Það er langbest að viðurkenna það bara. Backstreet Boys eru á leið til landsins og það hristir aðeins upp í farangursrýminu. Auðvitað rifjast upp eins og einn og einn slagari en sömuleiðis minningar um þá gömlu góðu daga þegar geisladiskakaup voru sennilega meginþorri vísitölu neysluverðs unglinga.
Þegar besta lag sveitarinnar, Everybody eða Backstreet‘s Back (jú víst, láttu ekki svona), ruddist inn í útvörp og sjónvörp landsmanna árið 1997 voru einungis fjögur ár frá því strákunum var fyrst klastrað saman. Þau voru ansi örlát í skilgreiningunni á „back“ eða endurkomu á þessum tíma. Þessari merkilegu endurkomu fylgdi að tveimur árum liðnum platan Millennium og allt ætlaði um koll að keyra.
15 ára tekjusamdráttur
Millennium er vissulega merkileg fyrir margra hluta sakir en í mínum huga ekki síst vegna þess að akkúrat á þeim tíma sem hún kleif hvað hæst á vinsældalistunum (hún seldist í 11 milljónum eintaka) náði sala geisladiska hámarki á heimsvísu. Ekki bara það heldur urðu tekjur tónlistariðnaðarins meiri en þær höfðu nokkru sinni áður verið.
Hvort það var strákunum að kenna, plötunni eða einhverju öðru (svo sem ólöglegu niðurhali) hófst með útgáfu Millennium tímabil stöðugs samdráttar í tekjum iðnaðarins sem snérist ekki í vöxt að nýju fyrr en 15 árum síðar.