Óhætt er að segja að Kórónukreppuárið 2020 hafi farið betur hvað utanríkisviðskipti og ytra jafnvægi þjóðarbúsins varðar en flestir gerðu ráð fyrir. Þrátt fyrir að stærsta útflutningsgrein landsins, ferðaþjónustan, hafi legið í dvala meirihluta ársins varð árið það 9. í röðinni með samfelldan viðskiptaafgang.
Samkvæmt nýbirtum tölum Seðlanbankans var viðskiptaafgangur 22,1 ma.kr. á lokafjórðungi síðasta árs. Þegar lá fyrir að vöruskiptahalli var 15,5 ma.kr. en afgangur af þjónustujöfnuði 26,4 ma.kr. Því til viðbótar skiluðu frumþáttatekjur 18,3 ma.kr. afgangi en rekstrarframlög 7,1 ma.kr. halla. Sérstaklega er athyglisvert að 4. ársfjórðungur var sá gjöfulasti allra fjórðunga síðasta árs hvað viðskiptajöfnuð varðar. Reyndar mældist einungis halli á einum fjórðungi í fyrra, þ.e. öðrum fjórðungi ársins.