Hækkunin var meiri en almennt hafði verið spáð. Greiningarfólk allra viðskiptabankanna, og við þar á meðal, spáði 0,75 prósentu vaxtahækkun. Við töldum þó að prósentuhækkun kæmi til greina, eins og reyndar líka hækkun um 0,5 prósentur.
Þensla í hagkerfinu og verðþrýstingur víða
Í yfirlýsingu peningastefnunefndar þar sem vaxtahækkunin er tilkynnt kemur fram að verðbólguþrýstingur hafi haldið áfram og hann nái til æ fleiri þátta. Verðbólguvæntingar til lengri tíma eru enn vel yfir markmiði og raunvextir bankans hafa lækkað frá síðasta fundi nefndarinnar. Útlit sé fyrir að verðbólga verði meiri á næstunni en spáð var í febrúar þótt hægt hafi á húsnæðismarkaði.
Þá er bent á að hagvöxtur hafi verið meiri í fyrra en þjóðarbúskapurinn geti staðið undir til lengdar og vísbendingar séu einnig um kröftugari innlenda eftirspurn á fyrstu mánuðum þessa árs en vænst var. Jafnframt sé spenna á vinnumarkaði töluverð.
Á kynningarfundi eftir vaxtaákvörðunina kom fram að nefndin hefði viljað stíga stór skref að þessu sinni til að ná tökum á verðbólgu og verðbólguvæntingum. Tíminn leiddi svo í ljós þörfina fyrir frekari aðgerðir bankans. Í febrúar hefði óvissa um hversu sterkt áhrif nýlegra kjarasamninga kæmu fram í verðlagi meðal annars haldið aftur af nefndinni í því að taka stórt vaxtahækkunarskref. Það hefði svo komið á daginn að mati nefndarinnar að að þau kostnaðaráhrif myndu koma fram að miklu leyti í verðbólgunni.