Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Spáum óbreyttum stýrivöxtum 6. febrúar

​Við spáum óbreyttum stýrivöxtum við næstu vaxtaákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans, sem kynnt verður þann 6. febrúar næstkomandi. Meginvextir bankans verða samkvæmt því áfram 4,50%.


  • Spáum óbreyttum stýrivöxtum 6. febrúar
  • Verðbólguvæntingar og verðbólguhorfur hafa dempast nokkuð
  • Efnahagshorfur hafa dökknað frá nóvemberspá Seðlabankans
  • Aukið peningalegt aðhald þrátt fyrir óbreytta stýrivexti?
  • Enn verulegur vaxtamunur við útlönd
  • Óbreyttir vextir út áratuginn?

Við spáum óbreyttum stýrivöxtum við næstu vaxtaákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans, sem kynnt verður þann 6. febrúar næstkomandi. Meginvextir bankans verða samkvæmt því áfram 4,50%.

Við síðustu vaxtaákvörðun í desember síðastliðnum stóð val peningastefnunefndar á milli þess að „..staldra við og halda vöxtum óbreyttum eða hækka vexti um 25 prósentur“ svo vitnað sé í fundargerð frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi. Einn nefndarmaður vildi á hækka vextina en hinir voru ásáttir um að halda þeim óbreyttum. Orðalagið „staldra við“ bendir til þess að nefndarmenn hafi í desember flestir verið þeirrar skoðunar af frekari hækkun vaxta gæti þurft að koma til á næstunni.

Meiri slaki í peningastefnunefndinni?

Frá vaxtaákvörðuninni í desember hefur hins vegar ýmislegt komið á daginn sem gæti gert peningastefnunefndina minna vígreifa í hækkunarhamnum. Verðbólgumæling janúarmánaðar var í hóflegri kantinum og verðbólguvæntingar hafa hjaðnað á ýmsa mælikvarða undanfarnar vikur. Þá eru vísbendingar um að framleiðslupenna gæti hjaðnað allhratt á yfirstandandi ári. Þörfin fyrir peningalegt aðhald á næstunni virðist því fara heldur minnkandi. Eftir sem áður er líklegt að framsýn leiðsögn peningastefnunefndarinnar verði fremur í átt til vaxtahækkunar en hitt, en við teljum hins vegar að stýrivextir gætu haldist óbreyttir út þetta ár.

Stýrivaxtaspá febrúar 2019