Spáum lítilsháttar hjöðnun verðbólgu í júní

Greining Íslandsbanka spáir því að ársverðbólga mælist 5,9% í júnímánuði. Það verður því lítilsháttar breyting á árstakti verðbólgunnar í mánuðinum og samkvæmt skammtímaspá okkar verður takturinn tregbreytanlegur yfir sumarmánuðina. Við teljum samt sem áður góðar líkur á hraðri hjöðnun á haustmánuðum og spáum því að 12 mánaða verðbólga mælist 5,3% í árslok.


Við spáum því að Vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,6% í júní frá fyrri mánuði. Gangi spáin eftir mun 12 mánaða verðbólga hjaðna lítillega úr 6,2% í 5,9% eftir nokkuð óvænta hækkun síðasta mánaðar. Hækkunina í maí má að hluta til rekja til verðhækkana á innfluttum vörum en þær höfðu lækkað mánuðinn á undan. Verðbólga á evrusvæðinu hækkaði í maí sem kann að skýra hluta af hækkuninni þótt áhrifin séu líklega hverfandi. Þá lækkuðu flugfargjöld ekki eins mikið og við höfðum spáð. Við gerum þar af leiðandi ráð fyrir því að hækkanir flugfargjalda í júní verði í hóflegri kantinum m.v. árstíma. Hagstofa birtir vísitölu neysluverðs fyrir mánuðinn þann 27. júní.

Húsnæðisliður vegur þyngst til hækkunar

Húsnæðisliðurinn vegur þyngst til hækkunar líkt og seinustu mánuði. Mæling júnímánaðar verður sú fyrsta þar sem notast er við nýja aðferð við mat á reiknaðri húsaleigu. Nýja aðferðin byggir á gögnum um þróun leiguverðs í stað verðs í fasteignaviðskiptum auk vaxtaþáttar. Við spáum því að reiknuð húsaleiga hækki um 1,1% en margt bendir til þess að þó nokkur spenna sé á leigumarkaði. Þar sem það er enn ekki komin reynsla á nýju aðferðina ríkir meiri óvissa en ella um húsnæðisliðinn í þessari spá. Þrátt fyrir óvissu sem fylgir breyttri aðferðafræði fyrst um sinn teljum við hana koma til með að minnka sveiflur á húsnæðisliðnum í verðbólgumælingum til lengri tíma þar sem hún er óháð skammtímasveiflum á fjármálamarkaði.

Árviss hækkun flugfargjalda en eldsneyti lækkar

Að undanskildum húsnæðislið er það liðurinn Ferðir og flutningar sem vegur þyngst til hækkunar í júnímánuði en hann hækkar um 0,64% (0,10% áhrif á VNV). Þar af hækka flugfargjöld um 5,1% (0,09% áhrif á VNV) en um er að ræða árvissa hækkun sem fylgir jafnan háannartíma í ferðaþjónustu. Að sama skapi hækka hótel og veitingastaðir um 1,1% (0,06% áhrif á VNV) í takt við þennan háannartíma. Eldsneyti lækkar um 0,6% (-0,02% áhrif á VNV) og er jafnframt sá liður sem vegur þyngst til lækkunar þar sem bæði bensín og dísilolía lækka samkvæmt okkar mælingum. Það skýrist m.a. af lækkandi heimsmarkaðsverði á olíu síðustu misseri.

Við spáum því að matur og drykkur hækki um 0,35% (0,05% áhrif á VNV) og verðhækkanir á innfluttum vörum teygi sig yfir í júní að hluta. Aðrir helstu liðir sem hækka á milli mánaða í júní eru húsgögn og heimilisbúnaður sem hækka um 0,4% (0,02% áhrif á VNV) og tómstundir og menning sem hækka um 0,5% (0,05% áhrif á VNV)

Útlitið á næstunni

Þar sem VNV hækkaði ekki mikið yfir sumarmánuði síðasta árs verður árstaktur verðbólgunnar tregbreytanlegur yfir sumarið. Í skammtímaspá okkar gerum við ráð fyrir 0,2% hækkun VNV í júlí, 0,4% hækkun VNV í ágúst og 0,3% hækkun í september. Gangi spáin eftir mun ársverðbólga mælast 6,1% í júlí, 6,2% í ágúst og 6,1% í september.

