Gengi krónu hefur styrkst um tæplega 5% frá áramótum miðað við gengisvísitölu Seðlabankans sem vegur saman virði helstu gjaldmiðla gagnvart íslensku krónunni. Gagnvart evru nemur styrkingin 4,8%, gagnvart Bandaríkjadollar 5,1% og gagnvart breska pundinu hefur krónan hækkað um 4,1% í virði. Þegar þetta er ritað kostar evran 141,3 kr., dollarinn 124,5 kr. og pundið 169,5 kr.
Styrking krónu frá áramótum nærri 5%
Gengi krónu hefur styrkst um nærri 5% frá ársbyrjun og er nú gengislækkun hennar í kjölfar faraldursins að mestu gengin til baka. Ólíklegt er að viðskipti með vörur og þjónustu sé meginskýring styrkingarinnar. Við teljum innstæðu fyrir nokkru sterkari krónu á komandi misserum en mikil viðbótarstyrking væri hins vegar ósjálfbær.
Eftir þessa styrkingarhrinu er gengi krónu um það bil 3% veikara m.v. gengisvísitölu en það var að jafnaði árið 2019. Eins og sjá má af myndinni var gengi krónu tiltölulega stöðugt árið áður en Covid-19 faraldurinn skall á. Eftir skarpa gengislækkunardýfu á fyrsta hálfa ári faraldursins hefur krónan hins vegar styrkst jafnt og þétt á nýjan leik og er nú svo komið að gengi hennar á skammt eftir á svipaðar slóðir og fyrir faraldur.
Seðlabankinn hefur gripið talsvert inn í gjaldeyrismarkað undanfarin tvö ár í því skyni að draga úr sveiflum í gengi krónu. Hámarki náðu inngripin á haustdögum 2020 en bankinn seldi samtals 615 m. evra, jafnvirði rúmlega 87 ma.kr. miðað við núverandi gengi, á síðasta þriðjungi þess árs á millibankamarkaði með gjaldeyri.
Frá vordögum í fyrra hefur Seðlabankinn hins vegar snúið við blaðinu í afskiptum sínum af gjaldeyrismarkaði í kjölfar þess að reglulegri gjaldeyrissölu hans inn á markaðinn var hætt í apríllok. Bankinn hefur síðan verið talsvert stórtækari á kauphlið markaðarins og námu hrein gjaldeyriskaup hans frá maíbyrjun til áramóta samtals 115 m. evra, jafnvirði ríflega 16 ma.kr. miðað við gengið í dag. Eins og sjá má af myndinni hefur þó bankinn stigið ölduna í þessum efnum á tímabilinu, fært sig tímabundið á söluhliðina þegar krónan var í veikingarhrinu en verið á kauptakkanum þess á milli. Stórtæk voru þessi gjaldeyriskaup Seðlabankans í júnímánuði sl. en þann mánuðinn var talsvert innflæði í krónu vegna verðbréfakaupa erlendra aðila.
Eftir fjarveru Seðlabankans frá gjaldeyrismarkaði eftir fyrstu viku októbermánaðar og fram til áramóta hefur hann tekið til við gjaldeyriskaupin á ný. Langstærstur hluti þeirra átti sér stað á tímabilinu frá 28. janúar til 8. febrúar en þá keypti bankinn samtals 69 m. evra. á millibankamarkaði.
Eins og sjá má af myndinni hafa kaup bankans ekki orðið til þess að stöðvar styrkingarfasa krónu heldur virðast þau hafa þjónað ágætlega þeim yfirlýsta tilgangi sínum að draga úr skammtímasveiflum gengis og auka tímabundið dýpt gjaldeyrismarkaðar. Styrking krónunnar hefur sem sagt verið fremur stöðug hvort sem litið er til tímabilsins áður en inngrip hófust af krafti eða inngripatímans.
Hvaðan kemur styrkingin?
En hvað veldur því að krónan hefur styrkst jafn mikið og raun ber vitni frá áramótum? Vissulega var janúar sl. fyrsti mánuðurinn í þrjú ár þar sem afgangur var af vöruskiptum við útlönd samkvæmt bráðbirgðatölum Hagstofunnar. Þá voru erlendir ferðamenn hér á landi nokkru fleiri í mánuðinum en við höfðum vænst, eða tæplega 68 þúsund. Ef marka má kortaveltutölur var hins vegar neysla Íslendinga á erlendri grundu umtalsvert meiri í janúarmánuði en sem nam samsvarandi neyslu erlendra ferðamanna hér á landi og á heildina litið teljum ólíklegt að vöru- og þjónustuviðskipti við útlönd hafi verið rót verulegs gjaldeyrisinnflæðis það sem af er þessu ári.
