Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,4% í ágústmánuði. Gangi spá okkar eftir verður 12 mánaða verðbólga 4,2% og hjaðnar lítillega frá júlímánuði. Skammtíma verðbólguhorfur hafa batnað lítillega að mati okkar og væntanlega er toppur núverandi verðbólgukúfs að baki. Sem fyrr er þó ekki útlit fyrir að verðbólga hjaðni að markmiði Seðlabankans fyrr en eftir mitt næsta ár. Hagstofan birtir VNV-mælingu ágústmánaðar þann 30. ágúst.
Spáum hjöðnun verðbólgu í ágúst
Útlit er fyrir að vísitala neysluverðs hækki um 0,4% í ágúst. Gangi sú spá eftir mun verðbólga mælast 4,2% í ágúst og þar með minni en hún hefur verið síðan í febrúar. Hækkun íbúðaverðs og útsölulok vega þyngst í hækkun neysluverðs í ágúst. Innlendur kostnaðarþrýstingur skýrir bróðurpart verðbólgunnar en áhrif veikingar krónu hafa minnkað jafnt og þétt.
Áhrif útsöluloka minni en oft áður
Líkt og jafnan er raunin í ágústmánuði hafa útsölulok talsverð hækkunaráhrif á VNV. Áhrifin eru þó talsvert minni í spá okkar en raunin hefur verið síðustu ár. Útsöluáhrif reyndust mun vægari í júlímánuði en venjan hefur verið, að síðasta ári undanskildu. Líklega er skýring þess einhver blanda af grynnri útsölum og tímasetningu þeirra og gerum við ráð fyrir hvoru tveggja í spá okkar fyrir VNV í ágúst og september. Öfugt við síðasta ár er hins vegar líklegt að fata-, raftækja- og húsbúnaðarverslanir séu að kaupa inn nýjar vörur á nokkru hagstæðara gengi en útsöluvörurnar voru keyptar inn á að jafnaði fyrr á árinu. Heildaráhrifin á verðbólgu af þessum liðum á 3. ársfjórðungi verða því vonandi til hóflegri hækkunar en í fyrra, þótt vissulega hafi innlendir kostnaðarþættir hækkað á tímabilinu.
Við gerum ráð fyrir að hækkun á fata- og skóverði hafi áhrif til 0,15% hækkunar VNV í ágúst. Hins vegar lítur út fyrir að útsölur hjá ýmsum stórum raftækja- og húsbúnaðarverslunum hafi náð fram yfir mælingartímann í ágúst og spáum við að lækkun á slíkum vörum hafi 0,03% lækkunaráhrif í VNV nú.
Íbúðaverð vegur áfram til hækkunar
Að fötum og skóm undanskildum hefur reiknuð húsaleiga mestu hækkunaráhrifin (0,10% í VNV) í spá okkar fyrir ágúst. Lítið lát er á hækkunartakti íbúðaverðs á landinu og nam árshækkun markaðsverðs íbúðarhúsnæðis í júlímánuði ríflega 13% á mælikvarða Hagstofunnar. Íbúðaverð ræður mestu um þróun reiknuðu húsaleigunnar og áætlum við að það muni hækka um 0,6% milli mánaða í ágústmælingunni. Til samanburðar hefur markaðsverð íbúðarhúsnæðis hækkað um 1,25% að jafnaði í mánuði hverjum það sem af er ári á mælikvarða Hagstofunnar.
Af öðrum liðum sem hafa áhrif til hækkunar VNV í ágúst má nefna eldsneytisverð, sem hækkar um ríflega 1% samkvæmt könnun okkar (0,03% í VNV). Þá leiðir verðhækkun á innfluttu efni til 0,5% hækkunar á viðhaldskostnaði húsnæðis (0,03% í VNV), matvælaliðurinn til 0,02% hækkunar og hækkun hjá veitingahúsum til 0,01% hækkunar. Óvissa er um þróun flugfargjalda þar sem veður skipast skjótt í lofti á þeim markaði þessa dagana og gerum við því ráð fyrir að áhrif þess liðar verði hvorki til lækkunar né hækkunar VNV í ágúst.
Innlendur verðbólguþrýstingur tekur við af innfluttum
Talsverð breyting hefur orðið á samsetningu verðbólgunnar frá því hún fór að rísa í kjölfar COVID-19 faraldursins á síðasta ári. Framan af vógu áhrif af veikingu krónu þyngst í vaxandi verðbólgu. Í júlímælingunni hefði sú mynd hins vegar breyst verulega. Af 4,3% verðbólgu í júlímánuði mátti rekja 1,2% til innfluttra vara, 1,5% til húsnæðisliðar, 1,2% til innlendrar þjónustu og 0,4% til innlendra vara. Þótt innflutt aðföng séu vissulega einhver hluti af kostnaði við flesta innlenda liði má draga þá ályktun af þessu að innlendir kostnaðarþættir og eignaverðþróun vegi mest í verðbólgunni um þessar mundir.
Verðbólgan hjaðnar á endanum
Útlit er fyrir að verðbólga verði við 4,0% efri þolmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans enn um sinn. Við spáum 0,4% hækkun VNV í september, 0,2% í október og sömuleiðis 0,2% hækkun vísitölunnar í nóvember. Miðað við þá spá verður verðbólga 4,2% í nóvember og horfur eru á að hún mælist 4,1% í árslok.
Í kjölfarið er útlit fyrir að verðbólgan láti undan síga jafnt og þétt. Áætlum við að 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans verði loks náð að nýju á 3. ársfjórðungi 2022 og að verðbólga verði nærri markmiði eftir það. Spá okkar hljóðar upp á 3,0% verðbólgu að jafnaði árið 2022 en 2,6% verðbólgu árið 2023 að meðaltali.
Rétt er að halda því til haga að verðbólgukúfur er ekki bundinn við Ísland þessa dagana. Áhrif faraldursins á verðlag hafa á heildina litið verið til þess að ýta upp neysluverði þetta árið, bæði vegna ýmissa flöskuhálsa á framboðshliðinni og eins vegna vaxandi spurnar í mörgum landa heims þegar faraldurinn fór loks að láta undan síga. Þá hefur fasteignaverð víða um heim hækkað hratt síðustu misserin líkt og hér á landi, þótt sú hækkun komi í fæstum tilfellum fram í verðbólgumælingum. Rétt eins og í spá okkar fyrir Ísland er þess þó almennt vænst að kúfurinn verði fremur skammvinnur.
Í töflunni má sjá helstu forsendur fyrir langtímaspá okkar. Við gerum ráð fyrir að gengi krónu styrkist um u.þ.b. 5% frá núverandi gildum fram til loka spátímans og að innflutt verðbólga verði þar með lítil að jafnaði. Á móti vegur að útlit er að okkar mati fyrir talsverðan innlendan kostnaðarþrýsting. Áætlum við að laun muni að jafnaði hækka um 4,5% á ári næstu tvö árin. Einnig gerum við ráð fyrir allnokkurri raunhækkun húsnæðisverðs þótt hækkunin verði líklega talsvert hægari þegar fram í sækir en verið hefur undanfarið.
Styrking krónu umfram það sem við spáum á komandi fjórðungum gæti leitt til hraðari hjöðnunar verðbólgu en hér er spáð. Á móti gæti verðbólguþrýstingur vegna launa og/eða íbúðaverðs reynst meiri en við áætlum og gert verðbólgu þrálátari á komandi misserum.