Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,2% í apríl frá fyrri mánuði. Ef spáin gengur eftir mun 12 mánaða verðbólga mælast 4,0% en var 4,3% í mars. Útlit er fyrir að verðbólgukúfurinn hafi náð toppi, verðbólga hjaðni nokkuð hratt þegar líða tekur á árið og muni síga niður fyrir 2,5% markmið Seðlabankans í byrjun næsta árs. Hagstofan birtir VNV fyrir apríl þann 29. apríl næstkomandi.
Húsnæði og matvörur til hækkunar
Húsnæðisliður er sá liður sem vegur þyngst til hækkunar vísitölu neysluverðs í apríl. Talsverður gangur er á íbúðamarkaði þessi dægrin. Mæling okkar bendir til þess húsnæðisliðurinn hækki um 0,35% (0,11% áhrif á VNV) í aprílmánuði. Þar ber helst að nefna reiknuðu húsaleiguna sem hækkar um 0,5% (0,08% áhrifa á VNV). Reiknaða húsaleigan byggir á markaðsverði íbúðarhúsnæðis auk áhrifa vaxta á íbúðalánum og togast þessar stærðir á þessa dagana. Þannig hækkar markaðsverð íbúðarhúsnæðis um 0,8% í apríl miðað við könnun okkar en vaxtaþátturinn vegur til 0,3% lækkunar á reiknuðu húsaleigunni.