Eftir töluverða styrkingu krónu á fyrri helmingi ársins gaf krónan lítillega eftir á nýjan leik á þriðja ársfjórðungi. Við teljum að þá þróun megi að stórum hluta skýra með þremur áhrifaþáttum:
- Eftir umtalsvert innflæði tengt verðbréfakaupum erlendra aðila snemmsumars hefur slíkt flæði verið af skornum skammti síðan
- Ris Delta-bylgju faraldursins undir lok júlímánaðar og hertar landamæraaðgerðir í kjölfarið slógu á væntingar um gjaldeyrisinnflæði tengt ferðaþjónustunni
- Umtalsverður halli hefur verið á vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd síðustu mánuði, ekki síst vegna þess að innlend eftirspurn hefur tekið hressilega við sér
Flæði vegna skráðra nýfjárfestinga erlendra aðila var að vanda kortlagt í nýjustu útgáfu Fjármálastöðugleika, rits Seðlabankans. Þar kemur fram að eftir töluvert innflæði tengt slíkum fjárfestingum framan af sumri var flæðið lítillega neikvætt í júlí og ágúst. Innflæðið á fyrri hluta sumars var að sögn bankans fyrst og fremst tengt kaupum erlendra aðila á skráðum hlutabréfum. Eins og sjá má af myndinni hefur flæði vegna skráðra nýfjárfestinga á heildina litið verið talsvert jákvæðara frá öðrum ársfjórðungi en það var frá miðju síðasta ári fram til marsloka í ár. Á það að okkar mati sinn þátt í styrkingarferli krónunnar á fyrri helmingi ársins.