Fjármál og fjármögnun 2022

Hagnaður af rekstri Íslandsbanka á árinu 2022 nam 24,5 milljörðum króna (2021: 23,7 milljörðum króna). Arðsemi eigin fjár var 11,8% á ársgrundvelli samanborið við 12,3% fyrir árið 2021.


Vöxtur í kjarnastarfsemi grunnur aðgóðum árangri

Hreinar vaxtatekjur jukust um 42,9% á milli ára og námu 12,3 milljörðum króna á 4F22 samanborið við 8,6 milljarða króna á 4F21. Hækkunin á milli ára skýrist að mestu af hærra vaxtaumhverfi og auknum inn- og útlánum á undanförnum fjórðungum. Stýrivextir Seðlabankans voru að meðaltali 5,9% á 4F22, samanborið við 1,7% á 4F21. 

Vaxtamunur á heildareignum nam 3,1% á 4F22 samanborið við 2,4% á 4F21. Vaxtamunur á heildareignum árið 2022 var 2,9% á árinu 2022 (var 2,4% árið 2021).  Vaxtamunur útlána var 1,8% á 4F22 (2,1% á 4F21) og vaxtamunur innlána var 2,1% á 4F22 (1,4% á 4F21). 

Hækkun hreinna þóknanatekna um 10,5% milli ára er margþætt. Auknar þóknanir vegna greiðslumiðlunar, gott gengi Allianz Ísland hf. sem og mikil umsvif í gjaldeyrismiðlun eru meginþættir hækkunarinnar á fjórðungnum. 

Heildartekjur af kjarnastarfsemi (hreinar vaxtatekjur og hreinar þóknanatekjur) á 4F22 hækkuðu um 33,3% í samanburði við 4F21 

Stærsta breytingin í hreinum fjármunakostnaði á fjórðungnum skýrist að mestu leyti af sveiflum á fjármagnsmörkuðum. 

Lágt kostnaðarhlutfall

Laun og launatengd gjöld hækkuðu um 13,5% á 4F22, samanborið við 4F21.  

Hækkun á öðrum rekstrarkostnaði milli ára um 24,4% á 4F22 má rekja til ýmissa þátta. Helstu skýringar má rekja til aukinnar verðbólgu, dvínandi  áhrif heimsfaraldurs COVID-19 á daglegt líf meðal annars með auknum ferðalögum, stefnumótunarvinnu og skuldbindingar vegna mögulegrar stjórnvaldssektar. 

Fjöldi starfsmanna í móðurfélagi, að undanskildum árstíðabundnum starfsmönnum, var 700 í lok árs (702 í lok árs 2021) og 739 hjá samstæðu (735 í lok árs 2021). 

Kostnaðarhlutfall var 42,5% á 4F22, samanborið við 45,3% á 4F21. 

Skattar og gjöld 

Virkur tekjuskattur á 4F22  var 26,7%  samanborið við 19,1% á 4F21. Virkur tekjuskattur fyrir árið 2022 var 25,8% samanborið við 18,5% fyrir árið 2021. Hærri virkur tekjuskattur á 4F22 skýrist að mestu leyti af skattaáhrifum jákvæðra gangvirðisbreytinga á hlutabréfum á 4F21 samanborið við neikvæðar gangvirðisbreytingar á hlutabréfum á 4F22. Bankinn greiðir sérstakan fjársýsluskatt 6% á hagnað umfram einn milljarð króna. Einnig greiðir bankinn fjársýsluskatt og tryggingargjald vegna starfsfólks. Þá greiðir bankinn framlög til fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands og Umboðsmanns skuldara. Í samræmi við nýja löggjöf þarf bankinn ekki að greiða iðgjöld í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta eftir 1F22. Það getur þó breyst í framtíðinni og ræðst af stöðu sjóðsins og stærð innstæðukerfisins. Heildarskattar og gjöld voru 3,1 milljarður króna á 4F22, samanborið við 2,3 milljarða króna á 4F21. 

Virðisbreyting fjáreigna á fjórða ársfjórðungi 

Virðisbreyting fjáreigna var neikvæð um 0,6 milljarða króna á 4F22 (4F21: jákvæð virðisbreyting um 0,6 milljarða króna)  vegna óhagstæðara efnahagsumhverfis. Horfur með tilliti til virðisrýrnunar eru tiltölulega góðar vegna lítils atvinnuleysis og góðra hagvaxtarhorfa.  

Hrein virðisbreyting (e. Cost of risk) sem hlutfall af meðalstöðu útlána á ársgrundvelli, var +0,22% fyrir 4F22 samanborið við -0,23% fyrir 4F21 og var -0,14% fyrir árið 2022. 

