Útlit er fyrir 0,1% samdrátt VLF á árinu 2019. Raunar er nær lagi að segja að hagvöxtur verði við núllið þar sem ofangreind tala er talsvert innan skekkjumarka frá núlli. Snarpur samdráttur í fjármunamyndun atvinnuvega og þjónustuútflutningi vegur þar upp vöxt neyslu og mikinn samdrátt innflutnings.
Á næsta ári gerum við ráð fyrir fremur hægum vexti, eða 1,3%, drifnum af hóflegum vexti innlendrar eftirspurnar. Meiri kraftur færist svo í vöxtinn árið 2021 að mati okkar en þá spáum við 2,8% vexti eftir því sem meiri þróttur færist í einkaneyslu og útflutning á nýjan leik.
Stiklað á stóru
Hjól hagkerfisins snúast hægar næsta kastið. 0,1% samdráttur VLF í ár, en 1,3% vöxtur árið 2020 og 2,8% vöxtur árið 2021.
- Sveiflur í útflutningi skýra sveifluna að miklum hluta.
- Útflutningur dregst saman um 6,0% í ár en vex um 1,1% árið 2020.
- Áfram afgangur af utanríkisviðskiptum. 3,5% af VLF í ár en 2,4% af VLF árið 2020.
- Verðbólga skapleg á komandi misserum 3,1% á þessu ári en 2,6% árið 2020.
- Hægir tímabundið á vexti kaupmáttar launa. 1,8% í ár en 1,9% árið 2020.
- Atvinnuleysi eykst á komandi misserum. 3,6% í ár og 4,2% á árinu 2020.