Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Stórt vaxtahækkunarskref en heldur mildari tónn

Versnandi verðbólguhorfur og mikil eftirspurn í hagkerfinu vó þungt á metunum í einnar prósentu hækkun stýrivaxta Seðlabankans í mars. Þótt vaxtahækkunarskrefið væri stórt var framsýn leiðsögn peningastefnunefndar heldur hófstilltari en í febrúar. Stýrivextir eru nú 7,5% og gætu hækkað eitthvað til viðbótar fram á mitt þetta ár.


Hækkunin var meiri en almennt hafði verið spáð. Greiningarfólk allra viðskiptabankanna, og við þar á meðal, spáði 0,75 prósentu vaxtahækkun. Við töldum þó að prósentuhækkun kæmi til greina, eins og reyndar líka hækkun um 0,5 prósentur.

Þensla í hagkerfinu og verðþrýstingur víða

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar þar sem vaxtahækkunin er tilkynnt kemur fram að verðbólguþrýstingur hafi haldið áfram og hann nái til æ fleiri þátta. Verðbólguvæntingar til lengri tíma eru enn vel yfir markmiði og raunvextir bankans hafa lækkað frá síðasta fundi nefndarinnar. Útlit sé fyrir að verðbólga verði meiri á næstunni en spáð var í febrúar þótt hægt hafi á húsnæðismarkaði.

Þá er bent á að hagvöxtur hafi verið meiri í fyrra en þjóðarbúskapurinn geti staðið undir til lengdar og vísbendingar séu einnig um kröftugari innlenda eftirspurn á fyrstu mánuðum þessa árs en vænst var. Jafnframt sé spenna á vinnumarkaði töluverð.

Á kynningarfundi eftir vaxtaákvörðunina kom fram að nefndin hefði viljað stíga stór skref að þessu sinni til að ná tökum á verðbólgu og verðbólguvæntingum. Tíminn leiddi svo í ljós þörfina fyrir frekari aðgerðir bankans. Í febrúar hefði óvissa um hversu sterkt áhrif nýlegra kjarasamninga kæmu fram í verðlagi meðal annars haldið aftur af nefndinni í því að taka stórt vaxtahækkunarskref. Það hefði svo komið á daginn að mati nefndarinnar að að þau kostnaðaráhrif myndu koma fram að miklu leyti í verðbólgunni.

Litlar áhyggjur af áhrifum óróa erlendis

Aðspurð sögðust þau Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Rannveig Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri ekki hafa verulegar áhyggjur af áhrifum óróa í alþjóðlegum bankakerfum á íslenskt efnahagslíf. Fólk og fyrirtæki hérlendis væru tiltölulega hóflega skuldsett og í ljósi þeirra varna sem reistar hefðu verið um bankakerfið væru hliðstæð vandræði ólíkleg til að koma fram hér á landi.

Athygli vakti að ekki var vísað til opinberra fjármála yfir höfuð í yfirlýsingu nefndarinnar þótt svo hafi oft verið undanfarið. Sögðu stjórnendur Seðlabankans að bankinn gæti ekki beðið eftir öðrum hagstjórnaraðilum í baráttu við verðbólguna heldur þyrfti að grípa til þeirra aðgerða sem nauðsynlegar væru af hendi bankans nú þegar. Hins vegar væri öll hjálp sem bankinn fengi frá opinberum fjármálum vel þegin. Í því ljósi má nefna að von er á nýrri fjármálaáætlun frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu á næstu vikum og hafa ráðamenn látið í veðri vaka að þar verði boðað meira aðhald ríkisfjármála en í fyrri áætlun.

Þá telur Seðlabankafólk að leiðni peningastefnunnar sé góð og vaxtahækkanir hafi miðlast vel út í hagkerfið til þessa. Áskorunin við að ná niður verðbólgunni sé hins vegar stærri en vænst var. Undanfarið hefði orðið vart við töluverða aukningu útlána til fyrirtækja og því beindist athygli peningastefnunefndarinnar í auknum mæli að áhrifum vaxtastefnunnar á þá þróun. Vonuðu þau að aðrir aðilar, bæði aðilar vinnumarkaðar og stjórnvöld, áttuðu sig á þeirri stöðu þótt ekki hafi verið beint vísað til þessara aðila í yfirlýsingu nefndarinnar nú.

Er frekari hækkun vaxta framundan?

Framsýn leiðsögn peningastefnunefndar er mikið breytt frá síðustu vaxtaákvörðun. Hún slær allharðan tón en boðar þó ekki beinlínis meiri vaxtahækkun á næstunni.

Hún hljóðar svo:

Við þessar aðstæður er mikilvægt að koma í veg fyrir víxlverkun hækkandi launa og verðlags, sérstaklega þegar litið er til mikillar spennu í þjóðarbúinu og komandi kjarasamninga. Peningastefnunefnd mun beita tækjum sínum til að tryggja betra jafnvægi í þjóðarbúskapnum og koma verðbólgu í markmið.

Athygli vekur að þrátt fyrir verulega hækkun vaxta nú og tiltölulega harðan tón er þó ekki kveðið jafn afdráttarlaust að orði um þörfina á meira aðhaldi og gert var í febrúar. Þetta gæti bent til þess að nefndin hafi viljað bregðast strax við lakari horfum nú fremur en að „eiga inni“ hluta af vaxtahækkuninni fyrir næstu ákvörðun, þann 24. maí næstkomandi.

Okkur þykir eftir sem áður líklegt að peningastefnunefndin vilji helst ljúka vaxtahækkunarferlinu af fyrir hið langa sumarhlé milli vaxtaákvörðunarfunda sem tekur við eftir vaxtaákvörðunina í maí. Því má telja líklegt að um mun hóflegri hækkun verði að ræða í maí en nú í mars. Gætu stýrivextir því staðið í 7,75 – 8,0% um mitt árið. Gangi spár okkar um framgang verðbólgu og efnahagsþróun eftir verða stýrivextir líklega óbreyttir í kjölfarið út árið og fara síðan að þokast niður á við snemma á árinu 2024.

Höfundar


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband

Begþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur


Hafa samband