Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands voru 212.400 manns starfandi á vinnumarkaði á lokafjórðungi ársins 2022 og mældist atvinnuþátttaka tæplega 80%. Frá sama ársfjórðungi árinu áður hefur starfsfólki fjölgað um 11.900. Að meðaltali voru 7.200 einstaklingar atvinnulausir á tímabilinu samkvæmt könnuninni og mældist atvinnuleysi 3,3%. Á þennan mælikvarða hefur atvinnuleysi ekki mælst minna síðan á lokafjórðungi ársins 2018.
Þetta rímar mjög vel við tölur Vinnumálastofnunar um skráð atvinnuleysi, en það mældist einnig 3,3% á lokafjórðungi ársins 2022. Samkvæmt nýlegum tölum jókst þó atvinnuleysi í janúar úr 3,4% í 3,7%. Atvinnuleysi mælist yfirleitt meira yfir vetrarmánuðina og þá sérstaklega í janúar og febrúar, en hjaðnar svo þegar líða tekur á sumarið.