Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Starfsfólk vinnur heima einn dag í viku

Starfsfólks Íslandsbanka mun að jafnaði vinna heima einn dag í viku en tilraunaverkefni er þegar hafið. Bankinn stefnir að því að innleiða þetta fyrirkomulag hjá öllum sviðum ef tilraunaverkefni gengur. Auk þess hefur bankinn kynnt fyrir starfsfólki nýjar grænar samgönguáherslur bankans. Íslandsbanki fór með sigur úr býtum í átakinu „Hjólað í vinnuna“ í sínum flokki og mikill áhugi meðal starfsfólks fyrir umhverfisvænni samgöngumáta.


Nýlega var gerð könnun meðal starfsfólks eftir að meirihluti þess hafði unnið heima vegna COVID-19. Niðurstöðurnar sýna fram á mikinn áhuga starfsfólks að halda áfram að vinna heima hluta úr viku, félagsleg tengsl hafa haldist ágæt og afkastageta aukist í mörgum tilvikum. Fyrirkomulagið mun einnig draga úr kolefnisspori bankans en ferðir starfsfólks til og frá vinnu vega hvað þyngst í kolefnismælingum undanfarinna ára. Þá eru þessar aðgerðir einnig taldar hafa jákvæð rekstraráhrif á bankann.

Bankinn hefur einnig kynnt fyrir starfsfólki nýjar áherslur til að hvetja til umhverfisvænni samgöngumáta. Starfsfólk hefur nú aukin tækifæri á að nýta sér rafbílaflota bankans auk fjölmargra rafhlaupahjóla sem bankinn hefur fjárfest í auk annarra grænna úrræða.

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka:

„Við höfum fengið góða æfingu í fjarvinnu á undanförnum vikum og ánægjulegt er að sjá hversu áhugasamt starfsfólk er fyrir sveigjanlegu vinnuumhverfi. Við höfum áður innleitt verkefnamiðað vinnuumhverfi í höfuðstöðvum sem hefur gefist mjög vel. Umræðan um fjarvinnu á sér lengri aðdraganda en við höfum markvisst verið að leita leiða til að draga úr kolefnissporinu í samræmi við sjálfbærnistefnu bankans og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Með þessu tökum við frekari skref til að bæta vinnuumhverfið, aukum starfsánægju og leggjum okkar af mörkum til að draga úr umferð og mengun.“