Kortavelta innanlands nam 108 ma.kr. í mars síðastliðnum og jókst um 21% miðað við sama mánuð í fyrra samkvæmt gögnum Rannsóknaseturs verslunarinnar. Þegar tekið er tillit til verðlags var vöxturinn um 11%. Hægt hefur talvert á vextinum miðað við síðastliðna mánuði en í janúar og febrúar tók neyslan talsvert við sér á nýjan leik. Helstu ástæðu þess má rekja til afturvirkra launahækkana sem stór hluti vinnumarkaðar fékk vegna nýrra kjarasamninga í byrjun árs.
Kortavelta innlendra greiðslukorta nam ríflega 86 ma.kr. þar sem raunvöxtur var um 5% á milli ára á meðan kortavelta erlendra greiðslukorta nam ríflega 22 ma.kr. og jókst um 45% að raunvirði. Þessi svakalegi vöxtur á veltu erlendra greiðslukorta hérlendis skýrist fyrst og fremst af áhrifum faraldursins sem og stríðsins í byrjun síðasta árs sem setti strik í reikninginn í komu erlendra ferðamanna hingað til lands. Velta erlendra korta hér á landi er um 20% af heildarveltunni og velta íslenskra korta um 80%.