Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Spáum 0,25 prósentu stýrivaxtahækkun í nóvember

Stýrivextir Seðlabankans verða líklega hækkaðir um 0,25 prósentur þann 17. nóvember. Batnandi efnahagshorfur og þrálát verðbólga vega væntanlega þyngst í ákvörðun peningastefnunefndarinnar að þessu sinni. Vaxtahækkunarferli bankans er trúlega hvergi nærri lokið þótt bakslag í efnahagsbatanum gæti kallað á tímabundið hlé á því.


Við spáum því að peningastefnunefnd Seðlabankans muni ákveða að hækka stýrivexti bankans um 0,25 prósentur á vaxtaákvörðunardaginn 17. nóvember. Meginvextir bankans, vextir á 7 daga bundnum innlánum, verða samkvæmt því 1,75% og hafa þá samtals hækkað um 1 prósentu frá maíbyrjun. Þegar hafa vextirnir verið hækkaðir um 0,75 prósentur í þremur skrefum.

Efnahagsbati virðist kominn á góðan skrið þrátt fyrir að nýlegt bakslag í faraldrinum gæti sett þar eitthvert strik í reikninginn til skemmri tíma litið. Á sama tíma reynist verðbólga æ þrálátari, skammtíma verðbólguhorfur hafa versnað jafnt og þétt og verðbólguálag á markaði hefur mjakast upp. Í ljósi þess hversu mjótt var á mununum í október að stærra vaxtahækkunarskref væri stigið sem og þróunarinnar síðan virðist okkur 0,25 prósentu hækkun líklegasta niðurstaðan nú. Við útilokum heldur ekki að 0,50 prósentu skref verði stigið í þessari síðustu vaxtaákvörðun ársins enda er nokkuð langt í næstu vaxtaákvörðun. Óbreyttir vextir nú virðast hins vegar afar ólíklegir þrátt fyrir þróun faraldursins undanfarið enda hefur nefndin áður sýnt takmarkaðan áhuga á að bregðast við skammtímasveiflum í honum.

Í októberákvörðun peningastefnunefndar brá svo við í fyrsta skipti í fimm ár að tveir nefndarmenn, þeir Gylfi Zoëga og Gunnar Jakobsson, greiddu atkvæði gegn tillögu Ásgeirs Jónssonar Seðlabankastjóra um 0,25 prósentu vaxtahækkun og vildu stíga tvöfalt stærra hækkunarskref.

Þrátt fyrir skiptar skoðanir um stærðina á hækkunarskrefinu voru allir nefndarmenn sammála um að hækka ætti vexti og voru 0,25 eða 0,50 prósentu skref rædd.

Helstu rök fyrir 0,25 prósentu hækkun voru:

  • Nokkur óvissa er enn um alþjóðlegar efnahagshorfur
  • Óvissa er um þróun á vinnumarkaði þegar dregið verður úr stuðningsaðgerðum stjórnvalda
  • Hluta verðbólgunnar má skýra með tímabundnum þáttum á borð við framboðshnökra erlendis
  • Töluverð óvissa er um samspil vaxtahækkana og nýlega beitingu þjóðhagsvarúðartækja sem eru á forræði fjármálastöðugleikanefndar. Þar er um að ræða lækkun á hámarks lánsfjárhlutfalli sem tilkynnt var um mitt ár og innleiðingu 35% hámarks á greiðslubyrði í hlutfalli við ráðstöfunartekjur með tilteknum undantekningum, sem tilkynnt var í lok september sl.
  • Miðlun peningastefnunnar er líklega hraðari en áður vegna hærra hlutfalls óverðtryggðra íbúðalána á breytilegum vöxtum

Helstu rök fyrir 0,50% prósentu hækkun:

