Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Spáum vaxandi verðbólgu í september

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,31% í september frá fyrri mánuði. Ef spáin gengur eftir mun 12 mánaða verðbólga mælast 3,4% og hefur ekki mælst jafn há síðan í maí á síðasta ári. Verðbólgan mun því áfram mælast yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans sem er 2,5% og er útlit fyrir að hún verði þar fyrir ofan næstu mánuði.


Samantekt

  • Spáum 0,31% hækkun VNV í september

  • Veiking krónunnar spilar veigamikinn þátt

  • Verð eldsneytis hækkar áfram

  • Kaupverð bifreiða fer hækkandi

  • Lyf og lyfjavörur hækka á milli mánaða

  • Fermetraverð fjölbýla lækkar

Skráðu þig á póstlistann okkar

Krónan hefur veikst um 3% gagnvart evrunni á síðastliðnum mánuði og um tæpt 21% frá áramótum. Enginn vafi leikur á því að umtalsverð veiking krónunnar það sem af er ári hefur mikið að segja til um vaxandi verðbólgu síðustu 5 mánuði. Það kom þó vissulega nokkuð á óvart hve langan tíma það tók fyrir veikingu krónunnar að láta verulega að sér kveða í verðlaginu hér á landi. Seðlabankinn er enn virkur á gjaldeyrismarkaði og hafa hans aðgerðir verið til dempunar á frekari veikingu krónunnar, sér í lagi síðustu vikur. Spá Greiningar er að verðbólgan mælist að meðaltali 2,8% á þessu ári, 2,8% á árinu 2021 og 1,9% árið 2022.

Væg útsölulok draga úr hausthækkun VNV

Síðustu ár hafa áhrif af sumarútsölum bæði í júlí og ágúst vegið til lækkunar á VNV en í ár voru þau áhrif fremur lítil í samanburði og rekja má vaxandi verðbólgu á síðustu tveimur mánuðum að stórum hluta til þess. Við spáum því að vegna minna umfangs sumarútsalanna verði minni hækkun á verði heimilistækja og fatnaðar í september en hefðbundið hefur verið síðustu ár.

Flugfargjöld fylgja lækkunartakti septembermánaða síðustu ára og vega þau einna þyngst einstakra liða til lækkunar á VNV en við spáum að þau muni lækka um 5% (0,08% í VNV). Þyngst vegur til hækkunar liðurinn föt og skór en að öðru óbreyttu hafa nýjar fatalínur, keyptar á óhagstæðara gengi en hinar fyrri, verið að koma í verslanir eftir sumarútsölur í þessum mánuði (0,15% í VNV). Húsgögn og heimilisbúnaður hækkar einnig nokkuð í verði og er svipuð saga að segja af þeim lið og fötum og skóm. Þessi hækkun telst þó hófleg miðað við sama mánuð síðustu ár.

Fermetraverð fjölbýla lækkar á milli mánaða

Áhugavert er einnig að sjá að þrátt fyrir mikið líf á fasteignamarkaði þessa stundina lækkaði meðalfermetraverð fjölbýla bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni samkvæmt verðkönnun okkar. Eftir metmánuð í júní fyrir hrein ný útlán (45 ma.kr.) dróst lántaka örlítið saman en var enn yfir meðaltali í júlí. Ætla má að fasteignamarkaðurinn sé að eitthvað farinn að kólna eftir að lágir vextir höfðu kynt talsvert undir honum fyrr á árinu. Við spáum því að liðurinn Reiknuð húsaleiga lækki um 0,1% á milli mánaða (-0,02% í VNV) en það væri mesta lækkun þess liðar síðan í maí þegar fjöldi íbúða sem áður höfðu verið í útleigu fór í sölu. Liðurinn er samsettur af verðþróun íbúðarhúsnæðis og þróun vaxta og spáum við því að áhrif fyrrnefnda liðarins muni vega til lækkunar ólíkt flestum öðrum mánuðum undanfarið þar sem vextir hafa frekar vegið lækkunar og íbúðaverð til hækkunar.