Okkur þykir líklegra að rótina að styrkingu ársins megi finna í fjármagnsjöfnuðinum. Þar beinast sjónir okkar að tveimur áhrifaþáttum:
- Í fyrsta lagi hefur verið talsvert um erlenda fjárfestingu hérlendis undanfarnar vikur og mánuði. Til að mynda var nýlega fjallað um það í fjölmiðlum að erlendir aðilar hefðu keypt þrjú stærstu gagnaverin hérlendis á lokamánuðum síðasta árs. Þótt væntanlega feli stór hluti þeirra viðskipta ekki í sér gjaldeyrisviðskipti þykir okkur að sama skapi líklegt að einhverjum hluta söluandvirðisins í þessum viðskiptum hafi verið, eða verði, skipt í íslenskar krónur. Þarna er um háar fjárhæðir að ræða og þarf því ekki hátt hlutfall af heildinni til þess að mynda talsvert innflæði á gjaldeyrismarkaði. Einnig virðist áhugi erlendra aðila á íslenskum ríkisbréfum eitthvað vera að glæðast á ný. Samkvæmt tölum Lánamála ríkisins jókst ríkisbréfaeign erlendra aðila um 1,4 ma.kr. að nafnvirði í janúarmánuði. Er það mesta aukning slíkrar eignar í einum mánuði frá maí í fyrra. Upphæðin er þó ekki há í stóra samhenginu en gæti hafa hjálpað eitthvað til við styrkingarfasann í janúar.
- Í öðru lagi rýmkaði Seðlabankinn umtalsvert reglur um viðskipti með gjaldeyrisafleiður um mitt síðasta ár. Enn eru því þó takmörk sett hversu mikið umfang slíkra afleiða má vera en hver viðskiptabankanna má mest vera með heildar framvirka gjaldeyrisstöðu sem nemur 50% af eiginfjárgrunni. Aftur á móti má nú eiga slík viðskipti óháð því hvort tilgangur þeirra er að verja efnahag og rekstur, en það var áður skilyrði fyrir framvirkum samningum með gjaldeyri. Hluti styrkingarinnar frá áramótum gæti því tengst slíkri stöðutöku þar sem í raun er verið að veðja á (eða verja gegn) styrkingu krónu síðar á árinu. Þegar slíkir samningar eru gerðir hafa þeir gjarnan strax áhrif á verð viðkomandi eignaflokks. Ef það er raunin má segja að hluti þeirrar styrkingar krónu sem annars hefði komið fram seinna á árinu sé nú þegar komin fram.
Mikil frekari styrking krónu væri ósjálfbær
Við spáðum því í þjóðhagsspá okkar í ársbyrjun að gengi krónu á lokaári spárinnar, 2024, yrði 8-9% sterkara en það var um síðustu áramót. Sem fyrr segir er ríflega helmingur þeirrar styrkingar þegar kominn fram. Það er kunnara en frá þurfi að segja að gengisþróun gjaldmiðla hefur jafnan reynst erfið spáfólki og þarf að taka spá okkar með þeim fyrirvara. Hún endurspeglar hins vegar skoðun okkar bæði á hvert þeir kraftar sem eru að verki á gjaldeyrismarkaði eru þokkalega líklegir að skila krónunni á komandi misserum en eins því hversu mikið svigrúm er fyrir frekari styrkingu áður en síga gæti farið á ógæfuhliðina í ytra jafnvægi þjóðarbúsins. Verði krónan til að mynda umtalsvert sterkari þegar fram í sækir aukast líkur á því að samkeppnisstaða útflutningsatvinnuveganna rýrni, kaupmáttur almennings á erlendum varningi og þjónustu vaxi umfram það sem innstæða er fyrir og viðskiptahalli taki á ný við af þeim afgangi sem fyrirséð er að verði á utanríkisviðskiptum á þessu ári og vonandi einnig þeim næstu.