Tekjuvöxtur ástæða góðrar afkomu  

Hagnaður eftir skatta á fjórða ársfjórðungi nam 6,0 milljörðum króna (4F21: 7,1 milljarður króna) og arðsemi eigin fjár á tímabilinu var 11,1% á ársgrundvelli (4F21: 14,2%). Minni hagnaður sem nemur 1,1 milljarði króna skýrist einkum af auknum stjórnunarkostnaði, fjármunakostnaði og virðisrýrnun. 

Aukin útlán í fjölbreyttu og áhættuvörðu útlánasafni  

Útlán til viðskiptavina jukust um 2,9% á fjórðungnum og um 9,2% á árinu 2022. Húsnæðislán jukust um 4,6 milljarða króna á 4F22 og í lok desember námu þau 43% af lánum til viðskiptavina. Útlán til fyrirtækja hækkuðu um 27,1 milljarð króna á fjórðungnum. Útlán hjá Einstaklingum hækkuðu um 5,4 milljarða króna Viðskiptabanki hækkaði um 9,1 milljarð króna og útlán hjá Fyrirtækjum og Fjárfestum hækkuðu um 18,2 milljarða króna.  

Tryggingar að baki útlánum til viðskiptavina eru almennt traustar, þar sem íbúða- og atvinnuhúsnæði eru stærstu hluti trygginga og fiskiskip koma þar á eftir. Vegið meðaltal veðsetningarhlutfalls (LTV) lánasafns bankans var 58% í lok 4F22 (63% í lok árs 2021) og veðsetningarhlutfall húsnæðislánasafns bankans var 60% í lok 4F22 (66% í lok árs 2021). Lækkun veðsetningarhlutfalls skýrist að mestu leyti af uppfærðu fasteignamati sem notað er fyrir um helming lánasafns bankans. Fasteignamatið byggir á markaðsverði frá 1F22 og er þá tekið tillit til hugsanlegra markaðssveifla á komandi misserum.  

Breytilegir óverðtryggðir vextir á húsnæðislánum hafa hækkað um 3,95% síðan í lok  árs 2021. og. Bankinn prófar þol fyrir hærri vöxtum og næmnigreining bendir ekki til þess að þörf sé á frekari virðisrýrnun þrátt fyrir hærri greiðslubyrði.  

Árin 2024 og 2025 kemur að endurákvörðun vaxta verulegs hluta óverðtryggðra lána. Samkvæmt þjóðhagsspá Íslandsbanka, sem birt var 1 . febrúar 2023, er gert ráð fyrir að stýrivextir muni taka að lækka aftur á fjórða ársfjórðungi 2023 með hægfara vaxtalækkun í átt að jafnvægisvöxtum, lækkunin gæti orðið á bilinu 1-1,5%. Stýrivextir gætu því verið um 4,0% í lok spátímans árið 2025 samanborið við 6,0% stýrivexti í lok árs 2022.  

Fjórir liðir; handbært fé og innstæður hjá Seðlabanka Íslands, útlán til lánastofnana, skuldabréf og skuldagerningar, og hlutabréf og eiginfjárgerningar nema samtals 351 milljarði króna og af því eru 312 milljarðar króna laust fé.  

Veðsetningarhlutfall bankans var 26,5% í lok árs 2022, samanborið við 19,6 í lok árs 2021. 

Sterkt eignasafn  

Í lok 4F22 voru lán með umlíðun án laskaðs lánshæfis 3,8%, sem er lækkun úr 5,3% í lok 3F22 og lækkun úr 8,5% í lok árs 2021.  

Í lok árs 2022 var hlutfall lána með laskað lánshæfi (á stigi 3) í 1,8% en var 2,0% í lok árs 2021. Fyrir húsnæðislánasafn bankans var hlutfallið 0,7% í lok 4F22, óbreytt frá 3F22. 

Lán til viðskiptavina með verulega aukningu í útlánahættu (á stigi 2) voru 2,5% í lok árs 2022, og hafði lækkað úr 4,4% í lok 3F22. Fyrir húsnæðislánasafn bankans var hlutfall lána á stigi 2, 0,8% í lok árs 2022, óbreytt frá því sem var í lok 3F22.  

Innlán áfram helsti fjármögnunarliður bankans 

Fjármögnun bankans skal mæta útlánum hans og er bankinn helst fjármagnaður með innlánum, en einnig með útgáfum sértryggðra skuldabréfa og óveðtryggðra skuldabréfa.  

