Spáum 0,2% hækkun neysluverðs í maí
Við spáum því að VNV muni hækka um 0,2% í maí frá mánuðinum á undan. Miðað við þá spá verður 12 mánaða verðbólga 3,6% en var 3,3% í apríl.
Samantekt
Spáum 0,2% hækkun VNV í maí
Verðbólga eykst úr 3,3% í 3,6%
Eldsneyti, matvæli, húsbúnaður meðal helstu hækkunarliða
Lítil hækkun reiknaðrar húsaleigu
Flugfargjöld lækka nokkuð
Verðbólguhorfur hafa batnað aðeins
2,8% verðbólga yfir árið 2019 en 2,7% verðbólga yfir árið 2020
Við spáum því að VNV muni hækka um 0,2% í maí frá mánuðinum á undan. Miðað við þá spá verður 12 mánaða verðbólga 3,6% en var 3,3% í apríl. Verðbólguhorfur til meðallangs tíma hafa batnað lítillega frá síðustu spá vegna hagfelldara útlits um launaþróun í ár og horfa um hægari hækkun íbúðaverðs næstu fjórðunga en við væntum áður. Útlit er fyrir að verðbólga verði 3,4% að jafnaði á öðrum fjórðungi ársins en hjaðni í kjölfarið. Við spáum 2,8% verðbólgu í árslok 2019 og 2,7% verðbólgu í lok árs 2020.