Talsverð seigla í íslensku hagkerfi í fyrra

Meiri seigla var í íslensku hagkerfi á síðasta ári en flestir höfðu vænst. Kraftmikil fjárfesting vegur þar þungt, bæði í íbúðarhúsnæði og hjá fyrirtækjum. Þróttmeira hagkerfi en áður var talið á undanförnum misserum dregur væntanlega úr vilja peningastefnunefndar Seðlabankans til þess að stíga stór vaxtalækkunarskref á næstunni.


Hagvöxtur á lokafjórðungi síðasta árs var 2,3% samkvæmt nýbirtum þjóðhagsreikningum Hagstofunnar. Er það sami vöxtur og mældist á sama fjórðungi ári fyrr en meiri vöxtur en mældist hina ársfjórðunga síðasta árs. Vöxturinn var að langstærstum hluta drifinn af tæplega 16% fjárfestingarvexti milli ára en á móti mældist vöxtur innflutnings nærri 11% á tímabilinu að raungildi. Endurspeglar reiptog þessara stærða það samhengi að miklum fjárfestingarvexti fylgir ávallt mikill vöxtur innfluttra vara.

Þessi áhrif voru venju fremur sterk á fjórðungnum þar sem í frétt Hagstofunnar kemur fram að fjármunamyndin í upplýsingatækni og fiskveiðum dró að verulegu leyti vagninn í fjárfestingarvextinum. Hvað upplýsingatæknina varðar hefur komið fram að fjárfesting gagnavera var í sókn á seinni hluta síðasta árs. Þar er nær alfarið um að ræða innflutt tæki og búnað. Sama má segja um fiskveiðarnar en Hagstofan nefnir að tveir togarar bættust í fiskveiðiflota landsmanna á fjórðungnum.

Framlag utanríkisviðskipta til vaxtar neikvætt í fyrra

Framlag utanríkisviðskipta var talsvert neikvætt í fyrra sem endurspeglast í því að þjóðarútgjöld uxu mun hraðar en sem nam hagvexti á árinu. Á lokafjórðungi ársins jókst útflutningur raunar um 1,4% að raungildi milli ára. Sá vöxtur mátti sín þó lítils á móti 10,5% innflutningsvexti eins og nefnt var hér að framan.

Eins og sjá má af myndinni hefur takturinn í þjónustuútflutningi haft mikið að segja um þróun utanríkisviðskipta í heild. Þjónustuútflutningur er vitaskuld að stórum hluta sprottinn upp í ferðaþjónustunni og mótbyr í þeim geira framan af síðasta ári hafði því talsverð neikvæð áhrif á jafnvægi utanríkisviðskipta. Þjónustuútflutningur óx hins vegar um ríflega 3% á lokafjórðungi ársins enda var fjórðungurinn hinn þokkalegasti hvað umsvif ferðaþjónustu varðar.

Á árinu í heild skrapp útflutningur saman um 1,1% en innflutningur jókst um 2,7% í magni mælt. Skýrist samdrátturinn í útflutningi alfarið af 3,9% minni þjónustuútflutningi en vöruútflutningur jókst á sama tíma um 1,6%. Innflutningsmegin lögðu svo bæði 3,2% vöxtur vöruinnflutnings og 1,8% vöxtur á innflutningi þjónustu á eitt í heildarvexti innflutnings á síðasta ári.

Þróttmikil fjárfesting á undanförnum fjórðungum

Fjárfesting var í talsverðri sókn á síðasta ári þrátt fyrir hátt vaxtastig, aukna svartsýni fyrirtækjastjórnenda framan af árinu og samdrátt í útflutningi. Hér að ofan var farið yfir þróunina í atvinnuvegafjárfestingu á lokafjórðungi ársins. Miklar sveiflur eru hins vegar í fjárfestingartölum innan hvers árs og því oftast gagnlegra að horfa á árið í heild.

Þar kemur á daginn að fjármunamyndunin óx um 7,5% í fyrra að magni til. Þar kemur kannski helst á óvart hversu mikill þróttur var í íbúðafjárfestingu. Samkvæmt gögnum Hagstofunnar jókst slík fjárfesting um 18% á síðasta ári og athygli vekur að tölur um íbúðafjárfestingu á fyrstu þremur fjórðungum 2024 voru endurskoðaðar talsvert upp á við.

Þá var talsverður kraftur í fjárfestingu atvinnuvega á síðasta ári. Á heildina litið jókst hún í magni mælt um tæp 7% milli ára. Líkt og á lokafjórðungi ársins setti uppbygging gagnavera og kaup á skipum og flugvélum mark sitt á fyrirtækjafjárfestinguna. Þannig óx fjárfesting í skrifstofuáhöldum og -tækjum (og þar með talið tölvubúnaði) um 41% á síðasta ári og fjárfesting í skipum og flugvélum um 64% á sama tíma. Umtalsverður samdráttur var hins vegar í fjárfestingu fyrirtækja í fólksbílum enda drógu bæði bílaleigur og önnur fyrirtæki talsvert úr bifreiðakaupum sínum á milli ára.

