Nú er jólahátíðin nýliðin. Jólin eru sannarlega hátíð samverustunda með fjölskyldu og vinum en desember er einnig stærsti útgjaldamánuður allflestra. Það er nefnilega svo margt dýrt við jólin.
Eyðum mest í desember
Það er engum blöðum um það að fletta að Íslendingar eru kaupglaðir þegar líður að jólum. Þetta sést svart á hvítu á notkun greiðslukorta í desember. Í fyrra nam kortavelta um 95 milljörðum króna og var neysla okkar í desembermánuði um 14% meiri en að jafnaði aðra mánuði ársins. Þetta er þróun sem hefur verið við líði undanfarna áratugi og var einnig staðan í fyrra þrátt fyrir heimsfaraldur. Frá aldamótum hefur eyðsla í desember verið á bilinu 11-21% yfir meðaltali hvers árs eins og sést á meðfylgjandi mynd, að undanskildu hrunárinu 2008.