Eftir mikinn hagvaxtarkipp árin 2021-2022 dró umtalsvert úr vextinum eftir því sem leið á síðasta ár. Loðnubrestur setti sterkan svip á þróunina en mótbyr í öðrum útflutningi hafði einnig áhrif ásamt því að einkaneysla skrapp saman. Hljóðar spá okkar nú upp á 0,3% hagvöxt í ár en árið markar í raun hagsveifluskil þótt líklega verði ekki samdráttur á ársgrundvelli.
Útlit er fyrir 1,2% hagvöxt árið 2025 þar sem einkaneysla og útflutningur sækja í sig veðrið en á móti er útlit fyrir nánast óbreytta fjárfestingu milli ára. Árið 2026 er útlit fyrir 2,5% hagvöxt en hraðari vaxtartaktur skýrist ekki síst af auknum fjárfestingarhug fyrirtækja með lækkandi vaxtastigi og hraðari kaupmáttarvexti heimila eftir því sem verðbólga hjaðnar.
Eftir bakslag í vexti ferðaþjónustu og lítilsháttar samdrátt í útflutningi á fiski og áli í ár er útlit fyrir tímabundinn viðskiptahalla. Á næstu tveimur árum er hins vegar von á hóflegum vexti í útflutningi bæði vöru og þjónustu. Vöxturinn byggir meðal annars á auknum útflutningi eldisfisks, vexti í botnfiskafla, minni áhrifum af skerðingu orku á álútflutning og auknum útflutningi á lyfjum og hátæknivörum. Við spáum því að viðskiptahalli verði 1,1% af VLF í ár en jafnvægi komist á utanríkisviðskipti árin 2025 og 2026. Batnandi viðskiptajöfnuður og innflæði í fjárfestingar koma til með að styðja við gengi krónu á spátímanum og horfur eru á 2% hærra gengi krónu í lok spátímans en það var í lok ágúst 2024.
Vegurinn í átt að verðbólgumarkmiði hefur verið holóttur en verðbólga hefur þó hjaðnað þokkalega það sem af er þessu ári og útlit er fyrir hraustlegri hjöðnun er líður á spátímann. Stöðugra verðlag erlendis, minni eftirspurnarþrýstingur og hófsamir kjarasamningar stuðla ekki síst að þeirri hjöðnun. Verðbólga mun mælast 6% að jafnaði á þessu ári en hjaðna niður í 3% á spátímanum. Útlit er fyrir að verðbólga komist inn fyrir efri vikmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans á fyrri hluta næsta árs.
Þrálát verðbólga og seigla í hagkerfinu hafa tafið fyrir vaxtalækkun en hægfara vaxtalækkunarferli gæti þó hafist á lokafjórðungi þessa árs. Vaxtalækkunarferlinu mun trúlega ljúka með stýrivexti nærri 5,5%, sem við teljum líklega nærri jafnvægisvöxtum um þessar mundir.