  • Efnahagsumsvif hafa tekið verulega við sér. Þar vísa nefndarmenn m.a. í miklar verðhækkanir á fasteignamarkaði, mikinn útlánavöxt til heimila og skort á vinnuafli í ákveðnum greinum
  • Þriðjungur fyrirtækja á í erfiðleikum að ráða í lausar stöður
  • Hætta er á aukinni innfluttri verðbólgu á næstu misserum
  • Kannanir sýna útbreiddar væntingar meðal stjórnenda fyrirtækja um verðhækkanir, bæði á aðföngum og eigin vörum og þjónustu
  • Svo vitnað sé orðrétt í fundargerðina þá væri „..mikilvægt að herða taumhald peningastefnunnar af ákveðni til þess að lágmarka hættuna á að verðbólga yrði enn þrálátari og bregðast af krafti við hækkun langtímaverðbólguvæntinga.“

Hér má svo sjá nokkra þeirra áhrifaþátta sem við teljum að ræddir verði við vaxtaákvörðunina nú:

Þjóðarskútan í meðbyr

Efnahagsbati eftir Kórónukreppuna virðist vera kominn á allnokkurn skrið þótt faraldrinum sjálfum sé síður en svo lokið. Hagvöxtur mældist ríflega 7% á öðrum ársfjórðungi 2021 og var vöxturinn að stórum hluta drifinn af myndarlegum bata í innlendri eftirspurn. Nýlegir hagvísar benda til áframhaldandi bata í hagkerfinu. Atvinnuleysi hefur minnkað hröðum skrefum frá ársbyrjun og mældist 4,9% í októbermánuði. Væntingakannanir bera vitni um útbreidda bjartsýni meðal heimila og fyrirtækja um horfur í efnahags- og atvinnulífinu. Nokkuð er farið að bera á skorti á vinnuafli í einstökum atvinnugeirum. Þá hefur kaupmáttur launa haldið áfram að vaxa þrátt fyrir talsverða verðbólgu og kortavelta heimila sömuleiðis.

Spár um fjölda ferðafólks á seinni helmingi ársins virðast munu verða nærri lagi þrátt fyrir sveiflur í faraldrinum og horfur eru á verulegri fjölgun þeirra á næsta ári ef marka má fréttir af bókunum hjá innlendum ferðaþjónustufyrirtækjum og auknu framboði flugferða á komandi fjórðungum. Síðast en ekki síst gæti myndarleg loðnuvertíð á komandi vetri orðið til þess að auka hagvöxt um tæpa prósentu árið 2022 frá því sem ella væri, með tilheyrandi áhrifum á gjaldeyristekjur, fjölda starfa og skylda hagvísa.

Seðlabankinn birtir nýja þjóðhags- og verðbólguspá samhliða vaxtaákvörðuninni að þessu sinni og hafa því nefndarmenn úr fersku mati starfsfólks bankans á efnahagshorfum að moða að þessu sinni. Við teljum líklegt að sú spá verði nokkuð bjartsýnni á efnahagshorfur næsta kastið en ágústspá bankans, m.a. vegna myndarlegrar loðnuvertíðar á komandi vetri. Ætti það að efla nefndarmenn í þeirri skoðun að þjóðarskútan sigli hraðbyri á slóðir þar sem hún þarf ekki lengur vind í seglin frá neikvæðum raunstýrivöxtum. Hugsanlega gætu nefndarmenn þó viljað stíga varlegar til jarðar á meðan núverandi bylgja faraldursins væri að ganga yfir en, svo vitnað sé í orð nefndarinnar frá ágústfundum hennar, taldi hún þá reyndar ljóst „..að tengsl milli sóttvarnaraðgerða og efnahagsumsvifa hefðu veikst og aðlögunarhæfni almennings og fyrirtækja ásamt aðgerðum stjórnvalda héldu hagkerfinu gangandi að mestu þrátt fyrir farsóttina.“

Enn versna verðbólguhorfur

Verðbólguhorfur fyrir komandi fjórðunga hafa versnað verulega frá miðju ári. Í nýbirtri verðbólguspá okkar gerum við ráð fyrir því að verðbólga haldi áfram að stíga nái hámarki í 5,4% í árslok. Í kjölfarið fylgi hjaðnandi verðbólga en hún mælist þó ríflega 4% að jafnaði á næsta ári samkvæmt spá okkar og nær ekki 2,5% markmiði Seðlabankans fyrr en á upphafsmánuðum ársins 2023.