Óvissuþættirnir eru margir en verðbólgan næstu mánuði mun einna helst velta á áhrifum nýrrar aðferðafræði við útreikning á reiknaðri húsaleigu, hvernig rætist úr sumrinu í ferðaþjónustu og hvernig kjarasamningar fyrir þann hluta vinnumarkaðar sem á enn eftir að skrifa undir þróast. Áhrif nýrra kjarasamninga á verðlag eiga enn eftir að koma almennilega í ljós en verðhækkanir á breiðum grunni í maí kunna að hafa verið fyrstu áhrif þeirra. Til þess að spá okkar gangi eftir þarf launaskrið að vera takmarkað og gengi krónu stöðugt. Ófriðaröldur á heimsvísu eru einnig stór óvissuþáttur, stigmögnun á þeim vettvangi gæti haft veruleg neikvæð áhrif á milliríkjaviðskipti, verðlag og hagþróun hér sem erlendis.

Höfundur


Profile card

Birkir Thor Björnsson

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband

Lagalegur fyrirvari

Skýrsla þessi er tekin saman af Greiningu Íslandsbanka hf. (Íslandsbanki).

Upplýsingar í skýrslu þessari eru upprunnar frá innlendum og erlendum upplýsinga- og fréttaveitum, sem taldar eru áreiðanlegar, ásamt opinberum upplýsingum, eigin úrvinnslu Greiningar og mati á hverjum tíma. Upplýsingarnar hafa ekki verið kannaðar sjálfstætt af Íslandsbanka og ábyrgist bankinn ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra. Skoðanir höfunda geta breyst án fyrirvara og ber Íslandsbanka ekki skylda til að uppfæra, lagfæra eða breyta skýrslunni við breyttar forsendur.

Skýrslan er einungis birt í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á hana sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum. Íslandsbanki og starfsmenn bankans bera ekki ábyrgð á viðskiptum sem kunna að vera gerð á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram koma í skýrslunni. Þeim aðilum sem hafa hug á viðskiptum er bent á að leita sér sérfræðilegrar ráðleggingar og kynna sér vel hina ýmsu fjárfestingarkosti sem í boði eru. Fjárfestingum fylgir ávallt fjárhagsleg áhætta og ber m.a. að hafa í huga áhættu vegna alþjóðlegra fjárfestinga og gengisflökts gjaldmiðla. Fjárfestingamarkmið og fjárhagsstaða fjárfesta er mismunandi. Bent skal á að árangur í fortíð er ekki trygging um árangur í framtíð.

Skýrslur og aðrar upplýsingar sem berast frá Íslandsbanka eru einungis ætlaðar til einkanota. Hvorki má afrita efnið, vitna í það né dreifa því, í heild eða að hluta, án skriflegs leyfis frá Íslandsbanka.

Skýrsla þessi er stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í henni sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem hún fjallar um.

Eftirlitsaðili: Fjármálaeftirlitið (www.fme.is).

BANDARÍKIN

Skýrslu þessari eða afritum hennar má ekki dreifa í Bandaríkjunum eða til viðtakenda sem eru bandarískir ríkisborgarar í andstöðu við takmarkanir sem kveðið er á um í bandarískum lögum. Dreifing skýrslunnar í Bandaríkjunum kynni að teljast brot á þeim lögum.

KANADA

Upplýsingarnar í skýrslu þessari eru ekki ætlaðar til dreifingar eða útbreiðslu með neinum hætti í Kanada og því ber ekki að líta á þær sem fjármálaráðgjöf eða ráðleggingu um fjárfestingar í skilningi kanadískra verðbréfalaga.

ÖNNUR LÖND

Lög og reglugerðir í öðrum löndum kunna einnig að takmarka dreifingu skýrslu þessarar.