Innlán frá viðskiptavinum jukust um 1,1% á 4F22. Innlán hjá Einstaklingum hækkuðu um 7,1 milljarð króna, innlán hjá Fyrirtækjum og fjárfestum hækkuðu um 17,7 milljarða króna og hjá Viðskiptabanka lækkuðu þau um 15,6 milljarða króna. Vel er fylgst með samþjöppunaráhættu í innlánum, og var hún stöðug á 4F22. 

Hlutfall útlána viðskiptavina á móti innlánum viðskiptavina var 150% í lok 4F22 samanborið við 148% í lok 3F22. Innlán frá einstaklingum og fyrirtækjum eru helstu fjármögnunarliðir bankans og samsvara 45% af heildarfjármögnun bankans og eru 86% af innlánum bankans í árslok. 

Þann 15. nóvember lauk bankinn útboði á tveimur flokkum almennra skuldabréfa í íslenskum krónum þar sem heildareftirspurn nam 9,1 milljarði króna. Skuldabréfin voru græn skuldabréf gefin út undir sjálfbærum fjármögnunarramma bankans. Á fjórða ársfjórðungi nýtti bankinn sér innköllunarheimild víkjandi skuldabréfa að fjárhæð 750 milljónir sænskra króna sem telja til eiginfjárþáttar 2 (e. Tier 2) á gjalddaga árið 2027 og gekk einnig frá endurkaupatilboði í 300 milljón evra skuldabréfaútgáfu bankans sem var á gjalddaga í janúar 2024 með innköllunarheimild í janúar 2023. 

Lausafjárstaða bankans helst sterk með öll hlutföll umfram kröfur eftirlitsaðila og innri viðmið. Lausafjárþekjuhlutfall (LCR) bankans hækkaði og var 205% í lok árs 2022, (2021: 156%). Lausafjárþekjuhlutfall í erlendum gjaldmiðlum var 492% í lok árs 2022 (2021: 235%) og lausafjárþekjuhlutfall í íslenskum krónum í lok árs 2022 var 109% (2021: 141%). 

Fjármögnunarhlutfall (NSFR) var 118% í lok árs 2022, samanborið við 122% í lok árs 2021 og fjármögnunar hlutfall í erlendum gjaldmiðlum var 198% í lok árs 2022, en var 157% í lok árs 2021. 

Í ljósi sterkrar lausafjárstöðu bankans í innlendri og erlendri mynt sem er yfir kröfum, kann að koma til þess bankinn skoði endurkaup og/eða endurfjármögnun útistandandi skulda á árinu 2023. 

Eiginfjárhlutföll vel yfir markmiðum  

Heildar eigið fé nam 218 milljörðum króna í lok árs 2021, samanborið við 212 milljarða króna í lok 3F22 og 204 milljarða króna í lok árs 2021. 

Eiginfjárgrunnur var 222 milljarðar króna í lok árs 2022, samanborið við 213 milljarða króna í lok 3F22 (228 milljarðar króna í lok árs 2021). Stjórn bankans mun leggja til við aðalfund bankans að greiddur verði arður til hluthafa sem nemur 12,3 milljörðum króna. Þetta jafngildir um 50% af hagnaði ársins 2022 og er í samræmi við arðgreiðslustefnu bankans. 

Bankinn hyggur á endurkaup á eigin bréfum sem samsvarar 5 milljörðum króna á komandi mánuðum í gegnum endurkaupaáætlun. Þetta er breyting frá 15 milljarða króna endurkaupum sem áður höfðu verið ráðgerð. Þeim 10 milljörðum króna sem útaf standa verður bætt aftur inn í eiginfjárauka bankans, sem leiðir til þess að eiginfjárhlutföll bankans hækka sem nemur 100bps. Bankinn hefur séð arðbæran vöxt útlána til viðskiptavina á árinu 2022 sem var umfram upphaflegar áætlanir og sér frekari tækifæri til að stækka útlánasafnið. Þá hafa Evrópski seðlabankinn og Seðlabanki Íslands, í ljósi alþjóðlegrar efnahagsóvissu og óstöðugleika á fjármagnsmörkuðum, hvatt banka til að stíga varlega til jarðar þegar kemur að úthlutun eigin fjár á næstunni til að tryggja viðnám bankageirans. Bankinn hefur áform um að bæta enn frekar samsetningu eigin fjár fyrir lok árs 2024, háð aðstæðum á mörkuðum.  