Útlit fyrir verðbólgu yfir markmiði næsta kastið

Verðbólguhorfur hafa þokast upp síðustu 2 mánuði eftir að veiking krónunnar fór hressilega að láta að sér kveða í verðlagi innanlands. Erfitt er að segja til um þróun krónunnar næsta kastið en ljóst er að hún muni hafa mikil áhrif á þróun verðbólgu og verðbólguvæntinga. Við teljum þó að þegar betur fer að ára fyrir útflutningsgreinar sé óvissan til meðallangs tíma fremur í átt til hækkunar raungengis, þá líklega samfara einhverri styrkingu nafngengisins.

Greining Íslandsbanka vinnur nú hörðum höndum að nýrri þjóðhagsspá sem er væntanleg seinna í september. Meðal annars fól sú vinna í sér uppfærslu á forsendum í langtímaverðbólguspárlíkani okkar sem hefur orðið til þess að verðbólguspá næsta árs hefur hliðrast örlítið upp. Við teljum hins vegar sem fyrr að á endanum muni verðbólga hjaðna að markmiði Seðlabankans og gerum ráð fyrir að verðbólga verði að jafnaði lítillega undir markmiðinu á seinni hluta spátímans.

Höfundur


Tryggvi Snær Guðmundsson

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband

Lagalegur fyrirvari

Skýrsla þessi er tekin saman af Greiningu Íslandsbanka hf. (Íslandsbanki).

Upplýsingar í skýrslu þessari eru upprunnar frá innlendum og erlendum upplýsinga- og fréttaveitum, sem taldar eru áreiðanlegar, ásamt opinberum upplýsingum, eigin úrvinnslu Greiningar og mati á hverjum tíma. Upplýsingarnar hafa ekki verið kannaðar sjálfstætt af Íslandsbanka og ábyrgist bankinn ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra. Skoðanir höfunda geta breyst án fyrirvara og ber Íslandsbanka ekki skylda til að uppfæra, lagfæra eða breyta skýrslunni við breyttar forsendur.

Skýrslan er einungis birt í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á hana sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum. Íslandsbanki og starfsmenn bankans bera ekki ábyrgð á viðskiptum sem kunna að vera gerð á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram koma í skýrslunni. Þeim aðilum sem hafa hug á viðskiptum er bent á að leita sér sérfræðilegrar ráðleggingar og kynna sér vel hina ýmsu fjárfestingarkosti sem í boði eru. Fjárfestingum fylgir ávallt fjárhagsleg áhætta og ber m.a. að hafa í huga áhættu vegna alþjóðlegra fjárfestinga og gengisflökts gjaldmiðla. Fjárfestingamarkmið og fjárhagsstaða fjárfesta er mismunandi. Bent skal á að árangur í fortíð er ekki trygging um árangur í framtíð.

Skýrslur og aðrar upplýsingar sem berast frá Íslandsbanka eru einungis ætlaðar til einkanota. Hvorki má afrita efnið, vitna í það né dreifa því, í heild eða að hluta, án skriflegs leyfis frá Íslandsbanka.

Skýrsla þessi er stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í henni sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem hún fjallar um.

Eftirlitsaðili: Fjármálaeftirlitið (www.fme.is).

BANDARÍKIN

Skýrslu þessari eða afritum hennar má ekki dreifa í Bandaríkjunum eða til viðtakenda sem eru bandarískir ríkisborgarar í andstöðu við takmarkanir sem kveðið er á um í bandarískum lögum. Dreifing skýrslunnar í Bandaríkjunum kynni að teljast brot á þeim lögum.

KANADA

Upplýsingarnar í skýrslu þessari eru ekki ætlaðar til dreifingar eða útbreiðslu með neinum hætti í Kanada og því ber ekki að líta á þær sem fjármálaráðgjöf eða ráðleggingu um fjárfestingar í skilningi kanadískra verðbréfalaga.

ÖNNUR LÖND

Lög og reglugerðir í öðrum löndum kunna einnig að takmarka dreifingu skýrslu þessarar.