Skiptar skoðanir í október
Í októberbyrjun var stýrivöxtum haldið óbreyttum eftir 14 samfelldar stýrivaxtahækkanir frá vordögum 2021. Skoðanir voru þó skiptar meðal meðlima peningastefnunefndar um þá ákvörðun. Innanbúðarfólk í Seðlabankanum (Ásgeir Jónsson, Rannveig Sigurðardóttir og Gunnar Jakobsson) var einhuga um að hrófla ekki við vöxtunum. Nýjustu meðlimir nefndarinnar og um leið báðir utanaðkomandi nefndarmenn höfðu hins vegar efasemdir um óbreytta vexti.
- Ásgerður Ósk Pétursdóttir kaus raunar með tillögu um óbreytta vexti en hefði fremur kosið að hækka vexti um 0,25 prósentur.
- Herdís Steingrímsdóttir greiddi atkvæði gegn tillögunni og vildi hækka vexti um 0,25 prósentur.
Herdís taldi að vísbendingar um að tekið væri að hægja á umsvifum væru ekki nægjanlega sannfærandi. Lagði hún áherslu á að spenna á vinnumarkaði væri enn töluverð og að þótt taumhald peningastefnunnar hefði aukist og raunvextir væru nýlega orðnir jákvæðir hefði hún áhyggjur af því að taumhaldið væri ekki nægjanlegt til að koma verðbólgu í markmið innan ásættanlegs tíma.
Ásgerður tók undir þessi sjónarmið en taldi hins vegar að hægt væri að staldra við þar sem stutt væri í næsta fund og þá lægi ný þjóðhagsspá fyrir.
Nefndin var sammála um að áhrif vaxtahækkana bankans væru farin að koma fram í meira mæli. Aftur á móti væri enn nokkur spenna á vinnumarkaði og í þjóðarbúskapnum í heild. Vísbendingar væru um að tekið væri að hægja á umsvifum í þjóðarbúskapnum á suma mælikvarða en einnig væru merki um að spenna á aðra mælikvarða hefði jafnvel aukist. Í ljósi þess að heildarmyndin hefði ekki breyst að ráði frá síðasta fundi gæti verið rétt að staldra við en á næsta fundi myndi liggja fyrir ný þjóðhags- og verðbólguspá bankans.
Helstu rök fyrir óbreyttum vöxtum í október:
- Áfram hefði dregið úr vexti efnahagsumsvifa og vísbendingar væru heldur skýrari en áður um að hægt hefði á vexti einkaneyslu.
- Þótt verðbólga væri enn mikil þá hefði hún samt sem áður hjaðnað frá því í vor og hægt hefði á verðhækkunum undanfarið.
- Undirliggjandi verðbólga miðað við meðaltal ólíkra mælikvarða hefði einnig minnkað lítillega frá ágústfundi nefndarinnar.
- Nefndarmenn töldu að það hefði tekist sem lagt hafði verið upp með á vormánuðum að hækka vexti skarpt til að ná árangri fyrr, t.d. með hækkandi raunvöxtum sem væru að auka sparnað heimila.
- Áhrif hærri raunvaxta ættu einnig eftir að koma fram í auknum mæli á næstunni
- Miðlun peningastefnunnar hefði gengið vel og bæði innláns- og útlánsvextir hefðu hækkað undanfarið.
- Raunvextir sem fyrirtæki stæðu frammi fyrir væru nokkru hærri en raunvextir miðað við meðaltal ólíkra mælikvarða og mætti áætla að taumhaldið væri því orðið nægjanlegt á þann mælikvarða miðað við núverandi aðstæður.
- Líkur væru á að taumhaldið myndi aukast frekar á næstu misserum vegna minnkandi verðbólgu og því væri ekki ljóst hvort þörf væri á frekari hækkun nafnvaxta.
Helstu rök fyrir vaxtahækkun:
- Enn væri spenna á vinnumarkaði og vísbendingarnar um hægari umsvif í þjóðarbúskapnum væru ennþá veikar
- Samkvæmt bráðabirgðatölum þjóðhagsreikninga virðist framleiðsluspenna einnig hafa verið meiri í fyrra og á fyrri hluta þessa árs en talið var á síðasta fundi og því gæti þurft hærri vexti en ella.
- Meiri áhætta fólgin í því að herða taumhaldið of lítið heldur en of mikið þar sem það væri einungis stuttur tími liðinn síðan raunvextir urðu jákvæðir og lítið þyrfti út af að bregða til þess að þeir myndu lækka á ný.
- Fáar vísbendingar væru fyrir hendi um að taumhaldið væri of þétt og nokkur áhætta væri því fólgin í því að ljúka vaxtahækkunarferlinu of snemma.
- Það væri áhyggjuefni að kjölfesta verðbólguvæntinga virtist vera löskuð sem gæti þýtt að taumhald peningastefnunnar þyrfti að vera meira en ella.
- Gengi krónunnar hefði veikst undanfarið sem væri áhyggjuefni ef það myndi leiða til þess að innflutt verðbólga yrði meiri en ella
- Enn væru talsverðar líkur á annarrar umferðar áhrifum kostnaðarhækkana á verðlag.
Hér má sjá yfirlit yfir ýmsa þá þætti sem við teljum að peningastefnunefndin muni leggja á vogarskálarnar við vaxtaákvörðunina nú (það er að segja ef þróun á Reykjanesskaga trompar ekki aðra þ.ætti við ákvörðunina):