Í yfirlýsingu peningastefnunefndar þar sem vaxtaákvörðunin er rökstudd kemur meðal annars fram að horfur séu á meiri hagvexti í ár en áður var talið, ekki síst vegna þróttmeiri einkaneyslu og hraðari bata í ferðaþjónustu en vænst var. Slaki hafi minnkað jafnt og þétt á vinnumarkaði og meiri spenna hafi myndast í þjóðarbúinu en áætlað var í maíspá Seðlabankans.
Þá hefðu verðbólguhorfur haldið áfram að versna, sem endurspeglaði kröftugri umsvif í þjóðarbúskapnum en gert var ráð fyrir í maí og þrálátari hækkanir á húsnæðismarkaði auk meiri alþjóðlegrar verðbólgu. Verðbólguvæntingar hefðu einnig haldið áfram að hækka á flesta mælikvarða.
Framsýn leiðsögn peningastefnunefndar er óbreytt frá síðustu yfirlýsingu nefndarinnar í júní og er sem fyrr sleginn allharður tónn varðandi komandi fjórðunga. Hún hljóðar svo:
Peningastefnunefnd telur líklegt að herða þurfi taumhald peningastefnunnar enn frekar til að tryggja að verðbólga hjaðni í markmið innan ásættanlegs tíma. Peningastefnan mun á næstunni ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga. Ákvarðanir í atvinnulífi, á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum munu skipta miklu um hversu hátt vextir þurfa að fara.
Allgóðar efnahagshorfur...
Sem fyrr segir telur Seðlabankinn nú horfur á meiri hagvexti á yfirstandandi ári en í síðustu hagspá bankans sem kom út í maí. Á móti spáir bankinn nú heldur minni vexti á næsta og þarnæsta ári, ekki síst þar sem efnahagshorfur á heimsvísu hafi versnað nokkuð. Seðlabankinn gerir ráð fyrir að hagvöxtur mælist 5,9% í ár, 1,9% á næsta ári en 2,3% árið 2024. Líkt og við höfum áætlað gerir bankinn ráð fyrir að vöxtur verði í vaxandi mæli drifinn af útflutningi en framlag neyslu og fjárfestingar verði mun minna á komandi árum en á þessu ári og raunar því síðasta líka.