Athugið

Þessi frétt er meira en sex mánaða gömul og tölfræði gæti hafa breyst

Skammdegisstemming í Væntingavísitölunni

Íslendingar mælast nú mjög svartsýnir til stöðu og horfa í efnahags- og atvinnulífinu en Væntingavísitala Gallup (VVG) og allar undirvísitölur hennar lækkuðu á milli mánaða í október. Á árinu hafa gildi þeirra náð nýjum lægðum og svo virðist sem álit landsmanna á aðstæðum í þjóðfélaginu sveiflist í takt við tilfelli af COVID-19 farsóttinni hérlendis. Það kemur því fæstum á óvart að hljóðið í landsmönnum er býsna þungt um þessar mundir. Skammdegið og vaxandi atvinnuleysi hafa bætt gráu ofan á svart og útlit er fyrir langan vetur.


Skráðu þig á póstlistann okkar

Nýlega birt Væntingavísitala Gallup (VVG) lækkaði um rúm 13 stig frá síðasta mánuði og mælist nú 47,2 stig. Vísitalan hefur tvisvar á árinu mælst lægri en í október (44,4 stig í apríl og 43,8 stig í ágúst) en þar áður hafði hún ekki mælst viðlíka lág í 10 ár. Frá því í febrúar þegar COVID-19 fór að breiðast út hér á landi hefur vísitalan verið óvenjulega lág í samanburði við síðustu ár. Veirunni fylgja ýmsar takmarkanir eins og lokun líkamsræktarstöðva, sundlauga, hársnyrti- og snyrtistofa, sem og töluvert fleiri raskanir í íslensku samfélagi og þar með talið atvinnu- og efnahagslífi. Það sem af er ári hefur vísitalan verið að jafnaði 62 stig en það er tæplega 30 stigum lægra en meðtal síðasta áratugar. Minnir árið hvað þetta varðar einna helst á árið 2011 þegar horfur um efnahagsbata eftir hrunið voru enn býsna óljósar, atvinnuleysi talsvert og efnahagur fjölmargra heimila bágur.

Líkt og áður var snert á lækkuðu allar undirvísitölur Væntingarvísitölunnar á milli mánaða en hún samanstendur af 5 þáttum: mati á núverandi efnahagsaðstæðum, væntingum til efnahagsþátta eftir 6 mánuði, mati á núverandi aðstæðum í atvinnumálum, væntingum til ástands atvinnumála eftir 6 mánuði og væntingum um heildartekjur heimilisins eftir 6 mánuði.

Íslendingar þyngri á brún gagnvart framtíðinni

Undirvísitalan fyrir mat á núverandi ástandi lækkaði annan mánuðinn í röð og mælist nú 11 stig. Hefur hún ekki verið svo lág síðan í apríl 2011 (9,7). Vísitalan stóð í 106,5 stigum við upphaf ársins og hefur því lækkað um 90% síðan þá. Íslendingar eru þyngri í brún í október en í mánuðinum á undan þegar kemur að væntingum til aðstæðna í þjóðfélaginu eftir 6 mánuði en sú vísitala lækkaði um 16 stig frá síðasta mánuði. Sú vísitala er nú 71,3 stig sem er í takt við síðustu ár. Hafa ber í huga að spurningin um framtíðarhorfur er samanburðarspurning við mat á núverandi aðstæðum. M.ö.o. er spurt hvort aðstæður verði betri eða verri en nú. Sú vísitala sveiflast því alla jafna mun minna en matið á núverandi aðstæðum eins og sjá má á myndinni.

COVID stýrir stemmingunni

COVID veiran hefur verið ofarlega í hugum landsmanna þetta árið sem vonlegt er, og veltur stemmingin í þjóðfélaginu í stórum dráttum á framvindu hennar og á sóttvarnaraðgerðum ríkisins. Myndin hér að ofan sýnir dagleg tilfelli af COVID-19 smitum og þróun VVG síðastliðna mánuði. Þegar tilfellum fjölgar ört dregur að sama skapi úr Væntingavísitölunni og veltur það líklega að stórum hluta á því hvernig þróun smita verður á allra næstu vikum hvort gildi vísitölunnar í næsta mánuði muni vera enn lægri.

Fróðlegt verður að fylgjast með framvindu kórónaveirunnar og áhrifum hennar á íslenskan efnahag. Í nýútgefinni Þjóðhagsspá Íslandsbanka má nánar lesa um framtíðarhorfur í efnahagsmálum en VVG hefur töluvert forspárgildi þegar kemur að einkaneyslu hér á landi. Það fer væntanlega eftir því hvort horfur um þróun COVID-19 batnar og staðan á vinnumarkaði skánar með hækkandi sól hvort VVG glæðist að nýju á komandi ári.

 

Höfundur


Tryggvi Snær Guðmundsson

Hagfræðingur í Greiningu


Hafa samband