Sterkt eignasafn
Í lok 4F22 voru lán með umlíðun án laskaðs lánshæfis 3,8%, sem er lækkun úr 5,3% í lok 3F22 og lækkun úr 8,5% í lok árs 2021.
Í lok árs 2022 var hlutfall lána með laskað lánshæfi (á stigi 3) í 1,8% en var 2,0% í lok árs 2021. Fyrir húsnæðislánasafn bankans var hlutfallið 0,7% í lok 4F22, óbreytt frá 3F22.
Lán til viðskiptavina með verulega aukningu í útlánahættu (á stigi 2) voru 2,5% í lok árs 2022, og hafði lækkað úr 4,4% í lok 3F22. Fyrir húsnæðislánasafn bankans var hlutfall lána á stigi 2, 0,8% í lok árs 2022, óbreytt frá því sem var í lok 3F22.
Innlán áfram helsti fjármögnunarliður bankans
Fjármögnun bankans skal mæta útlánum hans og er bankinn helst fjármagnaður með innlánum, en einnig með útgáfum sértryggðra skuldabréfa og óveðtryggðra skuldabréfa.
Innlán frá viðskiptavinum jukust um 1,1% á 4F22. Innlán hjá Einstaklingum hækkuðu um 7,1 milljarð króna, innlán hjá Fyrirtækjum og fjárfestum hækkuðu um 17,7 milljarða króna og hjá Viðskiptabanka lækkuðu þau um 15,6 milljarða króna. Vel er fylgst með samþjöppunaráhættu í innlánum, og var hún stöðug á 4F22.
Hlutfall útlána viðskiptavina á móti innlánum viðskiptavina var 150% í lok 4F22 samanborið við 148% í lok 3F22. Innlán frá einstaklingum og fyrirtækjum eru helstu fjármögnunarliðir bankans og samsvara 45% af heildarfjármögnun bankans og eru 86% af innlánum bankans í árslok.
Þann 15. nóvember lauk bankinn útboði á tveimur flokkum almennra skuldabréfa í íslenskum krónum þar sem heildareftirspurn nam 9,1 milljarði króna. Skuldabréfin voru græn skuldabréf gefin út undir sjálfbærum fjármögnunarramma bankans. Á fjórða ársfjórðungi nýtti bankinn sér innköllunarheimild víkjandi skuldabréfa að fjárhæð 750 milljónir sænskra króna sem telja til eiginfjárþáttar 2 (e. Tier 2) á gjalddaga árið 2027 og gekk einnig frá endurkaupatilboði í 300 milljón evra skuldabréfaútgáfu bankans sem var á gjalddaga í janúar 2024 með innköllunarheimild í janúar 2023.
Lausafjárstaða bankans helst sterk með öll hlutföll umfram kröfur eftirlitsaðila og innri viðmið. Lausafjárþekjuhlutfall (LCR) bankans hækkaði og var 205% í lok árs 2022, (2021: 156%). Lausafjárþekjuhlutfall í erlendum gjaldmiðlum var 492% í lok árs 2022 (2021: 235%) og lausafjárþekjuhlutfall í íslenskum krónum í lok árs 2022 var 109% (2021: 141%).
Fjármögnunarhlutfall (NSFR) var 118% í lok árs 2022, samanborið við 122% í lok árs 2021 og fjármögnunar hlutfall í erlendum gjaldmiðlum var 198% í lok árs 2022, en var 157% í lok árs 2021.
Í ljósi sterkrar lausafjárstöðu bankans í innlendri og erlendri mynt sem er yfir kröfum, kann að koma til þess bankinn skoði endurkaup og/eða endurfjármögnun útistandandi skulda á árinu 2023.