Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Sveiflur í bjartsýni landsmanna

Væntingavísitala Gallup lækkaði milli mánaða í febrúar eins og á sama tíma í fyrra. Hún hafði hækkað töluvert mánuðina á undan en í janúar fór hún yfir jafnvægisgildi (100) í fyrsta sinn síðan í apríl 2022. Væntingarnar eru í samræmi við þróun helstu hagstærða, sérstaklega einkaneyslu, og gefa nokkuð góða vísbendingu um þróun hennar.


Eftir að hafa mælst yfir 100 stiga jafnvægisgildi sínu í janúar lækkaði Væntingavísitala Gallup (VVG) um 11 stig í febrúar. Vísitalan mældist 90,6 stig í febrúar, í nálægð við 3 mánaða meðaltalið (91,6) en þó nokkuð yfir 12 mánaða meðaltalinu (86,3). Í janúar mældist VVG hins vegar 101,6 stig sem er hæsta gildi hennar síðan í apríl 2022. Mælingu febrúarmánaðar má túlka á þann veg að fjöldi þátttakenda í könnuninni sem neikvæðir eru gagnvart efnahagsástandinu séu örlítið fleiri en þeir sem jákvæðir eru.

Atvinnuástand gott en efnahagsástæður litaðar af neikvæðni

Allar undirvísitölur nema ein lækka á milli mælinga. Sú undirvísitala sem hækkar á milli mánaða er mat á núverandi ástandi og hækkar hún um 5,4 stig og mælist 87,8 stig. Undirvísitalan sem mælir mat á ástandinu næstu 6 mánuði lækkar um 21,9 stig frá mánuðinum á undan og mælist 92,5 stig. Þrátt fyrir að báðar undirvísitölurnar mælist undir 100 stiga jafnvægisgildinu er þó nokkuð léttara yfir landsmönnum heldur en síðastliðið haust.

Undirvísitölur sem mæla væntingar til atvinnuástands og mat á núverandi efnahagsaðstæðum- og horfum lækka einnig frá síðustu mælingu. Mat á efnahagsaðstæðum- og horfum mælist 64,7 og lækkar þó einungis um 0,3 stig á meðan væntingar til atvinnuástands versnuðu hressilega í samanburði, eða um 24,7 stig. Þó mælist sú undirvísitala 112,1 stig sem er enn nokkuð yfir jafnvægisgildi og jafnframt eina undirvísitalan sem mælist yfir því.

Landsmenn telja því stöðuna á vinnumarkaði góða en svo virðist sem væntingar til ástandsins næstu 6 mánuði séu hóflegar sem er til marks um minnkandi spennu. Mat á efnahagslífinu hefur verið talsverðum sveiflum háð síðustu misseri en væntingar til þróunar þess eru nokkuð neikvæðar þó þær séu langt frá sínum lægstu gildum og hafa raunar farið hækkandi frá því í október. Þá má einnig sjá að bilið milli væntinga til efnahags- og atvinnuástands hefur verið breiðara upp á síðkastið en þekkst hefur. Frávikin hófust upp úr miðju sumri 2021. Líklega hefur þróun verðbólgu og vaxta sett mark sitt á mat á efnahagsástandi á sama tíma og spenna hefur ríkt á vinnumarkaði og næga vinnu hefur verið að fá síðustu misserin.

Hvað má lesa úr þessum niðurstöðum?

Aukna bjartsýni í janúar má meðal annars að öllum líkindum rekja til jákvæðra frétta af framvindu kjarasamninga. Þannig lækkaði vísitalan í febrúar mögulega vegna hægari framvindu í Karphúsinu en tónninn í janúar gaf til kynna. Einnig er líklegt að rekja megi breytingu á brún landsmanna til gosóróans á Suðurnesjum.

Væntingavísitalan endurspeglar jafnan stöðu heimilanna nokkuð vel en talsvert sterk fylgni hefur sögulega verið á milli vísitölunnar og þróunar einkaneyslu. Á myndinni hér fyrir neðan sést að fylgnin hefur verið talsverð upp á síðkastið þótt greina megi töf í fylgninni yfir sum tímabil. Óvissuþættirnir eru margir um þessar mundir og ekki þarf mikið til þess að breyta viðhorfi landsmanna. Þróun kjarasamninga, verðbólgu, stýrivaxta og gosóróa á Reykjanesi kemur trúlega til með að hafa mest áhrif á væntingar og viðhorf landsmanna á næstunni. Jákvæðar fréttir af þremur fyrsttöldu þáttunum ættu að geta kætt landsmenn samfara hækkandi sól. Að öllum líkindum munu væntingar til núverandi ástands í næstu könnunum versna en væntingar til ástandsins eftir 6 mánuði batna mögulega á móti, sér í lagi ef vaxtalækkanir verða í kortunum. Að svo stöddu eru uppi vísbendingar um hraða lendingu hagkerfisins sem benda til þess að Væntingavísitalan endurspegli allvel raunverulegt ástand og horfur.

Þróun einkaneyslu og Væntingavísitölu síðustu misseri styður þá skoðun okkar að hagkerfið sé í þann mund að ná nokkuð hraðri lendingu þar sem viðsnúningur hefur verið á einkaneyslu og væntingar til ástandsins næstu mánuði litast af neikvæðni í takt við það og þróun annarra hagvísa. Gangi spár okkar um efnahagsþróun eftir ætti brún landsmanna að sama skapi að léttast á ný þegar frá líður.

Höfundur


Profile card

Birkir Thor Björnsson

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband