum hluta almenns vinnumarkaðar hafi dregið úr óvissu um launaþróun næstu árin. Horfur eru á að atvinnuleysi aukist lítillega en kaupmáttur launa vaxi nokkuð á spátímanum. Þá mun íbúðaverð væntanlega hækka nokkuð að raunverið næstu misserin. Verðbólgan mun líklega mælast tæplega 6% að jafnaði á þessu ári en hjaðna niður undir 3% á spátímanum.

Þrálát verðbólga kallar á áframhaldandi aðhald Seðlabankans en þó eru líkur á því að hægfara vaxtalækkunarferli hefjist á seinni helmingi þessa árs. Mun því trúlega ljúka með stýrivexti nærri 5,5%, sem við teljum líklega nærri jafnvægisvöxtum um þessar mundir.

Stikl­að á stóru

  • Hagvöxtur - Spáð er 0,9% hagvexti árið 2024, 2,3% 2025 og 2,6% 2026.

  • Utanríkisviðskipti - 1,0% viðskiptaafgangur í ár og lítilsháttar afgangur árin 2025 og 2026.

  • Verðbólga - Verðbólga er tekin að hjaðna eftir verðbólguskot síðustu missera. Verður að meðaltali 5,9% árið 2024, 3,6% árið 2025 og 3,1% 2026.

  • Vinnumarkaður - 3,9% atvinnuleysi að jafnaði á þessu ári, 4,1%, árið 2025 og 4,0% 2026.

  • Vextir - Hægfara vaxtalækkunarferli hefst á seinni helmingi 2024. Stýrivextir að jafnaði 7,5% á næsta ári og 5,5% árið 2026.

  • Krónan - Horfur á að gengi krónu verði 5% hærra í lok spátímans en það var í árslok 2023.

Póstlisti Greiningar

Ekki missa af greiningum okkar á því helsta sem snertir efnahagslífið og skráðu þig á póstlistann okkar!

Höfundar þjóðhagsspár


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Senda tölvupóst
Profile card

Birkir Thor Björnsson

Hagfræðingur


Hafa samband