Fjármálaeftirlitsnefnd tilkynnti 22. júní 2022 um niðurstöðu könnunar og matsferlis 2022 vegna viðbótar eiginfjárkrafna (Pillar 2-R). Samkvæmt niðurstöðunni er viðbótarkrafa á bankanum um eiginfjárgrunn 2,6% á áhættugrunni, sem er hækkun um 0,1% frá fyrra ári. Heildarkrafa bankans um eiginfjárgrunn, sem tekur tillit til samanlagðrar kröfu um eiginfjárauka, hækkaði því úr 17,8% í 17,9%.  Í lok september fór sveiflujöfnunaraukinn úr 0% í 2,0% sem hækkaði á sama tíma eiginfjárkröfu bankans úr 17,9% í 19,9%.  

Í lok árs 2022 var eiginfjárhlutfall bankans 22,2%, samanborið við 21,4% í lok september (25,3% í lok árs 2021). Samsvarandi hlutfall eiginfjárþáttar 1 var 19,8%, samanborið við 19,2% í lok september 2022 (22,5% í lok árs 2021). Hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 (CET1) var 18,8% sem eru yfir viðmiðum bankans (~16,5%). Breytinguna á eiginfjárhlutfalli frá lokum 3F22 má rekja til hagnaðar á fjórða ársfjórðungi og lækkunar áhættugrunns sem hlutfalls af lánabók bankans.   

Íslandsbanki notar staðalaðferð til að meta áhættugrunninn, sem var 999 milljarðar króna í lok árs 2022, samanborið við 1.013 milljarða króna í lok júní 2022 (902 milljarðar króna í lok árs 2021). Lækkun áhættugrunns á fjórða ársfjórðungi má rekja til minni lánveitinga til lánastofnana og lækkunar áhættuvægis tiltekinna húsnæðislána vegna breytinga á löggjöf. Áhættugrunnurinn samsvarar 63,8% af heildareignum í lok árs 2022, samanborið við 65,4% í lok þriðja ársfjórðungs 2022.  

Vogunarhlutfall var 12,1% í lok árs 2022, var 13,6% í lok árs 2021. 

Bankinn fullnægir MREL-kröfum 

BRRD I tilskipunin (2014/59/ESB) sem kemur á ramma um endurreisn og skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja var leidd í íslenskan rétt með lögum nr. 70/2020 um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja. Þann 8. desember 2021 birti Skilavald Seðlabanka Íslands stefnu sína um lágmarkskröfur um eiginfjárgrunn og hæfar skuldbindingar (MREL-krafa: Minimum Required own funds and Eligible Liabilities) með vísan til 17. gr. framangreindra laga (MREL-stefnan). 

Þann 29. september 2022 tilkynnti Skilavald Seðlabanka Íslands að skilaáætlun hefði verið samþykkt fyrir Íslandsbanka og þar með MREL-kröfu fyrir bankann. Ákvörðunin er byggð á áðurnefndri MREL-stefnu. 

MREL krafa bankans er 21,2%, reiknuð í hlutfalli af áhættugrunni (e. Total Risk Exposure Amount – TREA) í árslok 2021 og á við frá áðurnefndri tilkynningu Skilavaldsins. MREL-krafan að viðlögðum eiginfjáraukum var 30,5% í lok árs 2022 og hlutfall bankans var 34,5% í árslok 2022. Krafa um undirskipan (e. Subordination) sem kveðið er á um í BRRD II tilskipuninni (2019/879/ESB) hefur ekki verið skilgreind fyrir bankann.  

Hófleg markaðsáhætta 

Markaðsáhætta er tilkomin vegna ójafnaðar í efnahagsreikningi samstæðunnar með tilliti til vaxtaáhættu, verðbólguáhættu og gjaldeyrisáhættu og eigna í lausafjársafni bankans sem Fjárstýring stýrir.  

Bankinn ber áhættu vegna verðbólgu þar sem virði verðtryggðra eigna er meira en virði verðtryggðra skulda. Í árslok 2022 var munurinn 27,7 milljarðar króna samanborið við 41 milljón króna í lok árs 2021. Jöfnuðinum er meðal annars stýrt með skiptasamningum, útgáfu verðtryggðra skuldabréfa og verðtryggðum innlánsreikningum.  

Gjaldeyrisjöfnuður var neikvæður um 1,6 milljarð króna (0,7% af eiginfjárgrunni) í árslok 2022, samanborið við neikvæðan um 327 milljónir króna (0,1% af eiginfjárgrunni) í lok árs 2021. Ójöfnuðir bankans eru undir reglulegu eftirliti og eru þeir vel innan viðmiða laga og reglna.