Íslenskur efnahagur hefur rétt myndarlega úr kútnum eftir stutt en skarpt samdráttarskeið í byrjun áratugarins og þenslumerki eru víða í hagkerfinu. Spáð er ríflega 7% hagvexti á yfirstandandi ári þar sem útflutningur tekur jafnt og þétt við af innlendri eftirspurn sem helsti vaxtarbroddurinn. Næstu tvö ár eru horfur á mun hægari vexti þar sem útflutningur er áfram í lykilhlutverki. Þar vegur fjölgun ferðamanna þungt ásamt útflutningi hugverka, auknu fiskeldi og myndarlegum útflutningi á uppsjávarfiski.
Verðbólga hefur náð hámarki og lætur undan síga á spátímanum með hægari hækkun íbúðaverðs og stöðugara innflutningsverðlagi. Talsverð spenna verður þó áfram á vinnumarkaði og horfur eru á að kaupmáttur launa taki að vaxa á ný strax á næsta ári. Þrálát verðbólga kallar á talsvert aðhald Seðlabankans en útlit er þó fyrir að stýrivextir nái hámarki í 6% á þessu ári og taki að hjaðna á ný þegar líður á næsta ár.