Eftir gjöfult hagvaxtarskeið er hafinn aðlögunartími í íslensku hagkerfi. Góðu heilli eru fjölmargar stoðir íslenska hagkerfisins býsna sterkar um þessar mundir og er útlit fyrir að aðlögunin verði fremur léttbær og lífskjör þorra landsmanna haldi áfram að vera eins og best gerist meðal landa heims.
Útlit er fyrir að hagvöxtur hafi verið 0,3% á árinu 2019 í heild. Snarpur samdráttur í fjármunamyndun atvinnuvega og þjónustuútflutningi vegst þar á við vöxt neyslu og mikinn samdrátt innflutnings.
Á yfirstandandi ári gerum við ráð fyrir fremur hægum vexti, eða 1,4%, drifnum af hóflegum vexti innlendrar eftirspurnar. Meiri kraftur færist svo í vöxtinn árin 2021 og 2022 að mati okkar en þá spáum við 2,3% og 2,4% vexti eftir því sem meiri þróttur færist í einkaneyslu og útflutning á nýjan leik.