Lítilsháttar samdráttur mældist hins vegar í fjárfestingu hjá hinu opinbera en Hagstofan bendir á að talsverð óvissa ríkir um fjármunamyndun hins opinbera vegna gagnaóvissu.

Hóflegur vöxtur einkaneyslu heldur áfram 

Einkaneysla vegur ríflega helming í VLF og hefur því mikið vægi í þróun þjóðhagsreikninga. Á 4. ársfjórðungi jókst einkaneysla um 0,8% að raunvirði. Einnig voru fyrri fjórðungar ársins endurskoðaðir upp á við og mældist til að mynda aðeins lítilsháttar samdráttur í einkaneyslu á öðrum ársfjórðungi. Þróun ársins var því með mjög líku móti og árið á undan. Alls óx einkaneysla um 0,6% að raunvirði á nýliðnu ári samanborið við 0,5% vöxt árið 2023. Við spáðum því í nýlega útgefinni þjóðhagsspá okkar að einkaneysla hefði vaxið um 0,9% á síðasta ári og einkaneysluvöxturinn er því heldur minni en við væntum, að því gefnu að tölurnar verði ekki endurskoðaðar upp á við seinna meir.  

Einkaneyslutölur ársins ríma vel við þróun kortaveltu landsmanna á síðasta ári en í henni hefur verið góður gangur samhliða hóflegum kaupmáttarvexti, lækkandi vöxtum og hægari verðbólgu. Einnig hafa væntingar landsmanna tekið hressilega við sér upp á síðkastið ef marka má væntingavísitölu Gallup. Á móti vegur samdráttur í kaupum heimilanna á varanlegum neyslufjármunum á borð við bíla og stærri heimilistæki, en mikill samdráttur mældist í slíkum kaupum seinasta ár. Þá má áætla að sá þáttur einkaneyslunnar eigi mikið inni næstu misseri og muni stuðla að hraðari einkaneysluvexti þegar fram í sækir. Í tilkynningu Hagstofu kemur einnig fram að einkaneysluútgjöld vegna ferðalaga erlendis hafi aukist á 4. ársfjórðungi. Sífellt meiri neysla landsmanna fer nú fram erlendis eins og kortaveltutölur seinasta árs bera með sér, þó stóran hluta þeirrar aukningar megi skrifa á aukna netverslun.   

Seigla í hagkerfinu kallar á nokkurt vaxtaaðhald

Óhætt er að segja að hinar nýbirtu tölur endurspegli meiri seiglu í íslensku efnahagslífi á síðasta ári en við, og líklega flestir bjuggust við. Hagvöxtur í fyrra mældist 0,6% miðað við bráðabirgðatölur Hagstofunnar. Í spá okkar sem birt var í janúarlok var hins vegar gert ráð fyrir 0,5% samdrætti landsframleiðslu á síðasta ári og nýlega birt spá Seðlabankans hljóðaði upp á 0,4% samdrátt í fyrra. Þar að auki endurskoðaði Hagstofan þjóðhagsreikninga undanfarinna ára við birtinguna nú. Er nú hagvöxtur talinn hafa verið 5,6% árið 2023 en fyrri tölur hljóðuðu upp á 5,0% vöxt. Á móti er hagvöxtur árið 2021 nú metinn 5,0% en var 5,3% í fyrri gögnum Hagstofu. Fyrrnefnda breytingin vegur þó þyngra þegar mat er lagt á stöðu hagkerfisins um þessar mundir enda bæði stærri og nær okkur í tíma.

Í þjóðhagsspá okkar sem birt var í janúarlok gerðum við ráð fyrir stigvaxandi hagvexti næstu þrjú árin. Hljóðar spáin upp á 2,2% hagvöxt í ár, 2,5% á næsta ári og 2,6% vöxt árið 2027. Það gæti því farið svo að næsta uppsveifla í hagkerfinu muni eiga sér stað án þess að samdráttarár hafi komið þar á milli. Væri það til marks um býsna mjúka lendingu hagkerfisins eftir uppsveifluna 2021-2023. Að sama skapi eru líkur á að slaki í hagkerfinu gefi tilefni til verulegrar lækkunar raunvaxta á næstunni minni en ella.

Peningastefnunefnd Seðlabankans mun líta talsvert til hinna nýbirtu talna við næstu vaxtaákvörðun sem tilkynnt verður þann 19. mars næstkomandi. Í ljósi þess að hagkerfið virðist miðað við tölur Hagstofu hafa verið þróttmeira á undanförnum tveimur árum en bankinn hafði áætlað munu hinar nýju tölur væntanlega verða lóð á þá vogaskál að peningalegt aðhald þurfi að vera heldur meira en ella. Að okkar mati hafa því líkur á öðru 50 punkta vaxtalækkunarskrefi minnkað og líkur á að smærra 25 punkta skref verði tekið aukist að sama skapi. Bráðabirgðaspá okkar um sem birt var eftir síðustu vaxtaákvörðun um 25 punkta vaxtalækkun í mars og aftur í maí stendur því óbreytt.

Höfundar


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Senda tölvupóst

Birk­ir Thor Björns­son

Hagfræðingur


Senda tölvupóst