Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Sterk erlend staða og viðskiptaafgangur þrátt fyrir Kórónukreppu

Þrátt fyrir þungt högg á útflutning var árið 2020 það níunda í röðinni með samfelldan viðskiptaafgang. Erlend staða þjóðarbúsins er býsna sterk og mun stórbætt ytra jafnvægi og sterk erlend staða reynast efnahagnum mikilvæg stoð á komandi tíð eins og raunin hefur verið undanfarið.


Óhætt er að segja að Kórónukreppuárið 2020 hafi farið betur hvað utanríkisviðskipti og ytra jafnvægi þjóðarbúsins varðar en flestir gerðu ráð fyrir. Þrátt fyrir að stærsta útflutningsgrein landsins, ferðaþjónustan, hafi legið í dvala meirihluta ársins varð árið það 9. í röðinni með samfelldan viðskiptaafgang.

Samkvæmt nýbirtum tölum Seðlanbankans var viðskiptaafgangur 22,1 ma.kr. á lokafjórðungi síðasta árs. Þegar lá fyrir að vöruskiptahalli var 15,5 ma.kr. en afgangur af þjónustujöfnuði  26,4 ma.kr. Því til viðbótar skiluðu frumþáttatekjur 18,3 ma.kr. afgangi en rekstrarframlög 7,1 ma.kr. halla. Sérstaklega er athyglisvert að 4. ársfjórðungur var sá gjöfulasti allra fjórðunga síðasta árs hvað viðskiptajöfnuð varðar. Reyndar mældist einungis halli á einum fjórðungi í fyrra, þ.e. öðrum fjórðungi ársins.

Þjónustuviðskipti og þáttatekjur skiluðu drjúgum afgangi

Á árinu 2020 í heild var 30,9 ma.kr. afgangur af viðskiptajöfnuði við útlönd. Vöruskiptahalli var 90,3 ma.kr. og halli á rekstrarframlögum reyndist 21,8 ma.kr. í fyrra. Þyngra vó þó að þjónustuviðskipti skiluðu afgangi upp á 72,8 ma.kr. og frumþáttatekjur 70,1 ma.kr. Um þróun þjónustuviðskipta var fjallað í nýlegu Korni. Áhugavert er hins vegar að rýna nánar í þróun frumþáttatekna þar sem þar hefur orðið grundvallarbreyting á undanförnum árum.

Fram á miðjan síðasta áratug skilaði þessi liður ávallt halla enda voru erlendar skuldir fram að því umtalsvert meiri en erlendar eignir. Helstu voru það launagreiðslur milli landa sem skiluðu afgangi. Með batnandi erlendri stöðu þjóðarbúsins, sem fjallað er um hér að neðan, fór hins vegar þessi liður að braggast jafnt og þétt þrátt fyrir að launagreiðslur milli landa hættu að skila innflæði.

Líkt og við höfum áður bent á skýra þrír þættir myndarlegan afgang af frumþáttatekjum síðustu misserin:

  • Hratt batnandi erlend staða þjóðarbúsins hefur skilað landinu í þá ákjósanlegu stöðu að erlendar eignir eru umtalsvert meiri en erlendar skuldir eins og fjallað er um hér að neðan.
  • Ávöxtun hlutafjár, sem er töluvert stærri hluti erlendra eigna en erlendra skulda, er að jafnaði meiri en vaxtabyrði af lánum og skuldaskjölum. Sér í lagi á það við í seinni tíð þar sem vextir á alþjóðavísu hafa verið mjög lágir, en lánaskuldir Íslands gagnvart erlendum aðilum eru að langstærstum hluta í erlendri mynt.
  • Á framansögðu er sú mikilvæga undantekning að ýmsar beinar fjárfestingar erlendra aðila hér á landi, t.d. í orkufrekum iðnaði, hafa verið óarðbærar og bókfært tap vegna þeirra kemur til frádráttar á gjaldahlið þáttatekjujafnaðarins í bókhaldi Seðlabankans.

Sem dæmi um síðastnefnda þáttinn má nefna að endurfjárfestur arður af beinni hlutafjáreign nam 13,3 mö.kr. á síðasta ári. Samsvarandi stærð á gjaldahlið bókhalds Seðlabankans var hins vegar neikvæð um 73 ma.kr. á sama tíma, en það endurspeglar tapið sem álver landsins og önnur fyrirtæki í erlendri eigu bókfærðu á tímabilinu.