Svipaða þróun má sjá í nýbirtum svörum við væntingakönnun Seðlabankans meðal markaðsaðila. Gera þeir ráð fyrir 3,6% verðbólgu að jafnaði á næsta ári og vænta þess miðað við miðgildi svara að verðbólgumarkmiðinu verði ekki náð á árinu 2022. Til samanburðar væntu markaðsaðilar þess í ágúst að verðbólga yrði komin sjónarmun frá markmiðinu á 3F næsta árs og Seðlabankinn spáði á sama tíma að verðbólgumarkmiðinu yrði náð upp úr miðju næsta ári.

Góðu fréttirnar fyrir Seðlabankann úr nýju væntingakönnuninni felast hins vegar í væntingum um langtímaverðbólgu. Þær eru óbreyttar frá síðustu könnun og telja markaðsaðilar sem fyrr að verðbólga næstu 5 ár verði að jafnaði 2,7% og að yfir komandi áratug verði hún í markmiði að jafnaði. Samkvæmt því heldur kjölfesta verðbólgumarkmiðsins ennþá allvel, sem ætti að minnka þörfina á stórauknu aðhaldi peningamála á komandi misserum.

Peningastefnunefndin horfir einnig nokkuð til verðbólguálags á skuldabréfamarkaði. Álagið hefur hækkað jafnt og þétt frá miðjum ágústmánuði og mælist nú á bilinu 3,4 – 4,0% eftir mismunandi tímalengdum. Hins vegar er erfiðara en oft áður að túlka álagið þessa dagana þar sem vaxtaferlar ríkisbréfa eru brattir og mishalla. Gætu því tímabundnir þættir verið að spila hér inn í auk þess sem óvissuálag á kröfu óverðtryggðra bréfa er líklega í hærra lagi. Þó hlýtur þessi þróun að vera nefndinni nokkurt áhyggjuefni.

Raunstýrivextir á hægri uppleið

Aukin verðbólga og hækkandi verðbólguvæntingar á suma mælikvarða hafa vegið nokkuð gegn áhrifum 0,75 prósentu hækkunar stýrivaxta á metna raunstýrivexti og þar með á peningalegt aðhald. Raunstýrivextirnir eru á nokkuð breiðu bili þessa dagana eftir því hvaða mælikvarði er notaður en þó eru þeir talsvert neikvæðir á alla mælikvarða þrátt fyrir að þeir hafi almennt færst nær núllinu síðustu mánuði. Við höfum greint þann tón í máli ýmissa meðlima peningastefnunefndar að heppilegra væri að koma raunstýrivöxtunum í eða yfir núllið fyrr en síðar, svo fremi að efnahagsbatinn sé búinn að festa sig í sessi og slaki í hagkerfinu fari minnkandi. Hjaðnandi verðbólga hjálpar vonandi til við þá þróun á komandi fjórðungum en þó þarf væntanlega líka talsverða hækkun stýrivaxtanna sjálfra.

Frekari vaxtahækkun í kortunum

Sem fyrr gerum við ráð fyrir að vaxtahækkunarferli Seðlabankans muni halda áfram á komandi misserum eftir því sem efnahagurinn braggast. Hjaðnandi verðbólga ætti hins vegar að draga úr þörfinni fyrir hraða vaxtahækkun þegar frá líður.

Við teljum að stýrivextir verði hækkaðir um 0,25 prósentur á öllum þremur vaxtaákvörðunardögum fyrri helmings næsta árs. Stýrivextir verði samkvæmt því 2,50% um mitt ár 2022. Eftir það hægir heldur á taktinum og teljum við að vextir verði hækkaðir um 0,25 prósentur í hverjum ársfjórðungi þar til þeir ná jafnvægi í 3,5% um mitt ár 2023. Er það jafnframt það vaxtastig sem við teljum líklega að vextirnir sveiflist um á komandi árum eftir því hvernig árar í efnahagslífinu og hvort verðbólguhorfur eru nálægt markmiði eður ei.

