Eftir 7,1% efnahagssamdrátt árið 2020 batnaði íslenskur efnahagur talsvert á ný á árinu 2021 og útlit er fyrir áframhaldandi efnahagsbata. Spáð er 5,0% hagvexti árið 2022 en talsvert hægari vexti í kjölfarið. Vöxturinn verður útflutningsdrifinn að stórum hluta þar sem ör fjölgun ferðamanna leikur lykilhlutverk ásamt auknu fiskeldi, myndarlegri loðnuveiði og auknum útflutningi hugverka.
Verðbólga mun reynast þrálát framan af spátímanum vegna áframhaldandi hækkunar á íbúðaverði, verðhækkana erlendis og hækkandi launakostnaðar innanlands svo nokkuð sé nefnt. Það kallar á aukið peningalegt aðhald og er útlit fyrir að stýrivextir verði á bilinu 5-6% í árslok 2022 en lækki að nýju á seinni helmingi spátímans.