Hafa ber í huga að afgangurinn af frumþáttatekjum skilar ekki samsvarandi gjaldeyrisflæði til skemmri tíma litið. Það gildir t.d. um framangreint tap fyrirtækja í erlendri eigu en einnig um arð af hlutabréfaeign lífeyrissjóða og annarra innlendra aðila. Slíkum arði er að langstærstum hluta endurfjárfest með beinum eða óbeinum hætti í öðrum erlendum fjáreignum.

Heildarmyndin er þá á þann veg að Kórónukreppan virðist ekki munu steypa hagkerfinu í gamalt far viðskiptahalla þrátt fyrir mikið áfall á útflutningshliðinni. Horfur eru á að viðskiptaafgangur glæðist á nýjan leik ef ferðaþjónustan fer að ná vopnum sínum að nýju þegar lengra líður á þetta ár. Yfirstandandi ár verður því líklega það 10. í röðinni með samfelldan viðskiptaafgang eftir rúma sex áratugi af nær stöðugum viðskiptahalla.

Enn aukast hreinar erlendar eignir þjóðarbúsins

Erlend staða þjóðarbúsins heldur áfram að batna ef marka má nýjar tölur Seðlabankans þar um. Um síðustu áramót námu erlendar eignir að frádregnum skuldum 1.039 mö.kr., eða sem samsvarar ríflega 35% af VLF síðasta árs. Erlendar eignir námu alls 4.441 ma.kr. en erlendar skuldir voru 3.402 ma.kr. Erlenda staðan batna um 83 ma.kr. á lokafjórðungi ársins, að mestu leyti vegna jákvæðra hreinna fjármagnsviðskipta upp á 77 ma.kr. Hins vegar leiddu gengis- og verðbreytingar til 12 ma.kr. lækkunar á hreinu stöðunni. Skýrist það m.a. af hækkun á gengi krónunnar um 4% og hraðari hækkun á innlendu hlutabréfaverði (22,4%) en á erlendum mörkuðum (14%).

Á myndinni hér fyrir neðan má glöggt sjá hvernig samband viðskiptajafnaðar og erlendrar stöðu hefur breyst í grundvallaratriðum til hins betra. Samfara myndarlegum viðskiptajafnaði hefur erlenda staðan batnað jafnt og þétt þótt þar spili aðrir þættir á borð við afar hagfellt uppgjör slitabúa gömlu bankanna fyrir íslenskt þjóðarbú og hagvöxt á tímabilinu einnig hlutverk.

Gerbreytt staða til batnaðar

Að mati okkar er þjóðarbúið nú komið í gerbreytta og mun hagstæðari stöðu gagnvart umheiminum en var meira og minna allan lýðveldistímann. Jafnvægi á utanríkisviðskiptum virðist vera orðið betra til frambúðar og staða Íslands sem lánardrottins gagnvart umheiminum fremur en stórskuldugs hagkerfis á alþjóðavísu er algert grundvallaratriði í því að lágmarka hættuna á óstöðugleika vegna fjármagnsflótta, óhóflegum gengissveiflum og skuldakreppu.

Samsetning erlendu stöðunnar er einnig áhugaverð í ljósi hagstæðrar þróunar á frumþáttatekjum og þeirri stoð sem staðan er okkar örsmáa gjaldmiðli. Hlutabréf og hlutdeildarskírteini, að stórum hluta í eigu lífeyrissjóðanna, mynda verulegan hluta hreinu erlendu eignanna og þá endurspeglar hreina erlenda staðan að miklu leyti hreinan gjaldeyrisforða Seðlabankans, þ.e. þann hluta forðans sem ekki er skuldsettur í erlendum gjaldeyri. Bein fjárfesting erlendra aðila hér á landi er svo 256 mö.kr. meiri en bein fjárfesting innlendra aðila erlendis en eins og fram kom að ofan hefur arðsemi  þeirrar fjárfestingar verið æði döpur undanfarið. Þá eru vaxtaberandi skuldir við erlenda aðila tæplega 1.200 mö.kr. umfram vaxtaberandi eignir innlendra aðila gagnvart útlöndum. Þær skuldir eru hins vegar nær alfarið í erlendri mynt og vextir á þeim lágir.

Samandregið er íslenska þjóðarbúið að koma ótrúlega vel undan erfiðu ári hvað ytra jafnvægi varðar. Það veit á gott varðandi framhaldið þar sem staðan virðist mun líklegri til að batna en að síga á ógæfuhliðina. Þessi staða eykur traust umheimsins á íslenska hagkerfinu, stuðlar að stöðugri krónu en ella og á á endanum eftir að ýta undir betri lífskjör hér á landi en ella væri.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband