Við spáum því að peningastefnunefnd Seðlabankans muni ákveða að hækka stýrivexti bankans um 0,25 prósentur á vaxtaákvörðunardaginn 6. október. Meginvextir bankans, vextir á 7 daga bundnum innlánum, verða samkvæmt því 1,5% og hafa þá samtals hækkað um 0,75 prósentur frá maíbyrjun.
Dregið hefur úr óvissu um framgang Delta-bylgju faraldursins og efnahagsbati virðist kominn á nokkurt skrið. Á sama tíma hefur verðbólga reynst þrálát, skammtíma verðbólguhorfur hafa þokast til verri vegar og verðbólguálag á markaði hefur mjakast upp. Í ljósi þess hversu peningastefnunefndinni virðist umhugað um að raunstýrivextir hækki fyrr en síðar í átt að núllpunktinum og þess að tveir nefndarmenn af fimm vildu stíga stærra hækkunarskref í ágúst en raunin varð þótt óvissa væri þá meiri en nú virðist þessi niðurstaða blasa við.