Myndarleg loðnuvertíð á komandi vetri gæti reynst hagkerfinu umtalsverður búhnykkur. Ef marka má nýbirta ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar fyrir yfirstandandi fiskveiðiár fer líklega í hönd umfangsmesta loðnuvertíð í nærri tvo áratugi. Bráðabirgðaráðgjöf stofnunarinnar eftir haustmælingar hljóðar upp á ríflega 900 þúsund tonna veiði. Til samanburðar var aflamarkið á síðasta fiskveiðiári, sem lauk í lok ágúst síðastliðins, 127 þúsund tonn og af þeim veiddu íslensk skip 71 þúsund tonn. Áratuginn þar á undan sveiflaðist kvóti íslenskra skipa á bilinu frá ríflega 100 þúsund til tæplega 600 þúsund tonna, að undanskildum árunum 2019 og 2020 þegar enginn loðnukvóti var gefinn út.
Stóraukin loðnuveiði ýtir undir efnahagsbatann
Góðar líkur eru á að loðnuvertíð á nýhöfnu fiskveiðiári verði sú stærsta í nærri tvo áratugi. Útflutningur sjávarafurða mun fyrir vikið líklega vaxa milli ára á komandi ári ólíkt því sem við væntum. Horfur eru á að hagvöxtur á árinu 2022 verði fyrir vikið allt að 0,8 prósentum meiri en ella.
Ljóst virðist að loðnuafli íslenskra skipa muni margfaldast á milli ára á yfirstandandi fiskveiðiári. Rétt er þó að halda til haga að hluta loðnukvótans er ráðstafað til erlendra skipa í samræmi við milliríkjasamninga Íslands við nágrannaríki. Í samantekt Morgunblaðsins kemur fram að u.þ.b. 660 þúsund tonn muni koma í hlut íslenskra skipa en ríflega 240 þúsund tonn renni til Grænlendinga, Norðmanna og Færeyinga.
Þá er umtalsverð óvissa um hversu miklum útflutningstekjum svo myndarleg loðnuvertíð gæti skilað. Þar hefur afurðaverð áhrif, en einnig samsetning útflutningsafurðanna. Til að mynda eru loðnuhrogn sem og heilfryst loðna mun verðmætari afurðir en loðnumjöl og -lýsi. Þegar vertíðin er fremur rýr, líkt og á síðasta fiskveiðiári, er allt kapp lagt á að hámarka verðmæti afurðanna og tókst ágætlega til með það í vetur sem leið eins og t.a.m. var fjallað um í fréttabréfi SFS í sumar. Hætt er við að stærri hluti aflans muni enda í bræðslu og hugsanlega gæti stóraukið framboð einnig þrýst verði loðnuafurða almennt niður. Þá er ekki á vísan að róa með að allur leyfilegur afli verði veiddur þótt íslenskar útgerðir virðist raunar vel í stakk búnar til að takast á við stóraukna loðnusókn.
Að öllu þessu sögðu virðist þó blasa við að veruleg aukning verði á útflutningstekjum af loðnuafurðum á nýhöfnu fiskveiðiári. Loðnan skilaði ríflega 18 mö.kr. útflutningstekjum á fyrstu 8 mánuðum þessa árs og er árið í ár hið fyrsta síðan 2019 þar sem tekjur af loðnunni náðu tveggja stafa tölu í milljörðum talið. Okkur þykir ekki óvarlegt að áætla að tekjurnar gætu orðið a.m.k. þrefalt meiri á komandi ári, eða sem samsvarar 50-70 mö.kr. og ekki er útilokað að talan reynist á endanum enn hærri.
Loðna er býsna sveiflukenndur stofn eins og títt er um uppsjávarfiska. Þegar best lét var loðnan í öðru sæti á eftir þorskinum sem sú fisktegund sem mestum útflutningstekjum skilaði fyrir þjóðarbúið. Síðustu ár hefur þó hlutur loðnunnar í útflutningstekjunum verið öllu rýrari en oft áður. Þrátt fyrir það skilaði loðna tæplega 8% allra útflutningstekna frá sjávarútvegi á síðasta áratug. Góðu heilli hafa svo aðrir nytjastofnar meðal uppsjávarfiska orðið drýgri tekjulind með tímanum, t.a.m. kolmunni og svo auðvitað makríllinn á undanförnum árum.
Smávaxinn hvalreki fyrir þjóðarbúið
Og hvað gætu svo þessi gleðitíðindi þýtt fyrir efnahagshorfur hér á landi? Í nýútkominni þjóðhagsspá okkar var gert ráð fyrir þokkalegri loðnuvertíð á komandi vetri enda höfðu þá þegar komið fram vísbendingar um aukningu milli ára. Ráðgjöfin nú er hins vegar umtalsvert myndarlegri en okkur hafði órað fyrir og eru því horfur á að útflutningur sjávarafurða vaxi talsvert á komandi ári, líklega á bilinu 6-8%, í stað þess tæplega 2% samdráttar sem við höfðum áætlað. Á móti verður einhver aukning í innflutningi á aðföngum fyrir sjávarútveginn þótt þau áhrif verði hófleg. Viðskiptajöfnuður gæti því batnað nokkuð hraðar en við ætluðum þegar kemur fram a næsta ár. Þeirri þróun mun að óbreyttu fylgja heldur hraðari styrking krónu en við spáðum í september, sem svo aftur leiðir til þess að verðbólga hjaðnar öllu hraðar á komandi ári en við væntum. Myndarlegri loðnuvertíð fylgir einnig fjölgun starfa og aukin umsvif í hagkerfinu, sér í lagi á þeim svæðum þar sem aflanum er landað og hann unninn. Má þar nefna Austfirði og Vestmannaeyjar.
Þegar öllu er til haga haldið reiknast okkur til að hagvöxtur á næsta ári gæti reynst í kring um 4,4% í ljósi þessara nýjustu frétta í stað þess 3,6% vaxtar sem við spáðum í september. Ekki er samt sopið kálið þó í ausuna sé komið og er rétt að ítreka þá fyrirvara sem við settum hér að framan um aflabrögð, verðþróun, samsetningu afurða o.þ.h. Óhætt er hins vegar að fullyrða að líkurnar á þróttmiklum vexti á komandi ári hafa aukist við nýjustu tíðindi af þessum smávaxna en þó býsna verðmæta laxfiski sem oft hefur fært drjúga björg í íslenskt þjóðarbú á liðnum árum.