Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Spennu gætir á vinnumarkaði

Vinnumarkaðurinn hefur jafnað sig merkilega fljótt eftir faraldur og eru störf nú orðin fleiri en þau voru fyrir hann. Spennu gætir á vinnumarkaði og telja stjórnendur stærstu fyrirtækja skort vera á starfsfólki, einkum í byggingageiranum.


Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands voru 212.400 manns starfandi á vinnumarkaði á lokafjórðungi ársins 2022 og mældist atvinnuþátttaka tæplega 80%. Frá sama ársfjórðungi árinu áður hefur starfsfólki fjölgað um 11.900. Að meðaltali voru 7.200 einstaklingar atvinnulausir á tímabilinu samkvæmt könnuninni og mældist atvinnuleysi 3,3%. Á þennan mælikvarða hefur atvinnuleysi ekki mælst minna síðan á lokafjórðungi ársins 2018.

Þetta rímar mjög vel við tölur Vinnumálastofnunar um skráð atvinnuleysi, en það mældist einnig 3,3% á lokafjórðungi ársins 2022. Samkvæmt nýlegum tölum jókst þó atvinnuleysi í janúar úr 3,4% í 3,7%. Atvinnuleysi mælist yfirleitt meira yfir vetrarmánuðina og þá sérstaklega í janúar og febrúar, en hjaðnar svo þegar líða tekur á sumarið.

Skortur á starfsfólki í byggingageiranum

Mest er eftirspurn eftir starfsfólki í byggingageiranum. Samkvæmt Hagstofunni eru laus störf í greininni nær 1.500 talsins og hlutfall lausra starfa um 8%. Sé miðað við árið á undan hefur lausum störfum í byggingargeiranum fjölgað um 2,4%. Útlit er fyrir áframhaldandi vöxt í ýmsum atvinnugreinum og þar á meðal byggingarstarfsemi, þar sem skortur á starfsfólki virðist vera einna mestur. Samkvæmt nýlegri könnun Gallup meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins telja 53% fyrirtækja skort vera á starfsfólki og skorturinn er mestur í byggingargeiranum þar sem 78% stjórnenda slíkra fyrirtækja töldu starfsfólk skorta.

Næst mestur mælist skorturinn hjá fyrirtækjum í verslunargeiranum eða  hjá 63% fyrirtækja. Skortur á starfsfólki í ferðaþjónustu sveiflast meira og mældist 29% í desember, en ætla má að það hlutfall hækki aftur þegar háannatími ferðaþjónustunnar færist nær.

Störfum mun fjölga á næstu misserum

Útlit er fyrir frekari fjölgun starfa á næstu misserum sem verða líklega að stórum hluta mönnuð af erlendu starfsfólki. Erlent starfsfólk hér á landi telur ríflega 46 þúsund, eða um 22% allra á vinnumarkaði og hefur þetta hlutfall aldrei verið hærra. Ætla má að hlutfallið haldi áfram að hækka á næstunni ef marka má þörf fyrir starfsfólk í mörgum okkar helstu atvinnugreina.

Vinnumarkaður hefur jafnað sig merkilega fljótt eftir faraldur og eru störf nú orðin fleiri en fyrir hann. Atvinnuleysi á nýliðnu ári mældist 3,9% að meðaltali og var því á svipuðum slóðum og árið 2019 þegar það var 3,6%. Til samanburðar var atvinnuleysi í kringum 8% bæði árin 2020 og 2021, ef ekki er tekið tillit til þeirra sem voru á hlutabótaleiðinni svokölluðu.

Í þjóðhagsspá okkar sem kom út í byrjun mánaðarins spáum við að atvinnuleysi í ár verði á svipuðum slóðum og það var á lokafjórðungi síðasta árs, í kringum 3,3% að meðaltali. Á næsta ári mun það svo aukast lítillega samhliða minni spennu á vinnumarkaði. Við spáum því að atvinnuleysi verði 3,7% að jafnaði árið 2024 og 3,8% árið 2025.

Höfundur


Bergþóra Baldursdóttir

Hagfræðingur


Hafa samband