Bakslag í efnahagsbata, til að mynda ef faraldurinn gerir hagkerfinu meiri skráveifur á komandi misserum, væri líklegt til að hægja á þessu hækkunarferli. Sama má segja um þá sviðsmynd ef verðbólga hjaðnar hraðar en við gerum ráð fyrir, til dæmis vegna verulegrar styrkingar krónu og/eða hægari hækkunartakts í íbúðaverði. Aftur á móti gæti þrálátari verðbólga orðið til þess að framlengja hækkunarferlið, sér í lagi ef losna tekur um kjölfestu langtímavæntinga við 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans.

Höfundur


Jón Bjarki Bentsson

Aðalhagfræðingur


Hafa samband

Lagalegur fyrirvari

Skýrsla þessi er tekin saman af Greiningu Íslandsbanka hf. (Íslandsbanki).

Upplýsingar í skýrslu þessari eru upprunnar frá innlendum og erlendum upplýsinga- og fréttaveitum, sem taldar eru áreiðanlegar, ásamt opinberum upplýsingum, eigin úrvinnslu Greiningar og mati á hverjum tíma. Upplýsingarnar hafa ekki verið kannaðar sjálfstætt af Íslandsbanka og ábyrgist bankinn ekki nákvæmni upplýsinganna, áreiðanleika eða réttmæti þeirra. Skoðanir höfunda geta breyst án fyrirvara og ber Íslandsbanka ekki skylda til að uppfæra, lagfæra eða breyta skýrslunni við breyttar forsendur.

Skýrslan er einungis birt í upplýsingaskyni og skal því ekki litið á hana sem ráðleggingu/ráðgjöf um að ráðast eða ráðast ekki í tiltekna fjárfestingu eða tilboð um að kaupa, selja eða skrá sig fyrir tilteknum fjármálagerningum. Íslandsbanki og starfsmenn bankans bera ekki ábyrgð á viðskiptum sem kunna að vera gerð á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram koma í skýrslunni. Þeim aðilum sem hafa hug á viðskiptum er bent á að leita sér sérfræðilegrar ráðleggingar og kynna sér vel hina ýmsu fjárfestingarkosti sem í boði eru. Fjárfestingum fylgir ávallt fjárhagsleg áhætta og ber m.a. að hafa í huga áhættu vegna alþjóðlegra fjárfestinga og gengisflökts gjaldmiðla. Fjárfestingamarkmið og fjárhagsstaða fjárfesta er mismunandi. Bent skal á að árangur í fortíð er ekki trygging um árangur í framtíð.

Skýrslur og aðrar upplýsingar sem berast frá Íslandsbanka eru einungis ætlaðar til einkanota. Hvorki má afrita efnið, vitna í það né dreifa því, í heild eða að hluta, án skriflegs leyfis frá Íslandsbanka.

Skýrsla þessi er stutt samantekt og ber ekki að líta svo á að í henni sé að finna allar tiltækar upplýsingar um þau viðfangsefni sem hún fjallar um.

Eftirlitsaðili: Fjármálaeftirlitið (www.fme.is).

BANDARÍKIN

Skýrslu þessari eða afritum hennar má ekki dreifa í Bandaríkjunum eða til viðtakenda sem eru bandarískir ríkisborgarar í andstöðu við takmarkanir sem kveðið er á um í bandarískum lögum. Dreifing skýrslunnar í Bandaríkjunum kynni að teljast brot á þeim lögum.

KANADA

Upplýsingarnar í skýrslu þessari eru ekki ætlaðar til dreifingar eða útbreiðslu með neinum hætti í Kanada og því ber ekki að líta á þær sem fjármálaráðgjöf eða ráðleggingu um fjárfestingar í skilningi kanadískra verðbréfalaga.

ÖNNUR LÖND

Lög og reglugerðir í öðrum löndum kunna einnig að takmarka dreifingu skýrslu þessarar.